Þriðjudagur 20.10.2015 - 09:34 - Rita ummæli

Hjálpum heimilum að skulda minna

Heimilum landsins vegnar betur.  Þetta kemur fram í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika.  Skulda- og eignastaða þeirra hefur batnað verulega og ekki aðeins eru eignirnar að hækka í verði, heldur er fólk að borga niður skuldir.

Ég er glöð að sjá þetta.

Heimilin virðast hafa lært að skuldir eru ekki af hinu góða.  Lán er ekki lukka. 

En hafa allir lært?  Enn klingja í eyrum auglýsingar um hagstæð bílalán, um smálán sem redda helginni og aftur eru komnar fram hugmyndir um 90% eða jafnvel 100% lán til fasteignakaupa.

Hagfræðingar spá þenslu.  Þeir spá því að lágt atvinnuleysi, miklar kauphækkanir, auknar fjárfestingar og meiri hagvöxtur muni leiða til verðbólgu og tala um að ástandið minni á tímabilið 2003 til 2004.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að ríkisstjórnin leggi áherslu á að landsmenn búi við öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins og hafi raunverulegt val um búsetuform. Þar gegnir séreignastefnan ríku hlutverki, en markmiðið hlýtur þó að vera að hjálpa fólki að eignast húsnæði, en ekki bara að skulda meira.

Ég tel því að við verðum að styðja enn frekar við heimilin og hjálpa þeim að borga enn hraðar niður skuldir.

Breytum vaxtabótakerfinu í samræmi við það sem varaformaður fjárlaganefndar lagði til, þ.e. að þær fari inn á höfuðstól láns.   Á mínu borði liggja einnig tillögur um að hætta að tengja vaxtabætur við lántöku og tengja opinberan stuðning vegna húsnæðis frekar við fjölda einstaklinga á heimili ásamt tekjum og eignum þeirra líkt og stuðningur við leigjendur. Seðlabankinn lagði einnig til á sínum tíma að eitt af þjóðhagsvarúðartækjunum yrði reglur um veðsetningarhlutföll fasteignalána.  Við verðum að setja skýrar reglur um hámark veðsetningar fasteignar og að lántöku fylgi sú skylda að borga af höfuðstól lánsins. Í yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga skuldbundum við okkur til að styðja við fyrstu kaupendur t.d. með því að gera það varanlegt að nýta séreignasparnað sem innborgun inn á íbúð.

Einnig vil ég minna á séreignasparnaðarleið skuldaleiðréttingarinnar.  Hægt er að nýta hann til að greiða niður fyrirliggjandi fasteignalán eða að taka sparnaðinn út þegar ætlunin er að kaupa íbúðarhúsnæði eða búseturétt.

Þannig hjálpum við heimilunum að halda áfram að spara, að leggja fyrir og borga niður skuldir.

Það er kannski minna gaman og tekur lengri tíma.

En í því felst frelsi.

Frelsi frá skuldafjötrunum.  Frelsi til að vera frjáls þjóð.

Flokkar: Fjármálakerfið

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fimm? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur