Sunnudagur 16.10.2016 - 17:59 - 1 ummæli

Stöðugleiki og styrk stjórn áfram

Það gengur vel á Íslandi.  Stöðugleiki og styrk efnahagsstjórn hefur einkennt kjörtímabilið.  Við framsóknarmenn viljum tryggja að svo verði áfram.  Í dag kynntu Sigurður Ingi og Lilja Dögg okkar helstu áherslumál fyrir næsta kjörtímabil, sem öll byggjast á hinum mikla árangri sem náðst hefur í stjórn landsins.

Lækkum skatta á 80% launafólks.

Við ætlum að halda áfram að efla millistéttina á Íslandi, heimilin í landinu.  Lækka þarf skatt á meginþorra launafólks í samræmi við umbótatillögur Verkefnisstjórnar um breytingar og umbætur á skattkerfinu.  Þar má helst nefna 25% skattahlutfall í neðra skattþrepinu og útgreiðanlegan persónuafslátt.

Hjálpum ungu fólki að eignast heimili.

Lækka þarf vexti.  Endurskoða þarf peningastefnuna og tryggja að fjármálakerfið vinni með samfélaginu og fyrir það.  Engin ofurlaun eða ofurbónusa og raunvextir verða að endurspegla breyttan efnahagslegan veruleika á Íslandi.  Við ætlum að aðstoða ungt fólk með úrræðinu Fyrsta fasteign og með fjölgun Leiguheimila þannig að öll heimili búi við húsnæðisöryggi.  Hluti námslána verði styrkur og hægt verði að fresta afborgun námslána við kaup á Fyrstu fasteign í allt að 5 ár.

Eflum velferðina, fyrir alla.

Halda þarf áfram að efla velferðarkerfið.  Lágmarkslífeyrir aldraðra verði 300 þúsund krónur á mánuði og fylgi lágmarkslaunum á almennum vinnumarkaði. Tannlækningar aldraðra verði gjaldfrjálsar og hjúkrunarrýmum fjölgað um allt land.  Fæðingarorlof verði 12 mánuðir og greiðsluþak hækkað í 600 þúsund krónur, barnabætur hækkaðar og barnaföt verði án virðisaukaskatts.

Við vitum að framtíðin er björt ef rétt verður á mál­um haldið. Þar skipt­ir stöðug­leiki og festa mestu máli.  Þess vegna erum við tilbúin að starfa með öllum þeim stjórnmálaflokkum að loknum kosningum sem láta sig félagshyggju og jöfnuð varða og eru tilbúnir til að varðveita nauðsynlegan stöðugleika í íslensku atvinnu- og efnahagslífi.

Okkar er valið 🙂

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Einar Steingrímsson

    Þýðir þetta að þið séuð ekki tilbúin að starfa með Sjálfstæðisflokknum, eða telur þú, Eygló, að hann sé fylgjandi félagshyggju og jöfnuði? Og er það að „varðveita nauðsynlegan stöðugleika“ að gefa útgerðinni tugi milljarða en neita að bæta kjör þeirra sem lakast hafa það, eins og þið gerðuð í upphafi kjörtímabilsins?:

    „Þess vegna erum við tilbúin að starfa með öllum þeim stjórnmálaflokkum að loknum kosningum sem láta sig félagshyggju og jöfnuð varða og eru tilbúnir til að varðveita nauðsynlegan stöðugleika í íslensku atvinnu- og efnahagslífi.“

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fimm? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur