Þriðjudagur 04.04.2017 - 11:54 - Rita ummæli

Fjármálaáætlun 2018-2022: Loforð og áherslur.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartar framtíðar kynnti fjármálaáætlun sína fyrir árin 2018 til 2022 fyrir helgi.

Í skjalinu sem þingflokkar allra stjórnarflokka hafa samþykkt að leggja fram má finna öll þeirra helstu áform út kjörtímabilið og þá fjármuni sem hver og einn ráðherra hefur fengið í sína málaflokka.  Við síðustu framlagningu fjármálaáætlunar var það einmitt þarna sem ég þurfti að taka slag fyrir auknum framlögum í almannatryggingar.

…við misjafnlega mikla ánægju ýmissa.

Þess vegna sætir það nokkurri furðu hversu litla athygli nýja áætlunin hefur fengið.

Hér eru nokkur atriði sem hafa þó vakið athygli mína við fyrstu sýn.

Í fyrsta lagi er ekki komið að fullu til móts við kröfur háskólanna um auknar fjárveitingar.  Rektor HÍ hefur þegar bent á þetta.  Hins vegar hef ég ekki enn þá heyrt í framhaldsskólunum þar sem gert er ráð fyrir að fjárveitingar dragist saman ár frá ár, – ólíkt háskólunum þar sem fjárveitingar virðast aukast þótt það sé ekki jafn mikið og menn voru að vonast eftir.

Í öðru lagi er lítið, mjög lítið fjallað um húsnæðismálin í áætluninni og fjárveitingar munu dragast saman (bls 70).  Þannig virðist áætlunin endurspegla vel stjórnarsáttmálann.  Húsnæðisstuðningur á að dragast saman og stofnframlög til nýja leiguíbúðakerfisins sem ég samdi við verkalýðshreyfinguna um munu dragast saman verulega þegar líður á tímabilið.

Í þriðja lagi liggur fyrir tímasett áætlun um hækkun fæðingarorlofs í 600 þús. kr. á næstu þremur árum (bls 331).  Árið 2018 verða hámarksgreiðslur 520 þús. kr., 560 þús. kr. árið 2019 og 600 þús. kr. árið 2020.  Þakið er núna 500 þús. kr.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir miklum breytingum á bótakerfi öryrkja (bls 69)  Tekið verður upp starfsgetumat í stað læknisfræðilegs örorkumats.  Samhliða verður bótakerfið einfaldað þar sem bótaflokkar verði sameinaðir og útreikningar einfaldaðir.  Aukin áhersla verður á starfsendurhæfingu og að fólk geti verið lengur á endurhæfingarlífeyri.  Áhersla verður einnig á réttar greiðslur, bæði of- og vangreiðslur.  Áætluð gildistaka virðist vera 2019.  Gert er ráð fyrir 2,7 milljörðum kr. í breytingarnar það ár og svo 3,9 ma.kr   á ári þegar breytingarnar eru að fullu komnar til framkvæmda.

Í fimmta lagi er nefnt að ætlunin er að lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) (bls 69).  Hins vegar fann ég ekkert um fjármögnun lögfestingarinnar né hversu margir samningarnir verða.  Að meðaltali var kostnaður ríkisins vegna staks NPA samnings árið 2014 rúmar 11 milljónir kr. að meðaltali.  Síðan þá hefur kostnaður aukist og kostnaðarþátttaka ríkisins farið úr því að vera 20% í 25%.  Í árslok 2014 voru 4.830 einstaklingar skráðir sem þjónustuþegar hjá Hagstofunni.  Þetta hlýtur að skýrast, – og svo er aldrei að vita nema sveitarfélögin bjóðist til að borga lögfestinguna?

Í sjötta lagi segir fjármálaáætlunin að helsta aðgerð stjórnvalda í fjölskyldumálum í baráttunni gegn fátækt verður heildarendurskoðun á stuðning við barnafjölskyldur.  Þannig verður hugsanlega til ein tegund barnabóta í stað almennra barnabóta, barnalífeyris almannatrygginga, mæðralauna, barnabóta atvinnuleysistryggingakerfisins auk annarra bóta frá ríki til barnafjölskyldna.

Svo má að lokum benda á grein Guðjóns Brjánssonar um heilbrigðismálin í Fréttablaðinu í morgun. Þar kemur fram að meginskýringin á auknum útgjöldum til heilbrigðismála er nýr Landspítali.  Lítið verður gert sem snýr að rekstri á næsta ári og óskýrt er hvort ríkisstjórnin ætlar að standa við loforð um lægra greiðsluþak sem var ein af forsendum afgreiðslu Alþingis á nýju greiðsluþátttökukerfi.

Hvet því sem flesta til að lesa þetta athyglisverða skjal í leit að loforðum og áherslum nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur