Þriðjudagur 11.04.2017 - 08:55 - 2 ummæli

#Þaðerhægt

Auglýsingum Íslandsbanka (viðskiptabanki minn), um að með því að skipuleggja og gera áætlanir sé hægt að eignast húsnæði, hefur víða verið tekið illa. Þetta eru sömu viðbrögð og þegar ég skrifaði pistil fyrir nokkru um að lán væri ekki lukka. Á sama tíma segir umboðsmaður skuldara að umsóknum um greiðsluaðlögun frá ungu fólki á leigumarkaðnum hafi fjölgað.

Fyrir marga er mögulegt að skipuleggja sig, leggja til hliðar, fá hjálp frá mömmu og pabba og Nonna frænda eða Gunnu frænku til að eignast húsnæði.  En fyrir marga er það ekki mögulegt og verður ekki mögulegt að eignast húsnæði.

Þess vegna var almenna íbúðakerfinu komið á, til að þeir sem eru með lágar tekjur geti einnig eignast heimili.

Leiguheimili.

Í kjarasamningum 2015 samdi Alþýðusamband Íslands um nýtt félagslegt íbúðakerfi sem fól í sér styrki eða svokölluð stofnframlög frá ríki og sveitarfélögum fyrir allt að 2300 Leiguheimili.  Í tilefni 100 ára afmælis ASÍ var svo Bjarg íbúðafélag stofnað en það hyggst byggja 1150 leiguíbúðir á næstu árum, – og byrja að afhenda eina blokk á mánuði frá og með áramótunum 2018/2019.

En Bjarg er ekki eina félagið sem getur sótt um styrki til ríkis og sveitarfélaga.  Einhverjir aðrir verða að byggja hinar 1150 íbúðirnar á móti ASÍ.

Það gæti verið þú og þínir félagar.

Ríki og sveitarfélög hafa þegar úthlutað til byggingar eða kaupa á 509 Leiguheimilum. Í ár er hægt að sækja um 3 milljarða í stofnframlag ríkisins.

Og hvað þarf til?  Þú þarft að fá með þér 14 félaga þína til að stofna húsnæðissjálfseignarstofnun.  Tólf fara í fulltrúaráð, þrír í stjórn, 1 milljón króna í stofnfé og saman þurfið þið að útbúa vel rökstudda umsókn um af hverju sveitarfélagið þitt og ríkið ættu að veita ykkur styrk til byggingar eða kaupa á leiguhúsnæði.  Svo þarf að byggja og reka félagið, – og gera það vel.

Fyrir ykkur.  Því þetta yrði ykkar Leiguheimili.

Íbúðalánasjóður sér um úthlutun stofnframlaga ríkisins og má sjá nánari upplýsingar um Leiguheimilin hér.

Hafið endilega samband við sjóðinn til að fá nánari upplýsingar.

Ég skal einnig aðstoða áhugasama, ef þess er óskað.

#Þaðerhægt.

——————–

„Anything‘s possible if you´ve got enough nerve.“ J.K. Rowling

Ljósmyndirnar sem eru með pistlinum er af almenbolig íbúðum í Danmörku, en almenna íbúðakerfið byggir á danska kerfinu.

 

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Ummæli (2)

  • Jens Jónsson

    Afhverju viljum við skipuleggja samfélag þar sem Alþingismenn telja að þetta eigi að vera veruleiki margra?

    “ En fyrir marga er það ekki mögulegt og verður ekki mögulegt að eignast húsnæði.“

  • Eðlilegt vaxtastig gæti líka gert fleirum kleift að eignast heimili.

    Til þess þyrfti lækka vexti talsvert frá því sem nú er.

    #Þaðerhægt

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur