Þriðjudagur 27.2.2018 - 13:34 - FB ummæli ()

Stóra umskurðsmálið

Jæja, mér sýnist þjóðin loksins vera komin yfir hrunið og alla þá reiði sem því fylgdi. Umræðan er nú aftur farin að snúast um mál, sem virðist hérna utan frá séð dálítið furðuleg, eftir 21 árs utanveru í Bandaríkjunum.

Ég verð að játa að mér finnst dulitíð skondið hversu heitar umræður eru um lög sem kveða á um bann við umskurð drengbarna að viðurlagðri 6 ára refsingu, hvorki meira né minna, ekki síst í ljósi þess að ég veit ekki til þess að mikið sé um þessar aðgerðir uppá Íslandi yfirhöfuð.

Spurningin um að umskera eða ekki skera hefur raunar komið upp í minni fjölskyldu. Allir mínir þrír strákar eru fæddir á spítala í New York og þar er það ´default´að því er ég best skil að umskera drengi. Þetta er vegna þess, held ég, að bandaríska barnalæknafélagið (American Academy of Pediatrics (AAP)) mælir með umskurði á drengbörnum, vegna þess að þeir halda því fram að „the benefits of circumcision outweigh the risks“. Því er það, án þess að ég hafi gert á því viðamikla rannsókn, að flestir bandaríkjamenn eru umskornir við fæðingu. Mér skilst að þetta eigi víst að auka hreinlæti, minnka líkur á þvagfærasýkingum, minnka líkur á smitun kynsjúkdóma og jafnvel minnka líkur á krabbameini samkvæmt til dæmis Mayo Clinic, sem almennt er talinn einn virtasti spítali Bandaríkjanna

https://www.mayoclinic.org/tests-procedures/circumcision/about/pac-20393550

Mér skilst að World Health Organiztion (WHO) sé að reyna að gera umskurð sveinbarna í Afríku að forgangsverkefni til að stemma stigu við útbreyðslu alnæmis, sjá hér:

http://www.who.int/hiv/topics/malecircumcision/en/

Eðlilega sköpuðust því umræður um þetta milli mín og konu minnar hvort fara ætti að þessum læknisráðum bandaríkjamanna og WHO eða halda íslenskum sið. Konan mín virtist vilja fara eftir því sem hún taldi vera bestu ráð læknavísindanna. Ég verð hins vegar að játa að þessu var ég algerlega mótfallinn, og fannst þetta algerlega villimannslegur siður. Því var það að þegar allir þrír drengirnir fæddust var ég alltaf ákaflega stressaður á spítalanum til að koma í veg fyrir að drengirnir yrðu fyrir þessum limlestingum, enda um rútínu að ræða hér í USA, og ég hafði heyrt að slíkt væri stundum gert án þess að spurt væri, vegna þess að þetta væri svo almenn venja og almennt með þessu mælt. Niðurstaðan var sú að mér tókst að sannfæra konunu um að halda hinn íslenska sið, þvert á þessi bandarísku læknaráð sem ég tók raunar rétt mátulega hátíðlega eftir dálítið nánari skoðun. Og mér tókst með nokkuri harðfylgi að bægja frá hverjum þeim sem gerði sig líklegan til að framkvæma þennan sið á litlu drengina mína á spítalanum.

Sumsé, umræðan á mínu heimili hefur verið heilmikil um þetta mál, og er mér sent afskaplega illt auga af frúnni í þau örfáu skipti sem spurningar hafa vaknað um þvagfærasýkingu hjá einhverjum drengjanna eins og gengur og gerist hjá litlum börnum.

En ég hafði mitt fram. Ég var að reyna að láta mér detta í hug hvernig ég hefði brugðist við ef að bandarísk yfirvöld hefðu það í lög leitt, að tilstilli ráða bandaríska barnalæknafélagsins, að öll drengbörn skyldu umskorin að viðurlagðri 6 ára refsingu, í ljósi rannsókna um „the benefits of circumcision outweigh the risks.“ Mikið óskaplega hefði það farið í taugarnar á mér, ég veit varla hvernig ég hefði brugðist við. Mér af vitandi hefur engum heilvita manni dottið í hug að setja slík lög, þótt að læknar séu með ákveðnar ábendingar í þessa veru. Þetta er í höndum foreldrana.

Mig grunar að viðbrögð fólks af erlendu bergi brotnu yrðu svipuð ef þau væru upplýst um að við því lægi 6 ára refsing á Íslandi að fara að ráðum Mayo Clinic, eins virtasta spítala bandaríkjanna og WHO. Líklega yrði uppnámið þeim mun meira hjá þeim sem eru af menningarheimum þar sem þessi aðgerð er hluti af einhverri menningarhefð, fremur en að vera rökstudd á læknisfræðinlegum rökum. Ég er með tiltölulega afdráttalausa neikvæða skoðun á þessum sið sjálfur, en dettur ekki í hug að þröngva þeirri skoðun uppá aðra, að viðurlagðri 6 ára refsingu, nema fyrir því séu lögð miklu betri rök en ég hef séð í íslenskri umræðu. Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að sú umræða eigi líka betur heima í ríkjum þar sem þessi siður er í raun í heiðri hafður að læknaráðum, líkt og í Bandaríkjunum, og menn vita um hvað þeir eru að tala, frekar en að vera að rífast um þetta uppá Íslandi þar sem þessi siður tíðkast hvort sem er ekki yfir höfuð! Það er sosum sjálfsagt ef að íslenskir læknar telji sig á grunni einhverra rannsókna ekki vilja framkvæma þetta, enda hafa þeir líka enga reynslu í þessum efnum, en að fara að fangelsa fólk í sex ár sem er annarrar skoðunar, þegar lækanar í ýmsum ríkjum mæla með slíkum aðgerðum? Foreldrar þurfa auðvitað að taka fjölmargar ákvarðanir fyrir hönd barna sinna er tengjast heilsu og líkama þeirra og margar þessar aðerðir eru óafturkræfar, líkt og bólusetningar, gat á eyru, uppskurðir af alls kyns tagi. Stundum eru deilur um hvaða leiðir sé best að fara, og læknar deila um hvað sé best, en almennt finnst mér að það eigi að vera í höndum foreldra að taka slíkar ákvarðanir nema veigamikil læknisfræðileg rök séu gegn því. Ég á bágt með að sjá að svo eigi við í þessu efni miðað við það sem fram hefur komið. Það ætti nú að vera eitthvað merkilegra sem hægt er að rífast um?

PS. Einhver staðar sá ég að einhver vildi banna þetta á Íslandi vegna þess að börnum íslenskum myndi líða illa að líta öðruvísu út en aðrir þegar þeir færu í sund! Með þessum sömu rökum hefði ég þá væntanlega þurft að láta þessa aðgerð fara fram á mínum börnum í USA, því hérna eru þeir öðruvísi en allir aðrir sem flestir eru umskornir, sem kveikir þá væntanlega upp mikla sálarangist fyrir þá þegar þeir fara í sund. Ekki þykja mér þetta sérlega sannfærandi rök. Raunar hefur sú spurning komið upp hjá mínum strákum, afhverju þeir séu öðruvísi en flestir aðrir drengir í skólanum. Þá hef ég farið yfir það afhverju ég teldi þessa aðgerð óþarfa og bent á að hún væri ekki að íslenskum sið. En það var ekki til þess að þeim liði betur í sundi á Íslandi!

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 4.11.2017 - 19:18 - FB ummæli ()

Er stjórnmálalegur stöðuleiki til vinstri á Íslandi?

Það kemur mér skemmtilega á óvart að sjá að nú er verið að reyna að myndi stjórn frá miðju til hægri á Alþingi. Ég satt best að segja bjóst ekki við þessu og er ennþá bara hóflega bjartsýnn. En svo virðist sem Sigurður Ingi og Lilja Dögg séu að taka Framsóknarflokkinn aftur til þess að vera víðsýnn miðjuflokkur, sem getur unnið hvort heldur til hægri eða vinstri, en það þarf að leita ansi langt aftur í söguna til að finna flokkinn á þeim stað (Steingrímur Hermannsson og Alfreð Þorsteinsson koma upp í hugann). Og ef þetta verður lending er kannski ástæða til að hrósa Framsóknarflokknum fyrir þá lúsahreinsun sem átti sér stað fyrir kosningar. Ef svo fer fram sem horfir kemur flokkurinn fyrir sem tandurhreinn og með hreinar hendur eftir árálangar árásir andstæðingu um spillingu innan raða flokksins (það er kannski dálítið kaldhæðnislegt að sá flokkur sem réðist alltaf harðast á Framsóknarflokkinn fyrir að vera spilltur, var Sjálftæðisflokkurinn!).

Mér finnst hlægilegt að lesa pistla, eins og til dæmis hér, um að spori eigi að hræða og að samstarf þessara flokka sé einhver uppskrift að glundroða. Maður sér hvern mann éta þetta upp eftir öðrum.

Ef að maður lítur yfir stjórnmálasviðið síðustu 25 ára eða svo, eru þeir sem að þessu samstarfi koma, einmitt uppskrift að stöðugu stjórnarfari. R-listinn sem tók yfir borgina fyrir meira en 20 árum var að grunni til byggður á sömu stjórnmálaöflum. Eftir áratuga óstjórn Sjálfstæðiflokkinn komst á stöðugt stjórnarfar, þar sem flokkshestar fengu ekki lengur sérlega fyrirgreiðslu um byggingarlóðir heldur hæstbjóðendur,  byggðir voru upp leikskólar, mokaður (bókstaflega) skíturinn úr borginni með að setja upp holræsakerfi ofrv ofrv. Óstöðugleikinn í borginni hefur eingöngu sprottið upp á síðustu 25 árum eða svo þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefðu komið að meirihluta. Allir hafa þeir hafa einatt sprungið með látum og hver höndin á móti hverri annarri eftir ýmiss hneykslismál (man enginn kannski lengur eftir hinu svokallaða REI máli?!). Í núverandi borgarstjórn, til dæmis, eru Píratar, og ekki hefur orðið vart við mikinn ´óstöðugleika´ af þeim sökum. Raunar þvert á móti. Hvað sem mönnum þykir um störf meirihlutans í Reykjavík, virðist þar ríkja stjórnmálalegur stöðugleiki.

Ef skoðaðar eru síðustu ríkisstjórnir er Jóhanna Sigurðardóttir eini forsætisráðherra sem setið hefur heilt kjörtímabil síðan 2004, í vondu vondu Vinstristjórninni. Fjölmargar stjórnin Sjálfstæðisflokksins hafa splundrast í frumparta á sama tíma þá, og einatt vegna pólitísks óstöðugleika og hneykslismála.

Þannig að ég vona að þeir sem nú véli um mál takist að komast á langþráðum pólitískum stöðugleika í íslenskum stjórnmálum. Stjórnmálalegur stöðugleiki þessi dægurinn virðist vera á vinstri helmingi hins stjórnmálalega landslags.

Það sem ég vonast helst af þessari stjórn, er að hún ætli sér ekki um of, heldur einbeiti sér að þeim málum sem sameina. Og leitist líka við að hafa stjórnarandstöðu með í ráðum eftir bestu getu, þó það geti verið snúið í tilfelli Sigmundar Davíðs, þar sem hann virðist ekki mjög gjarn á að mæta í vinnuna. En það er óskaplega margt hæfileikaríkt fólk hægra megin við miðju, með mikla og verðmæta reynslu, hvers krafta þarf að virkja.

Þessi stjórn gæti því orðið sannkölluð sáttarstjórn, sem sameinaðist um það sem allir eru sammála, uppbyggingu í heilbrigðis og menntakerfi, en ekki síst aukna fagmennsku og umbætur í  stjórnsýslunni.

Nokkur dæmi:

Hvernig má það vera að einhver sýslumaður útí bæ geti sett lögbann á fjölmiðil rétta fyrir kosningar án þess að slíkt komi til kasta dómstóla (ég get ekki ímyndað mér að nokkuð slíkt gæti til dæmis gerst hérna í Bandaríkjunum). Allir flokkar eru sammála um að þetta var fáránleg stjórnsýsla, þar á meðal Sjálfstæðisflokkurinn. Þetta er lýðræðisríki til háborinnar skammar. Mér sýnist líka víðtæk samstaða um að bæta verklag um skipan dómara og annað slíkt. Almennt þá þarf bersýnilega að endurskoða lög um umgjörð fjölmiðla og stjórnmála almennt, til dæmis er ekki heilbrigt eins og í ljós kom fyrir síðustu kosningar að hægt sé að fara framhjá lögum um fjármögnun kosningabaráttu með því að stofna félög sem enginn veit hver stendur á bak við og dæla út neikvæðum auglýsingum í gegnum facebook og youtube. Löggjafinn í Bandaríkjunum er að fara að taka á þessu, en það á hinn íslenski að gera líka. Þetta er þverpólitískt mál.

Annar er tengist fjölmiðlum. Eftir hrun var víst gerð tilraun til að gera eignarhald að fjölmiðlum gagnsærra. Það er augljóst að sú tilraun hefur mistekist. Hver á, til dæmis, eiginlega DV? Mér sýnist einhver lögmaður úti í bæ vera búinn að kaupa og selja sjálfum sér DV margoft síðustu ár, án þess að nokkuð komi fram hver standi þarna raunverulega að baki.

Meðferð flóttamanna er svo annað. Þótt menn kunni að greina á hversu marga á að taka við, held ég að það augljóst að ferillinn sem málin eru í dag er engum að skapi. Best væri ef hægt væri að ná víðtækri sátt á þingi um hvernig að þessum málum er staðið, og þar verða allir að gefa eitthvað eftir sínum ítrustu kröfum. Þetta ætti ekki að vera pólitískt mál, og það að gera það að pólitísku bitbeini gefur öfgaöflum tækifæri, en Íslendingar hafa verið blessunarlega lausir við slíkt fram til þessa (og tek ég þá ekki inní myndin einstaka daður tiltekinna pólitíkusa í aðdraganda kosninga).

Stjórnmál síðustu ára hafa að miklu leiti verið „uppgjör við hrunið“. Gott og vel. En nú væri gott ef menn einhentu sér í það, með þverpólitískum hætti, að setja betri lagaumgjörð fyrir viðskiptalífið og bankana. Það þarf að gera miklu betur til að koma í veg fyrir innherjaviðskipti og umboðsvip af því tagi sem voru ótrúlega algeng fyrir hrun, og virðast því miður ennþá viðgangast. Einn lærdómurinn eftir hrunið er að það virðist óskaplega erfitt að rifta samningum þar sem augljóslega er um gjafagjörninga að ræða, eða auðljós innherjaviðskipi. Það er Alþingi að setja lögin sem eiga að koma í veg fyrir þetta. Og nú er þá bara að bretta upp ermarnar. Þetta snýst um að læra af fortíðinnni.

Eitt sem því tengist er að það ætti að setja lög sem gera eignarhald á fyrirtækjum mun gegnsærra, því að hið flókna net eignarhaldsfyrirtækja og aflandsfélaga var gróflega misnotað fyrir hrun. Þetta var gert af margvíslegum ástæðum, til dæmist il að komast undan skatti, eða komast hjá reglum um lánveitingar til tengdra aðila, eða til að búa til fléttur sem fólu í sér gjafagjörning osfrv. Það eru fjölmargar leiðir sem hafa verið farnar í nágrannaríkjunum, til dæmis með skattlagningu, sem að geta komið í veg fyrir fyrirtækjaflækjur af því tagi sem sáust fyrir hrun. Þær virðast því miður ennþá algengar að því er virðist. Það á að vera forgangsverkefni að setja betri umgjörð um þessi mál á Íslandi.

Svo verður að ríkja miklu betra gagnsæi um hvernig eignir eru seldar úr höndum bankanna og ríkisins (hvernig væri til dæmis að koma í veg fyrir að þeir sem kaup bankanna næst, gerir það ekki með því að gefa hvorum öðrum lán eins og síðast!). Þetta er ekki pólitískt mál, heldur snýst um að hámarka arð skattgreiðenda og tryggja stöðugleika. Framundan er sala mikilla eigna, og það verður að koma í veg fyrir mál líkt og Borgunarmálið alræma. Raunar ætti Alþingi líka að skoða hvernig á því stendur að lagaumgjörðin er ekki betri en svo, að ekki hafi verið hægt að rifta þeirri sölu, þegar í ljós kom hvernig í pottinn var búið (sjá t.d. hér). Það eru hagmunir Alþingis í heild að þetta sé gert almennilega til að byggja upp traust í íslensku samfélagi. Í eðli sínu er þetta ekki pólitískt mál, heldur snýst bara um að gera hlutina almennilega en ekki með þessu endalausa sleifarlagi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.11.2017 - 15:44 - FB ummæli ()

amanaP stjórn?

Sjálfur spáði ég Panamastjórn 2.0 fyrir og eftir kosningar en nú sé ég einhverjar raddir um andhverfu þess, það er allir flokkar utan D og M, nokkur konar amanaP stjórn, sumsé andhverfa Panama.

Ekki veit ég hversu alvarlega maður getur tekið slíkum fréttum, og af sögunni að dæmi er þetta kannski ekki mjög líklegt, og yrði í raun einsdæmi í Íslandsögunni.

En ef svo ólíkleg vill til að hún kemst á koppinn, held ég að það væri hið besta mál og alger nýlunda sem fróðlegt verður að fylgjast með. Að mörgu leiti snerust síðustu tvær kosningar um einhver konar hneykslismál sem spruttu upp útaf aulalegri stjórnsýslu og siðferðismálum, að ríkið væri nánast rekið eins og einhver sjoppustarfsemi, fjölskylduapparat.

Ef til vill væri sniðugt að setja á laggirnar stjórn sem hefði sér tiltölulega þröng markmið, enda ekki umboð frá þingi fyrir meiriháttar breytingar, sem fyrst og fremst sneru að því að gera stjórnsýsluna opnari og fagmannlegri, meiri kröfur er varðar hagsmunaskráningar og viðskiptatengls stjórnmálamanna, stífari kröfur um fjármögnun stjórnmálanna osfrv. En fyrst og fremst gera stjórnmál íslensk „leiðileg“ að því leitinu til að ekki séu uppi endalaus hneykslismál, og fólk geti einbeitt sér að áhugaverðari hlutum, eins og frammistöðu karla- og kvennalandsliða okkar í fótbólta.

Og leggja þá til hliðar stærri átakamál eins og ESB, stórfelldar breytingar á skattkerfi, endurstokkun landbúnaðar- og sjávarútvegsmála, einstrenginslegar kröfur í stjórnarskrármálinu, osfrv. Einfaldlega einbeita sér að því sem þessir sex flokkar eru þó sammála um en ekki einblína á það sem þeir eru óssámmála um að gera. Ef menn eru ósáttir, er ágætt að hafa í huga þegar erfið málamiðlun er gerð: Hvað hefði Panamastjórnin 2.0 gert? Hefði það verið skárra?

Mig grunar raunar að það sé merkilega margt, eins og til dæmis aukinn stuðningur við heilbrigðis- og menntakerfið, siðbót og aukin fagmennska í stjórnmálalífi, húsnæðismál, að sala ríkiseigna verði gert í opnum útboðum osfrv. Ekki væru heldur úr vegi að reyna að láta stjórnarandstöðu koma miklu meira að málum en tíðkast hefur í íslenskum stjórnmálum og skapa þannig meiri sátt um breytingar.

Í raun er litróf íslenskra stjórnmála ansi þröngt, miðað við það sem gengur gerist annars staðar, þar sem rifist er um hvort hið opinbera eigi yfirleitt að bera einhverja ábyrgð í heilbrigðismálum, um byssueign, fóstureyðingar, réttindi samkynhneygðra osfrv osfrv. Í samanburði við bandarísk stjórnmál eru allir íslenskir stjórnmálaflokkar í bandaríska Demókrataflokknum. Enda minnir mig að á sínum tíma hafi Obama notið stuðnings 97 prósent íslenskra kjósenda samkvæmt könnunum (ekki man ég hvernig það skiptist milli Trump og Hillary). Hvaða flokkar sem er ættu að geta setið saman í stjórn, en á þessum tímapunkti er spurningin hvort ekki sé fínt að gefa SDG og Bjarna smá frí, eftir allt sem undan er gengið?

Svo má setja öll hin málin, eins og stjórnarskrá, landbúnað, sjávarútveg osfrv. í sáttarfarveg og sjá hvort til sé sameiginlegur flötur á kjörtímabilinu. Mig grunar að hann sé til, án þess að ég myndi þora að spá neinu fyrir um það.

Ég gerir ráð fyrir að stjórn, sem hefði ekki á dagskránni jafn róttækar breytingar og fyrsta stjórnin sem mynduð var eftir hrun, myndu valda mörgum vonbrigðum sem kusu þá flokka, enda myndi slík stjórn sameinast um lægsta samnefnara. En þá verða þeir aftur að velta fyrir sér hver hinn kosturinn er, sem mér sýnist vera Panamastjórn 2.0, og átta sig á því að umboð fyrir stórfelldum breytingum er ekki fyrir hendi á Alþingi. Panamastjórn myndi ekki takast að koma á friði og líklega ekki lifa af kjörtímabilið, en kannski andhverfa hennar ætti betri möguleika. Hvort er skárri kostur, og hvort er líklegri til þess að mynda einhvers konar sátt í samfélaginu um næstu skref?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 31.10.2017 - 15:26 - FB ummæli ()

Næsta stjórn: Sigurður Ingi í lykilstöðu?

Ég spáði Panamastjórn 2.0 fyrir kosningar (D+C og B+M), og sýnist úrslit í samræmi við það. Sú spá stendur enn, þótt ég hafi að vísu ekki gert ráð fyrir munstrinu D+B+M+F sem er aðeins popúlískari útgáfa af þeirri stjórn. En hvað veit ég?!

Stærsta óvissuefnið í mínum huga er Sigurður Ingi, formaður Framsóknar, og hvort hann vilji renna saman við Miðflokkinn í ríkisstjórn. Vandi Sigurðar Inga er sá að þá mun hann ef til vill mæta SDG í næstu formannskosningum Framsóknar, eða kannski Lilju Dögg sem gæti þá teppalagt fyrir sameiningu með Sigmundi í aðdraganda næstu kosninga. Ef gamla Framsókn ákvæði að halla sér til vinstri, gæti hún vel gert það, og þá væri naflastrengurinn við SDG rofinn (til dæmis væri munstrið BSVPC með góðan meirihluta) og Sigurður Ingi myndi styrkja stöðu sína sem formaður Framsóknar.

Mig grunar að það gæti orðið gott skref fyrir Framsóknarflokkinn, þótt spá mín um Panamstjórn 2.0 (DBMC eða varíasjónin DBMF) sem líklegustu niðurstöðuna standi enn. Sú lending verður kannski ekki strax, en eftir dálítið japl er hún líklegust. Afhverju? Því þarna eru á ferðinni sömu hagsmunahópar og hafa verið saman í ríkisstjórn mestalla lýðveldissöguna … sem eru vel vanir að gera málamiðlanir til þess að komast til valda. Og á Íslandi er það þannig að það er ansi mikils virði, í beinhörðum peningum, að vera við völd eins og dæmin sanna, nú þegar framundan er einkavæðing bankanna og sala ýmissi eigna sem ríkið tók yfir í kjölfar hruns.

Ég sé að aðrir velta upp þeim möguleika á „sáttarstjórn“, sjá hér, Sjálfsæðisflokks, VG og Samfylkingar. Það getur vel verið að þetta sé í spilunum, ekki hef ég hugmynd um það. Mig grunar reyndar að ef Sigurður Ingi fer að ofmeta stöðu sína, haldi að hann sé í lykilstöðu til að myndi stjórn bæði til vinstri og hægri og ráði þessu, gæti hann gleymt því að fyrir VG væri miklu betra að vera með S og D í ríkisstjórn (fremur en B og D) og fyrir D er líklega ekki sérlega spennandi að fara aftur í samstarf við SDG. Ef „sáttarstjórn“ yrði ofan á myndi Sigurður Ingi allt í einu lenda í stjórnarandstöðu með SDG, og ekki ólíklegt að þær raddir færu að heyrast að sameina eigi krafta flokkanna undir forystu ……

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 26.10.2017 - 19:41 - FB ummæli ()

Trumpun íslenskra stjórnmála

Skiptir sannleikurinn máli?

Síðastliðið ár hefur verið mörgum okkar sem búum í Bandaríkjunum afar þungbært með kosningu Donalds Trump (eða Dóna Prump eins og Steinar Gauti frændi minn kallar hann), þar sem ég hef hafist við í 20 ár.

Nú hefur það nefnilega gerst, að forseti Bandaríkjanna beinlínis lýgur þindarlaust. Eitt frægasta dæmið er þegar hann sagði að fleiri hefðu mætt á embættistöku sína en Obama, þegar myndir af staðnum bentu til hins þveröfuga. Um þetta var ekkert hægt að deila, frekar en hvort fimm sé stærri tala en þrír.

Trump er dálítið eins og kall sem stendur yfir manni, bendandi á hvítan vegg: “Sérðu ekki að þessi veggur er gulur”. Fyrst finnst manni náttúrulega bara að kallinn hljóti að vera brjálaður, en eftir því sem þetta ágerist, og bullið hrannast upp er maður farinn að halda að maður sé sjálfur að ganga af göflunum.

Ekki bætir úr skák að þegar sagðar eru fréttir af manninum, hreinar staðreyndir eins og til dæmis  “Trump segir að hvítur veggur sé gulur” ærist kallinn og twittar út um heima og geima um “fake media” – þetta sé allt saman einhver samsæri fjölmiðla og vinstrisinnaðrar “elítu” gegn sér. Hann hefur líka talað að um að breyta þurfi lögum til þess að hægt sé að fara í meiðyrðamál gegn fjölmiðlafólki (líkt og virðist afar auðvelt að gera á Íslandi og Sigmundur Davíð hefur lofað að gera eftir kosningar) og hótar að taka “útsendingarleyfi” frá tilteknum fjölmiðlum, sem að vísu er sem betur fer ekki hægt í Bandaríkjunum, þar sem ekki eru tilkippilegir „sýslumenn“ til að setja á „lögbann“ á tiltekinn fréttaflutning fjölmiðla — enda bryti slíkt líklega gegn stjórnarskrá.

Þá rekur Trump Hvíta Húsið nánast eins og sjoppu eða fjölskyldufyrirtæki, og svarar öllum spurningum um hugsanlega hagsmunáreksta vegna eigna sinna og venslamanna, og ásökunum um nepótisma,  með eintómum skætingi, hroka og dónaskap.

En það sem mér finnst kannski furðulegast að öllu er þetta: Donald Trump nýtur ennþá stuðnings um 37.5 prósent bandarísku þjóðarinnar (sjá til dæmis hér)!

Að einhverju leiti sýnist mér að svipuð þróun sé að eiga sér stað uppá Íslandi. Trumpun íslenskra stjórnmála. Það er til dæmis staðreynd að Sigmundur Davíð átti í gegnum konu sína kröfu uppá hálfan milljarð króna á föllnu íslensku bankana, sem hann hélt leyndu fyrir þingi og þjóð, í trássi við siðareglur. Á sama tíma og ríkisstjórn hans átti í viðræðum við þessa sömu kröfuhafa. Hann sat beggja vegna borðsins og hélt því leyndu. Vandræðanleg undanbrögð Sigmundar við að segja satt, náðust á myndband og urðu að aðhlátursefni um allan heim (sjá t.d. einn vinsælasta gamanþátt Bandaríkjanna hér). Þegar hann var spurður um þetta í Kastljósi fyrir þessar kosningar fyrir um mánuði síðan sagði hann einfaldlega “Hvorki ég eða konan mín höfum nokkurn tíma átt pening á aflandseyjum. En það er önnur saga og það virðist taka tíma að koma því öllu til skila. En haltu áfram með prógrammið!“ Þessi veggur er gulur. Fjölmiðlamaðurinn svarar: “Já, ehhh, skulum bara fara í þessar pólitísku vendingar að undanförnu”. Fátt hef ég heyrt um þetta síðan, þó að vísu hafi ég ekki fylgst sérlega vel með. Það var engin eftirfylgni, að því er virðist, en hinn prjónandi hestur Sigmundar virðist á fljúgandi ferð meðal íslenskra kjósenda.

En þeir eru fleiri gulu veggirnir.  Ég hef orðið þess var að SDG lofar nú því að ríkið kaupi Arionbanka og gefi hann svo fólkinu í landinu. Hér er öllu grautað saman. Í fyrsta lagi, ef markmikið er að gefa fólki banka, af hverju þá ekki að gefa þá sem nú þegar eru í eigu ríkisins, það er Landsbanka eða Íslandsbanka? Í öðru lagi, þá getur það vel verið að það sé skynsamlegt að nýta forkaupsrétt ríkisins á Arion banka, ef sá forkaupsréttur er fyrir hendi. Það má gera ef slíkt kemur skattgreiðendum til góða og ef til þess standa sannfærandi rök. Ég hef ekki skoðað viðskiptalegar forsendur þessa, en er viss um að hvaða ríkistjórn sem við tekur mun fá sérfræðinga til þess að meta kosti þess og galla. En það hefur ekkert með það að gera að dreifa svo þessum bréfum, eða einhverjum öðrum, til almennings. Ef einhverjir peningar græðast með forkaupsrétti ríkisins á Arionbanka má nota þá í hvað sem er, til dæmis heilbrigðiskerfið eða skattalækkanir fyrir hvaða tekjuhóp sem er. Þetta er óskaplega svipaður málatilbúnaður og SDG hafði um “leiðréttinguna miklu” fyrir síðustu kosningar. Það voru allir sammála um að það þyrfti að afskrifa kröfur erlendra kröfuhafa eins og svo loks var raunin, eins og kom fram í máli Seðlabanka Íslands löngu áður en Sigmundur fór að gera þetta að kosningamáli. En það, að afskrifa þessar erlendu kröfur, hafði hins vegar ekkert með það að gera að “leiðrétta” innlend húsnæðislán sem SDG tóks einhvern veginn að grauta saman.  “Leiðréttinging,” eins og við margir vöruðum við, og kom svo seinna í ljós að var rétt mat, gagnaðist aðallega íslensku stóreignafólki sem þurfti ekki á slíkum fjáraustri að halda. Á saman tíma eru spítalar landsins og menntakerfi í tómu tjóni (ég fjallaði um þetta fáránlega lýðskrum fyrir þar-síðustu kosningar hérna, og mér sýnist ekkert hafa breyst. Þessi grein gæti hafa verið skrifuð fyrir þessar kosningar með minniháttar breytingum).

Mér sýnist svipað uppá teningnum þegar kemur að Bjarna Benediktssyni og það, hvort það skipti yfir höfuð einhverju máli að svara spurningum um hluti er orka tvímælis í embættisverkum hans eða viðskiptum. Hér birtist annað dæmi um Trumpun íslenskra stjórnmála. Upp hafa komið fjölmörg álitamál, sem Bjarni hefur í litlu svarað, enda fáir til að spyrja að fyrra bragði, og því erfitt að leggja mat á. Á hinn bóginn er einfaldlega sett lögbann á þann fjölmiðil sem harðast gekk fram í að spyrja snúinna spurninga, sem hann neitaði að svara. Og aðrir fjölmiðlar virðast lyppast niður eftir að sögur birtast af forsætisráðherra öskrandi á fjölmiðlamenn (sjá hér) vegna sjálfsagðrar umfjöllunar. Svör Bjarna eru einfaldlega: “Þetta hefur allt verið skoðað”. Þessi veggur er gulur.

Ólíkt fjölmiðlamönnum, reyndi raunar 18 ára menntaskólanema að spyrja forsætisráðherra um hið svokallaða Borgunarmál sá ég í fjölmiðlum um daginn (sjá t.d. hér). Í staðinn fyrir skýr svör, fengum við þetta um Borgunarmálið frá Bjarna. “Að taka Borgunarmálið sem dæmi um það að það sé eitthvað að í baklandi Sjálfstæðisflokksins er alveg ótrúlega ómerkilegt, fyrirgefðu, alveg ótrúlega ómerkilegt. Það hefur hvergi nokkur staðar, nokkur staðar, komið fram ein einasta vísbending um að Sjálfstæðisflokkurinn, ég sem fjármálaráðherra, eða einhver í stjórnarkerfinu hafi reynt að hafa áhrif á niðurstöðu í því máli og þess vegna er þetta ótrúlega ómerkilegur áróður sem þú ert að flytja hér í salinn um það mál. Þetta er ekkert nema áróður þetta Borgunarmál, það er engin innistæða fyrir öllum stóru orðunum. Ég verð bara að fá að verja mig fyrst menn ætla að taka það upp hér og nota gegn mér. Þetta er ómerkilegt.“

Þetta er forsætisráðherra Íslands á kosningafundi að svara spurning 18 ára unglings, varðandi málefni eftir hrun, þar sem í ljós kom að föðurbróðir ráðherra og einn helsti viðskiptafélagi fyrir hrun hagnaðist amk um hundruðir milljóna á kaupum á fyrirtæki af Landsbankanum í lokuðu söluverli sjá hér og hér, þegar Landsbankinn var að mestu eign ríkisins og því ábyrgð fjármálaráðherra á þeim tíma sem hét ….. Bjarni Benediktsson.

Forsætisráðherra landsins finnst ekki nokkur einasta ástæða til að rökstyðja mál sitt, skíra það út, hægt og rólega fyrir kjósendum sínum, að þetta svokallaða Borgunarmál hafi farið eftir fullkomlega eðlilegri stjórnsýslu. Er flókið að útskýra það ef þetta var eðlileg stjórnsýsla? Í staðinn ræðst hann á 18 ára krakka með fúkyrðaflaumi. Ekki hef ég heldur séð nein skýr svör um ýmiss önnur álitaefni sem risu um viðskipti ættingja hans eftir hrun gagnvart ríkinu, sjá t.d. þetta eða þetta, osfrv osfrv. Og um þetta er ekkert er um fjallað? Hvernig er hann á litinn þessi veggur?

Ég held að þessi þróun eigi eingöngu eftir að ágerast ef kosninga spá mín (sjá hér) um Panamastjórn 2.0 gengur eftir….

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.10.2017 - 14:25 - FB ummæli ()

Kosningaspá: Panamastjórn 2.0

Var að skoða síðustu kannanir, sjá MMR hér.

Samkvæmt þessu sé ég ekki betur en að Panamastjórn 2.0 sé í kortunum. Sigmundur Davíð og Bjarni Ben munu sameinast um völd á ný. Sjálfstæðisflokkur og klofningframboð hans (Viðreisn) fá samtals 28.4. Framsókn og klofningsframboð hennar (Miðflokkurinn) fá samtals 20.9. Ég sé ekki betur en úrslitin séu komið langleiðina í trausta meirihlutastjórn þessara hefðbundnu afla í íslensku stjórnmálalífi.

Það er óneitanlega dálítið kyndugt, að nú svo skömmu eftir hið alþjóðlega Panamaskjalahneyksli sem sprengdi upp ríkisstjórn Íslands, þá sé nú rétt rúmlega ári síðar nákvæmlega sömu aðilar að setjast í valdastóla.

Það er óneitanlega líka dálítið grátbroslegt hvernig þetta allt saman kemur til. Þetta gerist með því að hluti Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins skipta um kennitölur í gegnum útibúin, Viðreisn og Miðflokkinn, leidd af fyrrum formanni og varaformanni gömlu flokkanna. Einhverjir kunna að segja sem svo að ólíklegt sé að þessi flokkar vinni saman vegna „persónulegrar óvildar“. Þetta held ég að sé alger misskilingur. Samstarf Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins hefur aldrei byggt á persónulegri velvild forystumanna flokkanna. Samvinnan byggir á sameiginlegum hagsmunum. Þeir eru mjög sterkir. Það eru nákvæmlega sömu valdaklíkur, og fjölskyldur, á bak við þessi öfl í dag og hafa verið frá lýðveldisstofnun eða svo.

Enn önnur írónían er sú, að kosningarnar fara fram þegar búið er að setja lögbann á tiltekinn fréttaflutning er varða forystumenn þessara afla af alkunnum flokkshesti Sjálstæðisflokksins sem var skipaður sýslumaður Reykjavíkur af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Af fréttum að dæma hefði hann gert slíkt hið sama í tilfelli Panamaskjalanna, hefði hann haft til þess tækifæri. Og nú eru þær umræður sem spruttu út af þessum fréttum, sem nú er búið að banna, algerlega þagnaðar.

Kannski er það svo hámark íróníunnar með hvers konar kosningarloforðum þessir stökkbreyttu Sjálfstæðis og Framsóknarflokkar ætla að vinna. Það gera þeir — skilst mér — með því lofa því að „sækja milljarða“ úr bönkunum. Ég ætla að játa að ég treysti þeim vel til að sækja milljarða í bankana. Þessir flokkar hafa yfirgripsmikla reynslu af því að taka milljarða úr bönkunum. Kannski er meiri ástæða til að hafa áhyggjur af því í vasa hverra allir þessir milljarðar munu lenda.

Ekki ætla ég sosum að enda þennan pistil með fullyrðingum um að Íslendingar séu enn og aftur að verða að alþjóðlegu athlægi, þótt eflaust kunni einhverjir að taka slíkan pól í hæðina. Ég er miðaldra kall sem hefur búið í Bandaríkjunum í 20 ár. Eftir kjör Donald Trump hér í Bandaríkjunum horfa stjórnmálin svo skringilega við mér, að það er nánast ekkert sem getur lengur komið mér á óvart. Ekki einu sinni Panamastjórn 2.0 sem nú er að taka við. Eins og Churchill orðaði það svo ágætlega „Democracy is the worst form of government, except for all the others.“

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.10.2017 - 00:21 - FB ummæli ()

Lögbann á fjölmiðla

Það er með algerum ólíkindum að í lýðræðisríki geti það gerst, að einhver sýslumaður útí bæ geti bannað heilum fjölmiðli, nokkrum dögum fyrir kosningar, að fjalla um fjárhagsleg málefni stjórnmálamanns á grundvelli upplýsinga sem sá fjölmiðill býr yfir (sýslumaðurinn sem um ræðir virðist raunar vera með athygliverðann bakgrunn, svo ekki sé meira sagt, og ekki sérlega góð reynsla af afskiptum hans af fyrri kosningum, sjá hér). Mér er óskiljanlegt afhverju þetta er ekki tekið fyrir samstundis af þar til bærum yfirvöldum, og þessu hnekkt strax — enda flestir lögfræðingar sammála að þetta lögbann standist enga skoðun (sjá t.d. hér og hér) — og almannahagsmunir í húfi. Það er fáránlegt ef ekki fæst niðurstaða fyrr en eftir kosningar. Á það að lýðast að einhverjir sýslumenn uppá sitt einstæmi ráðist inná fréttastofur og loki fyrir fréttafluttning einstakra fjölmiðla nokkrum dögum fyrir kosningar? Ef þetta er löglegt, þarf alvarlega endurskoðun á lagaramma íslenskrar fjölmiðlunar.

Upphaflega krafan gekk meira að segja út á — eins fáránalegt og það nú hljómar — að umræddur fjölmiðill ætti að eyða öllum skrifum sínum á netinu um þessi efni (það kom raunar á óvart að ekki skyldi krafist brennu á prentuðu efni líka!).

Ekki hef ég kynnt mér í neinum smáatriðum um hvað þessi fréttaflutningur allur snýst sem nú er búið að banna. Hvað sem þessu líður, er ekki búið að banna öðrum fjölmiðlum að fjalla um þetta. Og nú er þetta stórfrétt. Það er sjálfsögð krafa kjósenda til fjölmiðla að fá upplýsingar og svör um hvað þetta allt snýst og menn séu krafnir svara. Að því er ég best get séð er m.a. um að ræða fjölmargar greinar þar sem uppi eru ásakanir um innherjaviðskipti, afléttingu ábyrgðar á kúlulánum til sérvalinna viðskiptavina Glitnis með stjórnmálatengs, veitingu gífurlegra hárra lána til kaupa á olíufélagi í formi kúluláns þegar þeir aðilar sem lánið fengu voru ráðandi í Glitni á þeim tíma sem lánið var veitt, vafningsviðskipti þar sem áhætta erlendra banka var velt yfir á Glitni sjálfan sem leiddi til þess að eignfjárstaða bankans var stórfelldlega löskuð — og að í kjölfarið hafi þeir sem að þessum viðskiptum stóðu selt bréf sín í bankanum ef til vill á grunni þessara upplýsinga — jafnvel ásakanir  um að forsætisráðherra þjóðarinnar hafi sagt ósatt fyrir dómi! osfrv osrfv. Sjá t.d. hér, hér, hér, hér, hér, hér, hér, hér, hér, hér osfrv.

Það er prófsteinn á íslenska fjölmiðla hvort þeir fari í þessi mál af einhverri alvöru og spyrji þeirra spurninga sem þessar fréttir kveikja og krefjist svara. Þessar upplýsingar eiga að koma almennilega fram og það þarf að gefa þeim sem sitja undir þessum alvarlegu ásökunum gott rými til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Þannig á opið umræða í lýðræðisríki að virka. Það er svo kjósenda að kveða upp dóm. Inn í þann feril á ekki einhver sýslumaður útí bæ að vera þvælast.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.10.2017 - 14:55 - FB ummæli ()

Furðufréttir Fréttablaðsins af SDG

Forsíða Fréttablaðins í dag lýsir líklega einhverju furðulegasta fréttamati sem ég hef séð.

Fyrir nokkru kom í ljós að þáverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð, og fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, áttu pening í skattaskjólum.

Þetta kom í ljós vegna leka í gegnum hin svokölluðu Panamaskjöl.

Það sem gerði mál Sigmundar Davíðs sérstaklega alvarlegt var það, að í ljós kom að hann átti í gegnum konu sínu kröfur á föllnu bankana er námu hálfum milljarði króna. Og hafði engum frá þessu sagt, ekki samstarfsmönnum í ríkisstjórn, ekki yfir höfuð neinum. Af einhverjum ástæðum, kom Sigmundur Davíð sér einnig undan því að skrifa undir reglur sem gerðar voru til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og innherjaviðskipti. Allir sem komu að viðræðunum við kröfuhafa bankana þurftu að skrifa undir þessar reglur, þar á meðal Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra (sjá hér). En ekki Sigmundur Davíð.

En um hvað er forsíða Fréttablaðiðsins í dag? Það er ómögulegt að lesa það úr fréttinni, en söguþráðurinn er eftirfarandi:

  1. Aflandsfélagið Wintris greiddi ekki skatta í samræði við lög og reglur um árabil.
  2. Mánuð eftir að Panamahneykslið reið yfir, skrifuðu Sigmundur og frú skattayfirvöldum bréf og óskuðu eftir því að skattaframtöl þeirra frá 2011 til 2015 yrðu „leiðrétt“ og sögðu í bréfi sínu að skattstofninn hafi verið „vantalinn“.
  3. Ríkisskattstjóri félst á beiðni hjónanna um að greiða skatt sem þau höfðu ekki greitt áður en ljóstrað var upp um málið.
  4. Að auki var endurákvarðaður auðlegðarskattur á konu forsætisráðherra og stofn til tekjuskatts var hækkaður frá 2011-2015.
  5. Úrskurður skattstjóra var hjónunum ekki að skapi, enda um háar fjárhæðir að ræða. Þau vildu gjaldfæra gengistap til að lækka hið nýja skattamat og kærðu því úrskurðinn til yfirskattanefndar. Yfirskattanefnd félst á að það megi færa „gengistap“ sem gjöld en þetta olli því að skattaskuld hjónanna var lægri en skattstjóri hafði ætlað fyrst eftir að Sigmundur og frú báðu um „leiðréttingu“ í kjölfar Panamaskjalanna.

Þetta er sumsé sagan:

Upphaflegt mat ríkisskattstjóra á vantöldum sköttum vegna Wintris, sem lagt var á eftir að Sigmundur Davíð og kona hans vildu „leiðrétta skattframtöl sín“ eftir að upp komst um skattaskjólsfélagið opinberlega, reyndist vera ofmetið. Mér sýnist Kjarninn súmmera þetta ágætlega upp hér. Þetta er byggt á opinberum gögnum.

Og hvað gerir Fréttablaðið? Það birtir stríðsfyrirsögn á forsíðu blaðsins „Greiddu of mikla skatta vegna Wintris“!! Svo er vísað í umfjöllun á blaðsíðu 9 þar sem við blasir grein …… eftir …. you guessed it ….. Sigmund Davíð Gunnlaugsson kölluð „Málalok“.

Hvernig væri fyrirsögnin:

„Skattaskuld forsætisráðherrahjónanna vegna Wintris ekki jafn há og skattstjóri taldi fyrst eftir að Panamaskjölin birtust“

Fréttamat Fréttablaðsins er með slíkum ólíkindum að ég velti fyrir mér hvað í ósköpunum er á ferðinni. En þá rifjaðist upp fyrir mér leiðari Fréttablaðsins 19. mars 2016, stuttu eftir að Wintris málið fyrst kom upp, og áður en um það var fjallað í erlendum fjölmiðlum. Þar segir að allt þetta mál væri „sjúkdómseinkenni á fárveikri pólitískri umræðu“ sjá hér.  En semsé, fárveika umræðan að mati ritstjórans snerist ekki um að Wintris málið væri svo slæmt og vísbending um vonda stjórnmálamenningu og skort á gagnsæi í fjármálakerfinu. Nei. Það var talið merki um fársjúka umræðu að verið væri að fjalla yfir höfuð um að forsætisráðherrahjónin ættu pening í skattaskjóli, þar á meðal hálfra milljarða króna kröfu á bankana. Á sama tíma og forsætisráðherra var að semja við kröfuhafa og sat því beggja vegna borðsins!

Mér svelgdist svo á morgunkaffinu yfir Fréttablaðinu 19. mars 2016 að ég skrifaði um það dálítið blogg, sjá hér fyrir neðan frá mars 2016. Þar spáði ég því að fólk myndi ekki átta sig á alvöru málsins fyrr en það kæmi til kasta erlendra fjölmiðla, en þetta var skrifað eftir að upp komst um Wintris, en áður en Kastljós þátturinn frægi birtist.  Ekki átti ég þó von á þeirri sprengju sem þetta mál varð í erlendum fjölmiðum. Mér hefur ekki svelgst jafn hressilega á morgunkaffinu síðan þarna í mars 2016 fyrr en í morgun….

Pólitísk umræða á Íslandi

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.9.2017 - 00:24 - FB ummæli ()

Hvenær er komið nóg?

Ég hef búið í Bandaríkjunum í 20 ár. Eftir því sem árin líða, finnst mér furðulegra og furðulegra að fylgjast með fréttum af Íslandi.

Um daginn, til dæmis, semsé fyrir um það bil ári, var blásið til kosninga. Þetta gerðist eftir að ég var búinn að sjá á forsíðum blaða hérna í útlandinu að forsætisráðherra Íslands væri í Panamaskjölunum vegna viðamikilla eigna sem skráðar voru í skattaskjólum. Þarna var hann við hlið einræðisherra og annars jafnvel minna félegs félagsskaps. Við tóku fjöldamótmæli á Íslandi og stjórnin hrökklaðist frá.

Svo komu kosningar. Mér sýndust þær að mestu snúast um “uppbyggingu í skólamálum, heilbrigðiskerfinu og þegar kemur að því að leiðrétta stöðu öryrkja og aldraðra og verst settu hópanna”. Nú er ekki svo á mér að skilja að þetta séu ekki mikilvæg mál. Það eru þau sannarlega. En mér fannst eins og íslensku stjórnmálafólki hafi fundist einfaldlega óþægilegt að tala um raunverulegar ástæður kosninganna, sem voru leynimakk, lygar og pukur, og töluðu því bara um það sem væri þægilegra. Til dæmis var formaður Sjálfstæðisflokksins í Panamaskjölunum, þó svo að hann hafi neitað því margoft að eiga pening í skattaskjóli, fyrr en upp um það var ljóstrað (félagið hét auðvitað Falson). Um þetta var ekkert rætt í kosningunum!?

Kosningarnar komu sumsé til vegna þess að fólk var búið að fá nóg að tvískinnungi og pukri í kringum fjármálalega gjörninga, þar sem útvalinn hluti þjóðarinnar flutti peninga til útlanda í gervifélög meðal annars til að komast hjá því að greiða skatta, en einnig til að hylja eignarhald af mismunandi ástæðum. Og svo var ekkert um þetta talað í kosningunum?

Að einhverju leiti er erfitt annað en að kenna stjórnarandstöðunni um þetta. Af hverju ætti Bjarni Ben að vera að tala um Panamaskjölin þegar hann var sjálfur í þeim? Eða vafasama fjármálagjörninga, vafninga, eða ríkiseigur seldar til útvalinna ættingja? Maður hefur á tilfinningunni að Katrínu Jakobsdóttur líði betur að vera að tala um verndum tungunnar, trjárækt og mikilvægi menntunar en raunveruleg djúpstæð vandamál í íslensku samfélagi. Hver er á móti trjám eða íslensku? Þarf að boða til kosninga á eins árs fresti til að útkljá vandamál er tengjast trjárækt?

Mér sýnist sama vera að gerast núna í aðdraganda kosninga (sjá hér um hvað VG setur á oddinn í næstu kosningum. You can´t make this up!). Af hverju eru þessar kosningar? Mér sýnist ástæðurnar vera svipaðar og síðast. Pukur og leynimakk, en ekki síst handónýt stjórnsýsla þar sem reglur um “sakaruppgjöf” virðast fáránlegar, enginn ber ábyrgð, menn skrifa “meðmæli” án þess að stjórnvöld gæti þess að menn hafi raunverulega skrifað undir neitt. Og svo er látið eins og enginn beri ábyrgð? Ekki sá sem skrifar undir, forseti, ekki dómsmálaráðherra, ekki yfir höfuð neinn? Bara eitthvert sjálf-malandi kerfi? Svona svipað og fyrir bankahrun. Enginn bar ábyrgð, ekki Seðlabankinn, ekki Fjármálaeftirlitið, jafnvel bankarnir sjálfir voru bara fórnarlömb erlends „umsáturs“.

Til að bæta gráu ofan á svart kemur svo í ljós að þær upplýsingar sem nú eru komnar í ljós voru á vitorði dómsmálaráðherra í júlí sem sagði samdægurs forsætisráðherra frá — en engum öðrum. Fyrr en henni var til þess þröngvað þegar fjölmiðlar kærðu hana. Skýringarnar á þessu háttarlagi breytast dag frá degi. Fyrst er manni sagt að dómsmálaráðherra hafi verið “óheimilt” að segja neinum öðrum frá (nema væntanlega formanni Flokksins? Af hverju honum?). Svo er sagt að allir ráðherrar hafi geta að þessu komist með því að spyrja. Það er hrakist úr einni útskýringu í aðra. Sirkus fáránleikans.

Punkturinn er sá, að íslensku stjórnsýsla er ótrúlega léleg, ekkert gagnsæi um hvernig ákvarðanir eru teknar, og menn segja ekki frá neinu nema þeim sé beinlínis skipað fyrir um það af dómstólum eða sérlegum nefndum um upplýsingamál (sem líklega voru skipaðar af vondu Vinstristjórninni). Um bætta stjórnsýslu – að gera hlutina almennilega og af einhverri fagmennsku en ekki með þessum endalausa aulagangi – ættu kosningarnar að snúast. En fólki finnst miklu þægilegra að tala um eitthvað sem er óumdeilt, eins og að það þurfi að hjálpa öldruðum og hlú að trjám, tungu og öryrkjum. Mér finnst eins og ég sé að horfa á dönsku kvikmyndina Festen.

Sem íslenskum kjósanda, sem ég þó er eftir öll þessi ár, hef ég lítinn áhuga á að vita um menntamál, öryrkja, trjárækt eða verndun íslenskrar tungu. Þetta er ekki vegna þess að ég telji þessi mál ekki mikilvæg. Þau eru mjög mjög mikilvæg og standa hjarta mínu nærri. Ástæðan er að þetta er ekki skurðás íslenskra stjórnmála. Það skipti litlu máli hvort þar véli um Bjarni Benediktsson, Logi Einarsson, Birgitta Jónsdóttir, Óttar Proppe, eða Katrín Jakobsdóttir.

Vandamál síðustu árutuga er skortur á gegnsæi, að ekki sé almennilega haldið utan um hlutina, og að allt sé ekki gert með einhvers konar rassvasabókhaldi. Og bestu vinir aðal fái svo ekki allt uppi hendurnar af einskærri tilviljun.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.10.2016 - 11:03 - FB ummæli ()

Ný ríkisstjórn?

Ég hef verið svo upptekinn við að horfa á forsetakosningarnar hérna í Bandaríkjunum, að það hefur nánast farið framhjá mér að það séu Alþingiskosningar upp á Íslandi.

Að því sem ég best get séð er nú í kortunum að skipt verði um ríkisstjórn. Eflaust hafa margir skoðanir á því hver eigi að vera hennar helstu verkefni. Það sem kemur helst upp í hugann hjá mér er þetta, sem mér finnst auðvitað fyrst og fremst rök fyrir því að koma núverandi ríkisstjórn frá.

  1. Sala ríkiseigna. Ríkið á ennþá gífurlegt magn eigna, þó svo að núverandi ríkisstjórn sé að reyna að koma eins miklu og hægt er í verð rétt fyrir kosningar, af einhverjum ástæðum. Það er brýnt að búa svo um hnútana að sala ríkiseigna sem fram fer á næstu árum sé gerð með meira gagnsæum hætti en nú er. Að það sé tryggt, að einum sé ekki hyglt framyfir annan. Það er hægt að setja upp margskonar fyrirkomulag um þetta efni. Núverandi fyrirkomulag er ekki heppilegt, þar sem að stórum hluta eru það opinberir embætismenn — beinir undirmenn fjármálaráðherra — sem sjá um þetta. Ég myndi vilja sjá sjálfstæða stofnun sem stendur að þessu, með umræðum um hvernig best megi hámarka hag almennings af sölunni. Mikið óskaplega væri það þægileg tilhugsun ef að þeir sem að sölunni stæðu, væru ekki að selja venslafólki sínu þessar miklu eignir með ógagnsæum hætti, eins snúið og það nú er í þessu litla þjóðfélagi.
  2. Færeyska leiðin í sjávarútvegi. Frændur okkar Færeyingar hafa sýnt okkur að það er sáraeinfalt að bjóða út kvóta. En ekki hvað? Með því móti fer arðurinn af auðlindinni til þjóðarinnar, en endar ekki í Tortóla.
  3. Mér líst illa á þennan búvörusamning. Ráð væri að skera hann upp og standa betur að málum.

Yfir það heila sýndist mér síðasta ríkisstjórn reyna að koma stjórnsýslunni í fastari skorður, eða gera ferlana ´formlegri´, en þetta var jú einn helsti vandi íslenskrar stjórnsýslu fyrir hrun. Mér sýnist á flestu að núverandi ríkisstjórn hafi verið ansi dugleg við að koma hlutunum aftur í sama far og það var fyrir hrun, með því að staðfesta ekki siðareglur, osfrv. Því væri gott ef að ný ríkisstjórn tæki up þráðinn á ný.

Ég geri ráð fyrir að mikið sé talað um menntamál, heilbrigðismál, húsnæðismál, osfrv. Þetta eru auðvitað mikilvæg mál, en mig grunar að ekki sé stórkostlegur munur milli flokka, nema kannski einna helst að Sjálfstæðis og Framsóknarflokkur virðast sérstaklega áhugasamir um að lækka skatta á þá er mest hafa (samanber fyrsta verk þeirra í ríkisstjórn var að aflétta auðlegðarskatti og stórlækka veiðigjöld).

Þau mál sem að ofan eru týnd til, eru hins vegar aðeins á færi umbótastjórnar, án þeirra flokka sem nú mynda ríkisstjórn. Ég hef líka áhyggjur af því að Viðreisn, sem mér líst ágætlega á, sé of tengd ríkjandi hagsmunum (Sjálfstæðisflokki) til að geta fylgt málum á borð við Færeysku leiðinni eftir.

Af þeim flokkum sem nú sitja í stjórnarandstöðu sýnist mér Samfylkingin og Píratar hafa talað skýrast um þau forgansefni sem ég nefni að ofan, sérstaklega er varðar Færeysku leiðina í sjávarútvegi. Ég hef heyrt minna talað um yfirvofandi sölu ríkiseigna, t.d. bankanna.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur