Þriðjudagur 12.03.2013 - 22:02 - FB ummæli ()

Sauðfé

Þegar horft verður til baka eftir nokkra áratugi er ekki ólíklegt að skipta megi uppgjöri hins íslenska bankahruns í tvo þætti.

Í fyrsta þættinum voru sett neyðarlögin með víðtækri samstöðu á Alþingi, sem að öðru jöfnu virðist ekki sammála um neitt. Þar var fékröfum í hina gjaldþrota banka umturnað svo að innlánseigendur áttu forgang en aðrir kröfuhafar lentu aftast í röðinni, öfugt við það sem lögin sögðu til um fyrir hrun. Sumir lögspekingar efuðust um að slíkar æfingar stæðust eignarrétt sem festur er í flestar vestrænar stjórnarskár, en ég hef ekki neina skoðun eða þekkingu á því. Eflaust má hér vísa til neyðarréttar ríkissins.

Bönkunum var síðan skipt í innlendan og erlendan hluta. Hinir íslensku innlánseigendur fengu kröfur sínar að fullu greiddar með ábyrgð íslenska ríkisins og innlendi hluti bankanna var svo að fullu endurreistur. Hinir erlendu innlánseigendur fengu engar tryggingar á endurgreiðslu en var vinsamlegast bent á þrotabúin. Aðrir kröfuhafar fengu ákaflega lítið í sinn hlut. Stærsta ástæðan fyrir þessari endurskipulagninu var að með þessu var hægt að takmarka innlendan kostnað á hruninu. Með þessum æfingum lenti stærstur hluti kostnaðarins á erlendum kröfuhöfum.

Nú sýnist mér annar þáttur eftirleiksins hafinn. Aftur virðist markmiðið að einhverju leiti vera að hámarka það fé sem hafa má af erlendum kröfuhöfum. Mér sýnist síðari þátturinn hafa byrjað líkt og hinn fyrri, með víðtækri samstöðu á Alþingi, sem aftur kom öllum á óvart, gerði hlé á öskrunum, og var sammála um eitthvað.  Það fór furðu hljótt, en fyrir nokkrum dögum samþykkti Alþingi einróma að gjaldeyrishöft verði í gildi um óákveðin tíma (sjá hér http://www.ruv.is/frett/otimabundin-gjaldeyrishoft-samthykkt). Við erlenda kröfuhafi var eflaust verið að segja: Lok, lok og læs og allt í krónum. Svo verður ef til vill sest að samningaborði, hver svo sem tekur við völdum eftir kosningar, og erlendir kröfuhafar kreistir enn á ný ef þeir hafa áhuga á að flytja krónur sínar úr landi.

Ég er stundum spurður álits á hagfræðilegum álitaefnum í þessu öllu. Um þetta er sosum ekki margt að segja út frá hagfræðilegum sjónarhóli, nema kannski bara allt fínt, svona hagfræðilega séð. Það kann vel að vera þjóðhagslega hagkvæmt að hafa eignir af erlendu fólki. Hvort sú tilhögun borgar sig eða ekki, fer eftir því, hvort sá er eignirnar missir, kröfuhafinn, hafi einhver ráð til fylgja kröfum sínum eftir.  Margir Íslendinga högnuðust til dæmis verulega á því að fara í víking í fyrri tíð, að minnsta kosti á því stutta tímabili sem ´kröfuhafar´ voru ekki nægjanlega vel vopnum búnir til að endurheimta það sem glataðist.

Einn af lærdómum hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu er hversu erfitt er að fylgja fjárkröfum eftir yfir landamæri ríkja, jafnvel innan evrópska efnahagssvæðisins. Þjóðnýting á eignum erlendra kröfuhafa með einum eða öðrum hætti, kann þannig vel að vera í þjóðarhag, það fer allt eftir því hvernig erlendir markaðir og erlend stjórnvöld í dag eða í framtíðinni bregst við þessum gripdeildum. Niðurstaðan fer líka eftir því hvaða úrlausnir innlendir og erlendir dómstólar bjóða kröfuhöfum upp á. Um þetta allt er erfitt að spá, að minnsta kosti fyrir hagfræðinga, ef til vill eru lögspekingar heppilegri til þess.

En um erlenda kröfuhafa finnst mér hins vegar rétt að halda einu til haga, og er það efni þessarar færslu. Mér sýnist heldur ónákvæmt að kalla þá hrægamma líkt og algengt virðist vera í umræðu uppá Íslandi, en við notum það hugtak yfir ránfygli sem éta örkumla hræ. Önnur dýrategund kemur mér til hugar þegar erlendir kröfuhafar eru nefndir á nafn: Sauðkindur.

Engum nema sauðum dettur í huga að borga nokkurn skapaðan hlut fyrir fékröfur á hendur Íslendingum. Og nú fer að líða að sláturtíð.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur