Þriðjudagur 02.04.2013 - 23:19 - FB ummæli ()

Stjórnmálaástandið uppá Íslandi

Fyrir fólk á mínum aldri sem horfir á íslenskt stjórnmálaástand að utan frá má að mörgu leyti segja að íslenskt stjórnmálalíf sé komið í gamalkunnugt ástand.

Þegar ég var að alast upp var ástandið yfirleitt þannig að á mið-hægri væng íslenskra stjórnamála var allt með tiltölulega kyrrum kjörum, á meðan vinstri vængur stjórnmálanna var algerlega tvístraður í alls konar hreyfingar, flokka og fylkingar sem nú er löngu horfnar af vettvangi. Margir muna eflaust eftir Alþýðuflokknum, Alþýðubandanlaginu og Kvennalistanum. En þessir klúbbar margklofnuðu líka í alls kyns félagskap ef ég man rétt, eins og Nýjan Vettvang, Þjóðvaka, Bandlag Jafnaðarmanna,  Samtök Frjálslyndra og Vinstrimanna, flokk Mannsins, Frjálslynda Jafnaðarmenn, ég er satt best að segja búinn að gleyma flestum þessum nöfnunum og er kannski ekki að fara rétt með. Einhver tíma reyndu menn svo að safnast í einn flokk sem auðvitað fékk þá nafnið ´Samfylking´. Ég sé að fólk talar oft um ´fjórflokk´ en minningunni var miklu frekar um fimm eða sex flokka að ræða. Og þeir voru alltaf að skipta um nöfn. Niðurstaðan var sú að oft gátu Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur myndað sterka hreina meirihlutastjórn á Alþingi með minnihluta atkvæða kjósenda því að atkvæðin á vinstrivængnum nýttust illa á Alþingi í öllu kraðakinu. Svipað gerðist oft í sveitastjórnum landsins.

Mér sýnist þetta aftur vera orðin staðan uppá Íslandi. Hvað eru þau nú aftur orðin mörg framboðin sem flokka má sem vinstra megin við miðju? VG, Björn Framtíð, Lýðræðisvaktin, Dögun, Samfylking, Pírataflokkurinn, Regnboginn, er ég ekki að gleyma einhverju? Er Hreyfinginn enn á lífi? Það getur vel verið að þessir flokkar nái meirihluta atkvæða, en meirihluti á Alþingi gagnvart Framsókn og Sjálsfæðisflokk er ansi langt undan því atkvæði smáflokka nýtast illa.

Þegar á þessu öllu gengur gerist svo það sem maður man vel eftir – burtséð frá því hvort atkvæði detti dauð niður þegar kemur að Alþingi — að í öllum glundroðanum eru það mið og hægri flokkarnir græða. Ég sé ekki betur en að Framsóknarflokkurinn sé nú að fitna og fitna eins og púkinn á fjósbitanum.

Það sem kannski er helst frábrugðið hinu gamalkunna mynstri er að nú er það helst Framsóknarflokkurinn sem stækkar, en ekki verður betur séð en Sjálfstæðisflokkurinn sé í frjálsu falli. Það er óneytanlega ný og merkileg staða — hið nýja í stöðunni — og þarfnast líklega betri skýringa.

Sjálfum þykir mér líklegt að ástæðunnar sé helst að leita til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hætti að höfða inná miðjuna og er farið að svipa æ meira til bandarísku tepokahreyfingarinnar. Öfgafull afstaða gagnvart Evrópu er aðeins eitt dæmi um slíkt (rekum Evrópustofu úr landi!) en almennt má segja að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafi verið mjög í takti við þannig tilhneigingar. Það sem helst veldur, að mér sýnist, er ekki endilega skrifað beint á reikning Bjarna Benediktssonar, heldur hins að ysta hægrið virðist búið að ná undirtökum í flokknum, og flestir flokksmenn dansa nú eftir púkablístru Davíðs Oddssonar og fólks með svipaða Heimssýn. Kannski er það bara mín tilfinning, en mér sýnist að þessi hægriarmur Sjálfstæðisflokksins hafi einhvern veginn radicalerast eftir hrunið, ekki ólíkt tepokafólkinu í Bandaríkjunum þegar Obama var kjörinn. Það er eins og vinstristjórnin hafi algerlega ært þá og skoðanir þeirra verða æ öfgafyllri og í minna samhengi við hina breiðu miðju íslenskra stjórnamála. Allt er þetta líklega heldur fráhrindandi fyrir almenna kjósendur.

Og svo má ekki gleyma því að Framsóknarflokkurinn er að sækja í sig veðrið burséð frá skógarferð Sjálfstæðisflokksins yst inná hægrivæng stjórnmálanna. Það þykir mér áhugaverð þróun. Að mörgu leiti sýnist mér Framsóknarflokkurinn hafa leitað á dálítið ný mið, og kannski er fyrirmyndanna helst að leita meðal hinna svokölluðu ´popúlísku flokka´sem stundum skjóta upp kollinu við erfiðar aðstæður — sérstaklega eftir hrun. Forza Italia – flokkur Berlusconi — kemur uppí hugann en sá flokkur varð til uppúr stjórnmálalegu hruni á Ítalíu á tíunda áratug síðustu aldar. Það eru líka ýmsir flokkar í S-Ameríku þar sem popúlismi á sér djúpar rætur sem urðu til við svipaðar aðstæður. Flokkur Peronista í Argentínu er dæmi um slíkt en það er mýmörg önnur dæmi sem koma uppí hugann.

Það væri kannski dálítið nýtt ef hreinn og klár popúslismi myndi ná fjöldafylgi uppi á Ísland. Kannski má að einhverju leiti segja að Besti Flokkurinn hafi verið tær popúlistaflokkur (Ísbjörn í húsdýragarðinn!) en hann var þó frábrugðinn Framsóknarflokknum í dag að því leitinu til að flestum var ljóst að um grín var að ræða. Nú virðist hins vegar ekkert spaug vera á ferðinni, að því er ég best get séð, og því forvitnilegt að sjá hverju framvindur.  Á endanum grunar mig að þetta geti orðið heldur dýrt spaug.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur