Þriðjudagur 09.04.2013 - 15:06 - FB ummæli ()

Er Paul Krugman Framsóknarmaður?

Nú jæja, ég sé ekki betur en að Paul Krugman sé orðinn Framsóknarmaður samkvæmt þessum skrifum Stefáns Ólafssonar hér.

Eflaust er Stefán hér að vísa til skrifa Krugman til dæmis hér og hér. Þarna er meðal annars bent á að afskriftir skuldugra heimila geti haft jákvæð áhrif á eftirspurn í Bandaríkjunum. Málið er mér að einhverju leiti skylt, því þessar niðurstöður byggjast að einhverju leiti á fræðigrein sem við Krugman skrifuðum síðasta haust í Quarterly Journal of Economics hérna.

Blasir þá ekki við að ég þurfi að ganga í Framsóknarflokkinn? Áður en svo verður, væri nú gaman að sjá í hverju tillögur Framsóknarflokksins felast. Hafa þær yfir höfuð verið settar fram? Gott væri að fá ábendingar um slíkt í athugasemdum.

Eina sem ég þekki hvað þetta varðar eru tillögur Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar um 20 prósent flata afskrift. Það voru afar vondar tillögur, eins og við Jón Steinsson hagfræðingur fjölluðum um á sínum tíma hérna í Morgunblaðinu, aðallega vegna þess að þær voru óheyrilega dýrar og nýttust helst þeim sem mestar höfðu tekjurnar og þurftu ekki endilega á skuldaniðurfellingu að halda.

Mér sýnist þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hleypti af stokkunum eftir hrun að mörgu leiti ágætar og sýnist þær hafa fengið undalega litla umræðu. Eflaust geta þær gengið enn lengra ef meira svigrúm skapast í ríkissfjármálum eins og margir eru að vona. Ég sé ekki betur en skilyrði séu fyrir ágætri samstöðu um slíkt í íslenskum stjórnmálum ef þetta svigrúm er til.

Svo er raunar ekki úr vegi að benda á að fræðigreinin sem við Krugman birtum snerist aðallega um áhrif aðgerða af þessu tagi í hagkerfum þar sem stýrivextir seðlabanka eru í núlli. Það á við um Bandaríkin, Japan og Evrusvæðið í dag, en á hins vegar ekki við á Íslandi þar sem stýrivextir eru jákvæðir.  Eftirspurnaráhrifin verða líkast til ekki nærri jafn mikil á Íslandi við svipaðar aðgerðir. Mér sýnist þetta því fyrst og fremst snúast um tekjuskiptingu í þjóðfélaginu og hvað er réttlátt og eðlilegt í þeim efnum en ekki það hvernig haga eigi eftirspurnastjórnun. Í þeim efnum eru mun betri og ódýrari kostir eru í boði uppi á Íslandi.

PS. Ég hef ekki haft tækifæri ennþá til að spyrja Paul Krugman um afstöðu hans til íslenskra stjórnmála og um nýskráningu hans í Framsóknarflokkinn. Ég mun gera það við fyrsta tækifæri.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur