Mánudagur 22.04.2013 - 18:01 - FB ummæli ()

Nýja helmingaskiptastjórnin

Ég verða að játa að þegar maður skoðar stjórnmálaástandið héðan að utan kemur margt á óvart.

Nú er sumsé komið í ljós að kjósendur ætla að afhenda lyklavöldin að stjórnarráðinu til ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Það sem kemur mér fyrst og fremst á óvart er hversu lítil umræða er um hvernig sú stjórn muni líta út og hvað hin nýja helmingaskiptastjórn muni gera, og hvernig starfsaðferðirnar verði.

Samt sem áður er ekki lengra síðan en nokkur ár að allt saman hrundi í hausinn á Íslendingum, og það kom í ljós, meðal annars með Rannsóknarskýrslu Alþingis og umfjöllun sem því tengdist, að þessir tveir flokkar hefðu gefið sjálfum sér og tengdum aðilum gífurlegar fjárhæðir, meðal annars í gegnum ákaflega spillta einkavæðingu bankanna. Allt er þetta skjalfest í dag.

Það verður fróðlegt að skoða hvernig ýmsum þeim eignum sem ríkið hefur yfirráð yfir í dag verður dreift næstu árin. Þetta hefur verið merkilega lítið í umræðunni. Hvernig ætlar hin nýja helmingaskiptastjórn að selja Landsbankann? Hluti í hinum bönkunum? Eignarhluti í öðrum þeim fyrirtækjum sem ríkið á nú hlut í eftir hrunið beint eða óbeint í gegnum bankana? Er eitthvað sem bendir til þess að þessir flokkar hafi lært eitthvað af fenginni reynslu? Kannski Flugleiðir verði teknir úr höndum kommúnistanna?

Annað: Verður embætti sérstaks saksóknara lagt niður? Seðlabankinn tekinn aftur úr höndum hagfræðinganna og settur til baka undir Framsóknar og Sjálfstæðisflokkshesta?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur