Miðvikudagur 24.04.2013 - 15:15 - FB ummæli ()

Lýðskrum

Það er heldur ömurlegt uppá það að horfa, að minnsta kosti fyrir svona útlending eins og mig, sem búið hefur erlendis í 16 ár og kannski úr öllum tengslum við allt og alla, að tiltölulega flatneskjulegt lýðskrum virðist vera að hrífa meirihluta þjóðarinnar.

Fyrst er það Sjálfstæðisflokkurinn. Mér sýnist hann lofa að lækka skatta, sem aðallega virðist koma eignafólki vel, um gífurlega fjárhæðir. Gott og vel. En hvernig á að borga? Jú mér sýnist að skattalækkanirnar á efnafólkið eigi að skapa svo stórkostlega uppsveiflu í efnahagslífinu að þær einfaldlega borgi sig sjálfar með auknum umsvifum hagkerfisins (sjá t.d. samantekt hér).

Ef þetta hljómar of gott til þess að vera satt, þá er það ekki tilviljun. Ronald Reagan setti fram svipaða kenningu, og sýndi eftirminnilega fram á að hún stæðist ekki með því að reka gífurlegan ríkissjóðshalla. George Bush eldri kallaði þetta vúdúhagfræði eins og frægt er.

Víkur nú sögunni til Framsóknarflokksins. Nú lofar hann því að taka stórfenglegar eignir frá útlendingum – byggða á því sem þeir kalla „Framsóknarleið“– til þess að aflétta skuldum af Íslendingum svo nemur 20 prósentum að ég best get séð. Við þessu er gleypt sem nýju neti.

Hér er mörgu grautað saman. Fyrst er það svo að þær samningarviðræður sem fram fara við erlenda kröfuhafa eru engin sérstök „Framsóknarleið“. Samningstaða Íslendinga byggist á gjaldeyrishöftum sem sett voru á Alþingi án stuðnings Framsóknarflokksins og hafa verið rekin af Seðlabanka Íslands löngu áður en nein „Framsóknarleið“ dúkkaði upp nokkrum vikum fyrir kjördag. (Í þessu samhengi má benda á að Már Guðmundsson Seðlabankastjóri hefur haldið því fram að erlendir kröfuhafar kunni að þurfa að afskrifa um 75 prósent krafna og að viðræður um þetta séu löngu hafnar, sjá t.d. fréttir hér). Svo er það hitt að það er allsendis óvíst hvort og hversu mikið takist að afskrifa þessar kröfur, slíkur ferill gæti endað fyrir dómstólum.

Það er engin ný „Framsóknarleið“ í boði. Það eina sem hefur gerst er að Framsóknarflokkurinn endurvann illa hugsað kosningaloforð frá síðustu kosningum um tuttugu prósent flata afskriftir lána með því að þvæla útlendingum inní málið og kalla þá ´hrægamma´(og hóta að skjóta þá með haglabyssum og berja þá í höfuðið með kylfum), vegna þess að síðast strönduðu hugmyndirnar á því að þær væru allt of dýrar. Nú er málið þvælt með að því að blanda útlendingum inní málið.

En samningarviðræður við erlenda kröfuhafa er algerlega aðskilið mál frá fjárhagsvandræðum heimila. Hugmyndin um flata hlufallslega afskrift skulda er alveg jafn slæm nú og hún var fyrir síðustu kosningar. Og hún er alveg jafn dýr og nýtist fyrst og fremst þeim sem mest hafa efnin, en ekki því fólki sem í mestum erfiðleikum er (sjá grein okkar Jóns Steinssonar fyrir síðustu kosningar hérna). Ef vel tekst til í samningum við erlenda kröfuhafa væri miklu skynsamlegra að verja þeim fjárhæðum sem þannig vinnast til að verja velferðarkerfið, borga skuldir, eða þá hjálpa þeim sem í mestum vanda eiga við endurgreiðslu húsnæðislána, fremur en þeim helst sem ekki þurfa á því að halda líkt og tillögur Framsóknar fela í sér. Flatur niðurskurður á öll lán er rándýr hrossalækning.

Þegar allt kemur til alls, og efnahagstillögur Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins eru skoðaðar er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en þessari: Þetta er lýðskrum. Á þeim grunni verður ný helmingaskiptastjórn mynduð næstu helgi, rétt örfáum árum eftir hrun. Eða eins og maðurinn sagði, Guð blessi Ísland.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur