Fimmtudagur 25.04.2013 - 19:09 - FB ummæli ()

Meira um efnahagstillögur

Eitthvað hefur nú skolast til hjá honum Birgi Þór Runólfssyni, mínum ágæta fyrrum kennara við Háskóla Íslands, þar sem hann gerir að umtalsefni blogg mitt um tilllögur Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins í efnhagsmálum (sjá hér).

Birgir segir að ég haldi því fram að óraunhæft að semja við erlenda kröfuhafa. Það hef ég aldrei sagt. Það sem ég benti hins vegar á var að þeir peningar sem þannig fengjust myndu nýtast afar illa ef þeir væru notaðir í skattalækkanir á þá efnamestu, líkt og Sjálfstæðisflokkurinn vill, eða flatan niðurskurð lána um 20 prósent líkt og Framsókn leggur til.  Flatur niðurskurður skulda myndi gagnast þeim best sem síst þurfa á skuldaleiðréttingu að halda, og raunar að því er virðist aðallega höfuðborgarsvæðinu, líkt og Jón Steinsson bendir á í Fréttablaðinu í dag. Flatur niðurskurður lána jafngildir 20 milljarða landsbyggðaskatti að mati Jóns (sjá hér).

Hvað varðaði skattalækkanir og flatan niðurskurð lána sagði ég ekki að þær hugmyndir væru “óraunhæfar”.  Það er vel hægt að lækka skatta á þá sem mest hafa og afskrifa skuldirnar þeirra. Ég sagði að þessar hugmyndir væru lýðskrum. Afhverju lýðskrum? Vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn lætur að því liggja að þessar skattalækkanir borgi sig sjálfar (sjá hér). Og vegna þess að Framsóknarflokkurinn heldur því fram að þessi flata niðurskurðarleið muni ekkert kosta ríkissjóð. Bæði er gott dæmi um lýðskrum. Báðar aðgerðir yrðu skattborgurum landsins dýrt spaug.

Annað efni færslu Birgis er dálítið undarlegt og fjallar meðal annars um fund sem ég átti með stjórnvöldum 2008, fjölskyldublogg sem ég hélt einu sinni úti og — en ekki hvað — icesave(!), osfrv.

Ekki er ég viss um að það sé þess virði að eyða í þetta orðum. Eitt samt áhugavert sem ég vissi ekki og fjalla kannski betur um seinna. Ég sé að það hefur verið einhver umræða um fund sem ég átti 2008 nokkrum mánuðum fyrir hrun og ég hef ekki sagt frá áður. Hann var afar fróðlegur en hann sótti auk fjölda ráðherra, Már Guðmundsson og Friðrik Már Baldursson.  Það getur vel verið að ég reyni aðeins að gramsa í þeim gögnum sem ég á og sjá hvort ég geti ekki reynt að varpa ljósi á það sem um var rætt, úr því þetta er nú orðið opinbert, þótt óneitanlega sé nú dálítið langur tími liðinn. Ef til vill kann fólki að þykja áhugavert að heyra mitt sjónarhorn. (Ég var aldrei boður til skýrslutöku um þennan fund, en Birgir heldur því fram að þáttur minn í honum hafi verið til umræðu í Landsdómi. Þetta hef ég ekki heyrt áður en það væri gaman ef einhver gæti bent mér á heimildir þess efnis.)

Það er rangt hjá Birgi að ég hafi “lagt til að bönkunum yrði bjargað” á þessum fundi. Ég þekkti ekki til eignasafns þeirra á þeim tíma, og tók það reyndar skýrt fram, og gat því ekki lagt slíkt mat á stöðuna.

Það efni sem ég fjallaði um, að því er ég best man, var aðallega hvernig við höguðum lánveitingum til fjármálakerfisins í Bandaríkjunum með svokölluðum „special liquidity facilities“.  Á þessum tíma starfaði ég nefnilega sem ráðgjafi hjá Seðlabanka Bandaríkjanna og þekkti ágætlega til mála. Ef hjálpa ætti bönkunum með einhverjum hætti á Íslandi væri ekki sama hvernig það væri gert og benti ég fólki á að skoða þær leiðir sem við höfðum farið hérna í Bandaríkjunum á þeim tíma.

Lykilaskilyrði þess að veita fé inn í fjármálageirann hér í Bandaríkjunum var alltaf að trygg veð væru gegn þeim lánum sem veitt voru, þannig að seðlabankinn sæti uppi með verðmætar eignir ef allt færi á versta veg. Þannig reyndi bankinn yfirleitt að sjá það fyrir hvert virði eigna hans yrði, ef allt hryndi, og tók ég þátt í nokkrum slíkum útreikningum. Auðvitað var og er ekki hægt að útiloka tap á einhverjum tímapunkti, en aðalatriðið var að reyna að lágmarka hugsanlegt tjón.

Því miður var ekkert slíkt gert í Seðlabanka Íslandis. Lánað var villt og galið með litlum eða engum veðum (svokölluð ástarbréfarviðskipi), og niðurstaðan var tap Seðlabankans uppá hundruðir milljarða króna, eins og staðfest hefur verið meðal annars í Rannsóknarskýrslu Alþingis, OECD, Ríkisendurskoðanda, osfrv. Þetta höfum ég og margir aðrir hagfræðingar gagnrýnt harðlega því þetta stríddi gegn öllum góðum vinnureglum sem eiga að vera til staðar í seðlabönkum, og var auðvitað í engu samhengi við þær leiðir sem farnar voru hér í Bandaríkjunum og ég fjallaði um á þessum fundi. Aðalgagnrýnin á Seðlabankann hefur yfirleitt ekki verið að hann lánaði bönkum (en það er meðan annars hlutverk seðlabanka), heldur hitt, hvernig hann gerði það. Tap Seðlabanka Íslands er langmesta tjónið sem Íslendingar urðu fyrir í hruninu. Ef að rétt hefði verið á málum haldið væri það Seðlabankinn sem nú væri stærsti kröfuhafinn á þrotabú bankanna — á kostnað erlendra kröfuhafa – og án þess að hafa nokkurn tíma þurft á kylfum og haglabyssum að halda.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur