Föstudagur 14.06.2013 - 16:02 - FB ummæli ()

Furðuleg ákvörðun nýrrar ríkisstjórnar

Nýja ríkisstjórnin heldur blaðamannafund þessa vikuna með pompi og pragt og lýsir í löngu máli að staða ríkisfjármála sé hreint skelfileg, og miklu verri en þeir héldu.

Seinna um daginn er svo kynnt ákvörðun um að aflétta innheimtu á veiðigjaldi. Tekjutap ríkissjóðs nemur mörgum milljörðum króna, í kringum 10 milljarðar næstu tvö árin af fréttum að dæma.

Það er erfitt að sjá nein skynsamleg rök fyrir þessari ákvörðun, aðra en þrönga sérhagsmuni þeirra sem kvótann eiga. Sú röksemd að þetta muni auka hagvöxt — líkt og sumir talsmenn ríkisstjórnarninnar láta í veðri vaka — er í meira lagi furðuleg. Þetta er eiginlega hrein rökleysa.

Er hugmyndin sú að fleiri fiskar verði veiddir úr sjónum ef útgerðin greiði ekki fyrir aðganginn að auðlindinni? Varla. Heildarfjöldi veiddra fiska er ákvarður af stjórnvöldum með kvóta. Hagfræðin segir okkur að þeir skattar valdi minnstum skaða sem hafi sem minnstar hliðarverkanir. Innheimta veiðigjalds er einmitt dæmi um hagkvæman skatt því að gjaldið hefur engin hliðaráhrif af þeim toga sem menn yfirleitt hafa áhyggjur af. Eftir sem áður munu útgerðirnar reyna að ná inn aflanum með sem minnstum tilkostanði, þótt þær þurfi að greiða fyrir afnot af auðlindinni. Svo lengi sem það er peningur í því að veiða þann fiskveiðkvóta sem stjórnvöld setja, verður hann veiddur, og umræðan um veiðigjald snýst því einfaldlega um það hvernig skipta eigi rentunni sem þessi auðlind skapar.

Nú þegar ríkið lækkar þennan skatt, þarf að hækka einhverja aðra í staðinn, eða skera niður í útgjöld í miðri kreppu. Það er erfitt að sjá að það hafi jákvæða áhrif.

Ekki byrjar þetta nú vel.

PS. Ég sé að sendinefndin frá mínum gamla vinnustað, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, segir niðurfellingu þessa gjalds afar óskynsamlega, sjá hér. Jón Steinsson, dósent við Columbia háskóla, tekur í sama streng. Mér er það til efs að hægt sé að draga á flot nokkurn málsmetandi hagfræðing utan Íslands sem myndi mæla þessu bót við núverandi aðstæður á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur