Föstudagur 23.08.2013 - 17:43 - FB ummæli ()

Góð hugmynd um ráðgjafaráð hagfræðinga

Í dag sé ég, satt best að segja, fyrstu jákvæðu fréttina frá ríkisstjórninni síðan hún tók við, en mér sýnist fyrstu mánuðirnir einkum hafa einkennst af flumbrugangi.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur ákveðið að setja saman ráðgjafaráð hagfræðinga um efnahagsmál og opinber fjármál. Þetta er góð hugmynd.

Hér í Bandaríkjunum er löng hefð fyrir ráðgjafaráði af þessu tagi, svo callað ´Council of Economic Advisors´, sem starfar beint undir forsetanum. Í löndunum í krigum okkur er líka farið að bera á því að svipuð ráð séu sett á laggirnar, mér er til dæmis kunnugt um álíka apparöt í Frakklandi og Þýskalandi í gegnum samstarfsmenn sem komið hafa að þeim. Ég held að það sé fín hugmynd að hafa nefnd utanaðkomandi sérfræðinga sem gefa öðru hverju ráð um hvert skuli stefna en standa með einhverjum hætti utan hefðbundinnar stjórnsýslu.

Mér sýnist vel í hópinn skipað en úr fræðaheiminum sitja þar Ragnar Árnason og Þráinn Eggertsson prófessorar, en Guðrún Inga Ingólfsdóttir og Orri Hauksson eru með bakgrunn úr atvinnulífinu.

Annars er það tiltölulega útbreiddur misskilningur innan fræðisviðsins hér í útlandinu að við Þráinn Eggertsson séum skildir. Tveir íslenskir hagfræðingar sem heita Eggertsson en Þráinn skrifaði bók sem er mjög vel þekkt innan hagfræðinnar á sviði stofananhagfræði og er því vel kunnur utan landsteinanna (sjá hér ). Ég man ekki hversu oft ég hef verið spurður hvort við séum feðgar.

Og svarið er náttúlega nei, útskýri ég, því þá væri ég Þráinsson. En við erum náttúrulega frændur – eins og allir Íslendingar – þótt ég hafi nú ekki tékkað í Íslendingabók hversu langt ég þyrfti að leita aftur.

Eina sem segja má að sé heldur óvenjulegt við þetta ráð, miðað við það sem gerist erlendis, er að það heyri undir fjármálaráðherra en ekki forsætisráðherra. Ráð af þessu tagi eru oft á hendi forseta eða forsætisráðherra/kanslara osfrv. En það er vonandi að slíkt valdi ekki núningi og grafi ekki undir áhrifum ráðsins. Kannski hefði verið heppilegra ef ráðið heyrði undir bæði ráðuneytin — án þess að ég hafi nokkra þekkingu eða sterka skoðun á slíkum prótókollum – og að í ráðið hefði verið skipað af bæði forsætis- og fjármálaráðherra.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur