Föstudagur 13.09.2013 - 00:56 - FB ummæli ()

Allt samkvæmt áætlun

Ég var að halda dálítinn hagfræðifyrirlestur uppí Boston, og er á leiðinni í lest aftur til New York. Og er sumsé að dunda mér við að skoða fréttir að heiman.

Og ég rakst á dálítið viðtal við Sigmund Davíð í Kastljósi, mér sýnist frá því í gær. Um daginn skrifaði ég að mér þætti það dálítið skrítið að 100 dögum eftir að hann myndaði ríkisstjórn, var hann fyrst nú að skipa nefnd um skuldaaðlögun heimilinna (sjá hér).

En sumsé, mér þótti forvitnilegt að heyra hverjar skýringarnar á þessum seinagangi væru. Svarið: „Þetta er allt samkvæmt áætlun.“

Þetta er auðvitað sami Sigmundur Davíð og ég og líklega sumir aðrir kjósendur skildi þannig fyrir kosningar að málið yrði leyst strax eða amk fyrir sumarlok.

En þetta minnir mig sumsé á þegar ég flaug til Afríku fyrir margt löngu. Ferðinni var heitið til Ghana og er það efni þessarar færslu . Í Ghana var konan mín á þeim tíma í vettvangsrannsóknum. Þegar kom að því að ákveða hvernig komast skyldi til Afríku skoðaði ég auðvitað hvaða flugfélag byði best.

Og nú kom upp úr dúrnum að langbesta tilboðið kom frá Ghana Airways („star of service excellece“ var mottó flugfélagsins). Eitthvað fannst mér nú samt grunsamlegt að Ghana Airways – star of service excellence – bauð svo miklu betur en allir aðrir. Fullur efasemda grenslaðist ég fyrir á netinu. Þar fann ég ferðaáætlun Ghana Airways langt aftur í tímann. Og það merkilega við þetta flugfélag var að eftir hvert og eitt flug — svo lang sem augað eigði —  stóð alltaf fyrir aftan flugið stórum feitletruðum stöfum– ON SCHEDULE. Eða „samkvæmt áætlun.“

Þetta gat ekki verið svo slæmt, hugsaði ég, þetta er svakalega gott tilboð — peningalega séð — og að minnsta kosti eru þeir alltaf „ON SCHEDULE„.

Ég kaupi miða. Nú líður og bíður og ég mæti loks á John F. Kennedy flugvöllinn í New York til að fara til Afríku og vitja frúarinnar.

Þegar ég kem til að innrita mig tekur á móti mér afar vingjarnleg kona:

„Til Accra? Nei, því miður, það er búið að seinka fluginu,“ segir hún brosandi.

„Ha,“ segi ég, „hversu lengi?“

„Í þrjá daga,“ svarar hún.

Ég er auðvitað furðu lostinn og þegar ég kem heim fer ég að samstundis á netið á heimasíðu félagsins til að sjá hverju sæti. Og viti menn! Þarna er flugið mitt, nú á leiðinni eftir þrjá daga, og fyrir aftan hið áætlaða flug stendur með stórum feitum stöfum: „ON SCHEDULE„.

Þremur dögum seinna kem ég svo á flugvöllinn og spyr sömu vingjarnlegu konuna hvernig stendur nú á þessu, ég botni nú ansi illa í þessar netsíðu flugfélagins. „Fluginu seinkar um þrjá daga“, segi ég, „og þið segist vera á áætlun?“

Og hún svarar brosandi án þess að depla auga. „Of course we are on schedule. We are always on schedule. But sometimes our schedule changes.“

Af einhverjum ástæðum kom þetta í hugann þegar ég sá viðtalið við Sigmund Davíð um það að það nú sé allt á áætlun. (Framsóknarflokkurinn – star of service excellence).

PS. Við þessu er það að bæta að þegar ég fór aftur til Bandaríkjanna frá Ghana seinkaði fluginu aftur en nú um tvo daga. Á flugvellinum spurði ég afgreiðslukonuna af hverju flugvélin hafi ekki farið á tilsettum tíma. Og hún svaraði: „Það var vegna þess að flugvélin var ekki full fyrir tveimur dögum síðan.“

Og í þetta sinn var flugvélin auðvitað yfirfull og svo yfirfull að færri komust að en vildu.  Ég var einn þeirra heppnu.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur