Mánudagur 17.02.2014 - 20:48 - FB ummæli ()

Seðlabankar og stjórnmál

Nú sé ég að einhver umræða er um hvernig skipan seðlabankastjóra í Bandaríkjunum er háttað (sjá hér). Svo virðist sem nafnlaus penni Viðskiptablaðsins virðist telja að það sé voða mikil samsvörun milli flokkapólitíkur og hver vermi stól „Chairman of the Federal Reserve“ í Bandaríkjunm. Ég vann við bandaríska Seðlabankan um 8 ára skeið og hef fylgst ágætlega með hvernig málum er þar háttað (Ben Bernanke, fyrrum „Chairman“, var raunar einn af leiðbeinendum mínum í doktorsverkefni mínu við Princeton háskóla).

Skoðum nú aðeins söguna.

Paul Volcker var skipaður seðlabankastjóri af Jimmy Carter Bandaríkjaforseta, sem var demókrati. Og svo er að skilja á Viðskiptablaðinu að Volcker hafi líka verið ógurlega mikill demókrati.

En skipunartími „the Chairman“ er aðeins 4 ár. Hvað ætli hafi nú gerst fjórum árum seinna? Jú, hinn stæki demókrati Ronald Reagan sem þá var Bandaríkjaforseti skipaði Volcker aftur í stól bankastjóra.

Þegar Volcker lét af störfum skipaði Ronald Reagan Alan Greenspan bankastjóra. George Bush hinn fyrri enduskipaði hann svo í þann stól.

Hvað ætli hafi svo gerst næst? Jú hinn harði repúblikani Bill Clinton (!), þá forseti Bandaríkjanna, skipaði Greenspan enn og aftur í stól bankastjóra.

Víkur nú sögunni til George Bush hins síðari. Þegar Greenspan lét af störfum skipaði hann Ben Bernanke í stöðu seðlabankastjóra. Mér skilst af Viðskiptablaðinu að það hafi aðallega verið vegna þess að hann hafi verið svo voða mikill Repúblikani enda í ráðgjafahóp forsetans (það fór reyndar framhjá okkur öllum sem þekktu hann á þeim tíma að hann væri Repúblikani). Hvað ætli Obama hafi svo gert þegar skipunartími Bernanke´s rann út? Jú, enduskipaði hann í embættið. Þegar Bernanke gaf til kynna að hann vildi gjarnan snúa sér aftur að fræðastörfum var svo Janet Yellen fyrir valinu.

Ef við skoðum söguna í Bandaríkjunum yfir þetta tímabil (sem spannar meira en 30 ár) kemur þetta í ljós: Forseti Bandaríkjanna hefur alltaf endurskipað þann seðlabankastjóra sem sat í þeim stóli ef forveri forsetans sem upphaflega skipaði bankastjórann var úr öðrum flokki. Regan endurskipaði kandídat Carters (Volcker), Clinton kandítat Bush I (Greenspan) og Obama kandídat Bush II (Bernanke). Með þessu hefur seðlabankanum verið lyft uppúr dægurþrasi.

Víkur nú sögunni til Íslands. Lykilatriðið er í rauninni bara þetta: Á Íslandi virðast menn alltaf stilla fólki upp í hópa: Már Guðmundsson var í Alþýðubandalaginu fyrir um 30 árum síðan! (Innskot: Fyrir þá sem ekki vita þá var Alþýðbandalagið  flokkur á vinstri væng íslenskra stjórnmála einhvern tíma á síðustu öld og klofnaði síðan margoft og rann inn í alls konar aðra flokka). Þess vegna er óhugsandi — algerlega óhugsandi!!! — að enduskipa hann af Framsóknar eða Sjálfstæðisflokki.

Og ef í harðbakkan slær, og það er of óvinsælt að sparka Má, þá breytum við bara lögunum og skipum 2 bankastjóra í viðbót!

Þetta er hugafar sem mætti gjarnan hverfa úr íslenskum stjórnmálum, ekki síst þegar kemur að skipan opinberra stofnanna líkt og Seðlabanka Íslands.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur