Fimmtudagur 05.06.2014 - 00:35 - FB ummæli ()

Framsókn í ruslflokk

Það er eiginlega með hreinum ólíkindum að forsætisráðherra Íslands skuli ekki fortakalaust hafna hugmynd um að afturkalla byggingarleyfi fyrir bænahús tiltekins trúarhóps. Þessi hugmynd var helsta kosningamál Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík. Henni var fleytt fram með eftirfarandi formerkjum af  Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttir, oddvita lista Framsóknarflokksins (sjá hér) örfáum dögum fyrir kosningar:

Á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur“

Þessi hugmynd gengur í berhögg við ákvæði stjórnarskrár Íslands um trúfrelsi og þess sem almennt tíðkast í vestrænum þjóðfélögum.

Ekki er hægt að vera annað en sammála fyrrum formanni Framsóknarflokksins, Jóni Sigurðsyni, og öðrum nú og fyrrverandi flokksmönnum sem virðast í óða önn að yfirgefa þann ófögnuð sem Framsókn er orðin. Jón segir ekkert að finna í yfirlýsingum Sigmundar Davíðs undanfarna daga sem bendir til þess að hann mótmæli hugmyndum Sveinbjargar á einn eða annan hátt eða almennum málflutningi hennar yfir höfuð (sjá hér og hér).

Þvert á móti segir Jón ummæli Sigmundar Davíðs “úthugsað herbragð” og að Sigmundur “taki undir með Sveinbjörgu.” Nú virðist Jón hættur að kjósa þann flokk sem hann veitti forystu ekki alls fyrir löngu. Fimmti maður af lista Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík, Hreiðar Eiríksson, sagði af sér í miðri kosningabaráttu vegna þessarar ömurlegu uppákomu. Frambjóðandi flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur í síðustu kosningum, Einar Skúlason, hefur ekkert sagt um málið, annað en að pósta á facebook trúfrelsisákvæði stjórnarskrár Íslands. Þingflokksformaður Framsóknarflokksins, Sigrún Magnúsdóttir, og sjálfur utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, segja þessar trakteringar illa í takti við stefnu flokksins. En ekki hvað?

Hin nýja þjóðbelgingsstefna Framsóknarflokksins, undir forystu Sigmundar Davíðs, er tiltölulega ömurleg hvernig sem málinu er snúið, jafnvel svo mjög að sómakærum Framsóknarmönnum og konum blöskrar og annað hvort halda fyrir nefið eða yfirgefa flokkinn. Það er óskaplega erfitt að finna á þessu neinn góðan flöt. Það eina sem maður getur vonað er að þetta sé allt saman helber misskilningur. Að Framsókn geri loksins hreint fyrir sínum dyrum. Slíkar vonir verða æ daufari með hverjum deginum sem líður.

Segja má að þessar vonir hafi eiginlega algerlega slokknað hjá mér þegar ég sá aðstoðarmann forsætisráðherraráðherra og fyrrum skólabróðir minn (og kórfélaga), Jóhannes Þór Skúlason, fara mikinn á netinu (sjá hér). Hvað hafði Jóhannes Þór til málanna að leggja? Að gera hreint fyrir dyrum Framsóknarflokksins og taka af allan vafa um að flokkurinn standi vörð um mannréttindi minnihlutahópa í samræmi við stjórnarskrá Íslands? Ekki var orð um málflutning frambjóðanda Framsóknarflokksins í Reykjavík sem sagði ekki bara að afturkalla eigi byggingarleyfi fyrir bænahús Íslendinga sem eru Islam trúar, heldur líka að íslenskt samfélag þurfa að ræða lagasetningar gegn nauðungarhjónaböndum, sem væri jú auðvitað voða bráðnausynlegt vegna vaxandi fjölda múslima í landinu (!) (sjá hér).

Nei, í staðinn fyrir að gera hreint fyrir dyrum Framsóknarflokksins er grein Jóhannesar Þórs eitt samfellt væl um að allir tali svo voða voða illa um Framsóknarmenn! Það taki svo ægilega mikið á sálarlíf vesalings Framsóknarmanna að verja sín sérkennilegu stefnumál og þeir eigi jú börn og mömmur og svoleiðis sem þarf að útskýra öll þessi ósköp fyrir (!). “Ætli kennarar barnanna minna hafi verið að hlusta?” spyr Jóhannes Þór í samhengi við einhverja umræðu í fjölmiðlum þar sem hinni nýju stefnu Framsóknarflokksins var jafnað við þjóðernispopúlisma af einhverjum þátttakendum (þessi skoðun hefur líka verið sett fram með góðum rökstuðningi af fjölmörgum fræðimönnum og stjórnamálafólki, þar á meðal úr hans eigin flokki og af fólki í samstarfsflokknum í ríkisstjórn).  „Eða kannski mamma?“

Ég veit varla hvað maður á að kalla málfutning Jóhannesar. Ég á ekki til orð — eða að minnsta kosti ekkert á íslensku. Þetta er það sem sumir vinir mínir hérna í New York myndu kalla chutzpha en það orð á uppruna sinn í Yiddísku (sem er tungumál sem rakið er til gyðinga úr miðevrópu sem margir settust að hérna í borginni). Ég held að ekkert almennilegt orð sé til á íslensku sem lýsir svona firringu. Ég er virkilega búinn að gramsa í huganum. Á wikipedia er chutzpha skilgreint sem svo, sem skýrir kannski afhverju þetta kom upp í hugann á mér:

„Leo Rosten in The Joys of Yiddish defines chutzpah as „gall, brazen nerve, effrontery, incredible ‘guts,’ presumption plus arrogance such as no other word and no other language can do justice to“ … Rosten defined the term as „that quality enshrined in a man who, having killed his mother and father, throws himself on the mercy of the court because he is an orphan.“ Chutzpah amounts to a total denial of personal responsibility, that renders others speechless and incredulous.“

Framsókn er komin í ruslflokk.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur