Sunnudagur 20.03.2016 - 15:31 - FB ummæli ()

Pólitísk umræða á Íslandi

Ég setti litla færslu inná facebook í gærmorgun. Og nú sé ég þegar ég opna tölvuna að henni hefur verið deilt 70 sinnum. Mér finnst það benda til þess að ef til vill ættu þessar hugleiðingar mínar að vera aðgengilegar fleirum en vinum mínum á facebook. Færslan frá því í gær birtist hér að neðan:

„Sú umræða sem skapast hefur um að maki forsætisráðherra hafi átt hálfa milljarða króna kröfu á þrotabú bankanna á sama tíma og ríkisstjórnin átti í samningaviðræður við þessa sömu kröfuhafa um gífurlega þjóðhagslega hagsmuni er prófsteinn á íslenska stjórnmálamenningu eftir hrun, á stjórnmálaflokkana og ekki síst íslenska fjölmiðla. Komið er fram að enginn hafi vitað um þessi stóru hagsmunatengsl, hvorki flokksmenn ráðherra, né samstarfsflokkurinn. Það sem ég hef séð í íslenskri þjóðmálaumræðu, sbr. viðbrögð forsætisráðherra og sumra fjölmiðla t.d. leiðara Fréttablaðsins í dag, lofar ekki góðu. Það er fáránlegt að halda því fram að þetta mál sé ekki fréttnæmt heldur endurspegli „fárveika pólitíska umræðu“– þetta væri stórfrétt alls staðar í veröldinni sem hefði alvarlegar afleiðingar. Þetta snýst ekki um tilteknar persónur, heldur grundvallar leikreglur um hagsmunatengls stjórnmálamanna og traust á stjórnmálalífinu almennt og ekki síst hvort íslensk fjölmiðlun sé yfir höfuð í stakk búin til að glíma við svona viðkvæm mál. Á Íslandi þekkja allir alla, og því er erfitt að tala um svona mál, bæði fyrir fjölmiðla- og stjórnmálamenn. Þetta var líka alvarlegt vandamál fyrir hrun. Vera kann að það verði ekki fyrr en erlendir fjölmiðar taki málið upp að fólk skynji alvöru málsins, því fréttamat þeirra mun ekki miða við persónur, tiltekna flokka, þ.e. hægri-vinsti osfrv., heldur einfaldlega hvernig málið lítur út utan frá séð. Ísland er ekki lengur eyland, hrunið var alþjóðlegt fyrirbæri. Ísland er að reyna að endurvinna traust á íslensku efnahagslífi, og því er rétt að fólk í ríkisstjórnarflokkunum hugsi vandlega og af ábyrgð um hvernig best er að glíma við þetta stórmál út frá trúverðugleika Íslands á alþjóðavettvangi, fremur en með því að reyna að persónugera málið.“

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur