Fimmtudagur 31.03.2016 - 18:49 - FB ummæli ()

Voru samningarnir góðir?

Mér sýnist margt benda til þess, að verið sé að afvegaleiða pólitíska umræðu upp á Íslandi út um víðann völl. Og menn sjái ekki lengur skóginn fyrir trjánum.

Fyrir mér eru hin stóru tíðindi síðustu daga, enn sem komið er hvað svo sem síðar verður, fyrst og fremst þessi: Forsætisráðherra átti í viðræðum við erlenda kröfuhafa þrotabús bankanna og var þar í leiðandi hlutverki að eigin sögn. Kona hans var á meðal þessara sömu kröfuhafa og átti kröfu uppá hálfan milljarð króna. Hann sat því beggja vegna borðisins og hefur sjálfur sagt að hann hafði haldið þessu leyndu vísvitandi, hvorki samflokkmönnum hans eða Sjálfstæðismönnum var kunnugt um þessi hagsmunatengsl. Enn hef ég ekki séð skýra greiningu á því, hvernig þetta geti verið í samræmi við íslensk stjórnsýslulög um vanhæfi.

Hvar konan hans og/eða aðrir Íslendingar hafi geymt peninga sína, er auðvitað forvitnilegt, en af annarri stærðargráðu í mínum huga.

En stöldum við þessa samninga við bankana, og aðkomu forsætisráðherra.

Ég hef oft verið spurður af fjölmiðlum hvort samningar íslenska ríkisins við erlenda kröfuhafa hafi verið góðir, allt frá því þeir voru fyrst kynntir.

Mitt svar á sínum tíma er óbreytt í dag: Ég veit það ekki og hef engar forsendur til þess að mynda mér skoðun á því án þess að leggjast í töluverða rannsóknarvinnu.

Samningar að þessu tagi er flóknir og að auki snúa þeir að mörgu leiti um lagaleg álitaefni sem ég hef litlar forsendur til að meta. Þess vegna er grundvallaratriði að það ríki traust til þeirra sem um þessi mál véla og hagmunir þeirra séu uppá borðum og öllum ljósir.

Það sem ég gerði þó þegar ég varð spurður að þessu í fyrsta skipti, fyrir um ári síðan, var að skoða þá umgjörð sem stjórnvöld settu utan um þessa samninga.

Um þá umgjörð má lesa hérna.

Mér sýndist hún að mörgu leiti til fyrirmyndar. Þarna eru settar sérlegar reglur þeim sem komu að samningunum meðal annars til að taka á hagsmunaárekstrum, innherjaviðskiptum og öðru slíku, ef ég skil rétt, að viðurlagðri refsingu.

Komið hefur fram að allir þeir sem komu að samningagerðinni, þar á meðal fjármálaráðherra sjálfur, Bjarni Benediktsson, hafi verið bundnir af þessum reglum.

Einn aðili virðist hins vegar ekki bundinn þessum reglum og skrifaði ekki undir neinar yfirlýsingar af þessu tagi. Sá var forsætisráðherra landsins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, ef marka má fréttir Kjarnans af þessu máli hér og hér. Þetta er alvarlegt. Ég hef hvergi séð um þetta fjallað í öðrum fjölmiðlum en í Kjarnanum. Ef rétt er, verða að fást við þessu viðunandi skýringar. Þetta bætist ofan á það að forsætisráðherra vék sér undan því að undirrita siðarreglur ráðherra, sjá hér, sem einnig hefðu tekið á þessum atriðum.

Hvað samningana sjálfa varðar, eins og ég áður sagði, hef ég enn ekki neinar forsendur til að leggja mat á hvort þeir hafi verið góðir.

Það eru þó nokkur atriði sem standa uppúr hjá mér, þegar ég les fréttir að heiman, og reyni hér að neðan að vitna í þær heimildir sem ég hef séð. Ég myndi gjarnan fá miklu betri og viðameiri umfjöllun um þessi atriði.

Í fyrsta lagi, og í raun er þetta aukatriði en rétt þó að halda því til haga, fer því fjarri að það hafi verið sérleg hugmynd núverandi ríkisstjórnar að afskrifa kröfur erlendra kröfuhafa líkt og hefur verið látið í veðri vaka og ég hef séð marga fjölmiðla endurtaka í síbylju.

Þvert á móti var þetta sú leið sem síðasta ríkisstjórn lagði fram, og á rætur að rekja til lagasetningar sem setti þrotabú bankana undir gjaldeyrishöft í mars 2012. Þau lög þýddu að þrotabúin gátu aðeins greitt út kröfur sínar í krónum. Það var erlendum kröfuhöfum lítils virði að fá greiddar kröfur sínar í krónum, sem var í höftum, ekki síst í ljósi þess að stór hluti eigna þrotabúanna var erlendis. Lögin sköpuðu þannig ríkinu sterka samningsstöðu gagnvart erlendum kröfuhöfum.

En þá komum við að athygliverðri staðreynd: Hvorki Framsóknarflokkurinn né Sjálfstæðisflokkurinn studdi lagasetninguna frá 2012. Engar viðunandi skýringar hafa fengist á því.

Að því er ég best veit fer því líka fjarri að núverandi forsætisráðherra hafi fyrstur kynnt hugmundir um að afskrifa ætti erlendar kröfur. Ég hygg að það hafa alltaf legið ljóst fyrir að til þess kæmi.

Til dæmis sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri að afskrifa þyrfti 75 prósent af krónueignum erlendra kröfuhafa árið 2013. Um þetta má til dæmis lesa í fjölmiðlum frá þessum tíma, sjá til dæmi hérna og frétt af forsíðu Morgunblaðsins hérna. Sú leið hefði skilað um 350 milljörðum króna miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir á þeim tíma. Þessar fréttir eru frá því í mars 2013, í tíð fyrri ríkisstjórnar. Raunar hefði held ég að það væri gagnlegt að bera saman nákvæmlegt mat Seðlabankans 2013 í tíð fyrri ríkisstjórnar og raunverulegar fjárhæðir sem samningurinn skilaði. Ef einhver hefur séð slíkt mat, væri það vel þegið í athugasemdum. Til að mynda talaði Már um að afskrifa þyrfti 75 prósent erlendra krónukrafna, og gerði ráð fyrir að þær væru um 450 milljarðar. Seinna hygg ég að í ljós hafi komið, þótt ekki þori ég að fullyrða um það, að þessar krónukröfur hafi verið talsvert stærri. Það hefði aftur benti til þess að afskrifin hefði átt að vera stærri ef miðað er við upphaflegt mat Más. Þetta er ein þeirra spurninga sem fróðlegt væri að fá svar við.

Það nýja í því sem núverandi forsætisráðherra lagði fram seinna á árinu 2013 var ekki að afskrifa kröfur erlendra kröfuhafa. Hin nýja hugmynd var nota þetta fé, sem alltaf lá fyrir að myndi gefa ríkinu aukið svigrúm, til þess að afskrifa skuldir á íslensk heimili í stað þess að nota það til að borga niður skuldir ríkissjóðs sem stökkbreyttust til hins verra vegna hrunsins, ekki síst vegna tæknilegs gjaldþrots Seðlabanka Íslands. Flestir lögðust gegn þessari hugmynd, ekki af samúð við erlenda kröfuhafa, heldur vegna þess að hin innlenda skuldaniðurfelling kæmi sér aðallega vel fyrir það fólk, sem ekki þyrfi á afskriftum að halda. En það er rétt að halda því rækilega til haga, að þessar tvær aðgerðir voru algerlega sjálfstæðar. Hægt var að ganga hart að erlendum kröfuhöfum, án það hefði neitt með afskriftir af íslenskum húsnæðislánum að gera. Að því er ég best veit ríktu aldrei neinar deilum um að afskrifa þyrfti stóran hluta krónueigna erlendra kröfuhafa. Flestir Íslendingar, en þó ekki allir að því er nú virðist, höfðu af því ríka hagsmuni að þær afskriftir yrðu eins viðamiklar og lög leyfðu.

Í öðru lagi virðist sem þeir samningar sem náðst hafa, séu að miklu leiti hinir sömu og þegar lágu fyrir 2013, þótt mér sýnist sú upphæð sem ríkið fær í sinn hlut kunni að vera lægri en þeir 350 milljarðar sem seðlabankastjóri gerði ráð fyrir 2013. Um það vil ég þó ekki dæma, og grunar að upphæðin kunni að vera töluverðri óvissu bundin því að hún mun fara eftir söluverði þeirra eigna sem ríkið fékk í sinn hlut. Sem kveikir eftirfarandi spurningu: Hvað tók svona langan tíma úr því að lending málsins var nánast hin sama og um var rætt fyrir 3 árum? Og hver, nákvæmlegt, er hlutur núverandi forsætisráðherra í því máli? Ríkti ágreiningur milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar um hvaða leið velja skyldi? Hver var sá ágreiningur?

Í þriðja lagi er á þessu máli annar flötur sem einnig krefst skýringa. Þegar stjórnvöld kynntu samningana, sögðu þau að gerð hafi verið áætlun um stöðugleikaskatt samhliða samingum við kröfuhafa. Sagt var að ríkinu væri heimilt að leggja á 39 prósenta skatt á þrotabúin og að slík skattlagning væri lögleg og stæðist stjórnarskrá.

Niðurstaðan var hins vegar sú, að skattur þessi var ekki lagður á. Í staðinn var gerður samningur við kröfuhafa.

Ég hef ekki lagt sjálfstætt mat á tölur í þessu samhengi. Hér að neðan eru nokkrar heimildir sem ég hef séð, en auðvitað ætti að liggja fyrir ítarlegri rannsóknir en vitnað er til hér að neðan. Ábendingar eru vel þegnar í athugasemdum.

Fjölmiðilinn Kjarninn telur að sú leið sem farin var skilaði 300 milljörðum minna til ríkisins en ef skatturinn hafi verið lagður á, sjá hér.

Kári Stefánsson nefnir 550 milljarða í þessu samhengi, sjá hér, en í báðum tilfellum er um að ræða mat manna samkvæmt upplýsingum sem fyrir liggja í dag.

Ef við horfum til baka, kemur svo í ljós að ýmsir úr stjórnarandstöðunni og Indefence hópnum svokallaða lögðu svipað mat á hlutina á þeim tíma sem samningarnir voru kynntir. Í fésbókarfærslu Össurar Skarphéðinsson, fyrir um það bil einu ári, sjá hér, segir hann að sú leið sem farin hafi verið feli í sér “skattaafslátt” upp á 400 milljarða.

Í stuttu máli er því niðurstaðan þessi: Sú leið sem farin var í samningum við kröfuhafa virðist benda til að stjórvöld fái uppúr krafsinu heldur minna en Már Guðmundsson Seðlabankastjóri benti á að yrði líkleg niðurstaða árið 2013 í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Frá því að Már lagði þetta mat á stöðu mála, hafa í millitíðinni staðið yfir langar og strangar samningaviðræður. Í þeim viðræðum kynntu stjórnvöld meðal annars áætlun um skattheimtu – sem átti víst að standast stjórnarskrá að bestu manna yfirsýn – sem hefði að öllum líkindum skilað um það bil tvöfaldri þeirri upphæð sem endalega kom í hlut ríkisins, ef marka má þá umfjöllun sem vísað er í hér að ofan.

Ef þetta er rétt, erum við að tala um tilfærslu frá íslenskum skattgreiðendum til erlendra kröfuhafa sem nemur hundruðum milljarða, vegna þeirra leiðar sem farin var.

Voru þetta góðir samningar? Það kann vel að vera. En í ljósi nýjustu upplýsinga er fullt tilefni til að skoða svarið við þeirri spurningu nánar, fremur en að taka svarinu sem fyrirfram gefnu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur