Laugardagur 02.04.2016 - 18:36 - FB ummæli ()

Eiga stjórnmálamenn að vera ríkir?

Mér þóttu athygliverð leiðaraskrif Fréttablaðsins í dag. Þar er varpað fram þeirri kenning að það sé á einhvern hátt “heppilegt” að þeir sem dunda sér í stjórnmálum séu ríkir því “þá eru minni líkur á því að hægt sé að hafa áhrif á þá.”

Þetta er mjög mikilvæg umræða og innlegg leiðarahöfundar áhugavert. En mér fannst þessi leiðari ekki ná utan um kjarna málsins.

Þegar kemur að stjórnmálaþátttöku og hvort hægt sé að hafa óeðlileg áhrif á fólk, held ég að það sé aukaatriði hvort menn séu ríkir eða ekki. Spurningin er sú hvort stjórnmálamenn, eða fólk þeim nákomið, hafi fjárhagslegra hagsmuna að gæta í þeim ákvörðunum sem stjórnvöld taka.

Út frá þessum sjónarhóli, tel ég til að mynda að það sé hvorki gott eða slæmt að forsætisráðherra eigi í gegnum konu sína um milljarð króna á Tortóla eyju. Á hinn bóginn er það ákaflega óheppileg — svo ekki sé dýpra í árina tekið — að hann eigi hálfa milljarða króna kröfu á þrotabú bankana í gegnum konu sína og hafi haldið þeim upplýsingum vísvitandi leyndum fyrir samstarfsfólki sínu og almenningi þegar hann leiddi samningaviðræður við þessa sömu kröfuhafa. Allar ákvarðanir sem hann tók höfðu umtalsverð áhrif á virði þessarar kröfu og þar með efnhag konu hans og hans sjálfs í framtíðinni.

Að sama skapi held ég að það sé hvorki gott né slæmt að svo virðist sem fjármálaráðherra sé vel efnaður og eigi eignir út um allan heim. Spurningin er fyrst og fremst sú hvort hann hafi fjárhagslegra hagsmuna að gæta í þeim ákvörðunum sem hann hefur tekið eða mun taka í framtíðinni – hvort heldur í gegnum eigin eignir, eignir konu sinnar, foreldra, nákominna ættingja, fyrrum viðskiptafélaga og svo framvegis.

Með samningum ríkisins við erlenda kröfuhafa tók ríkið yfir eignir á Íslandi sem hlaupa á hundruðum milljarða. Þær þarf að selja. Því sjáum við fram á stærstu sölu ríkiseigna í Íslandssögunnar á næstu árum. Næstu skref eru ákaflega vandasöm.

Er best að þeir sem bera ábyrgð á því að selja þessar eignir, séu ríkt fólk, fólk með meðaltekjur eða fátækt?

Það er ekki aðalaltriðið, heldur hitt að þeir sem að málum þessum koma hafi ekki prívat hagsmuna að gæta. Ef stjórnmálamenn, foreldrar þeirra, ættingjar, venslafólk eða vinir eiga hundruðir milljóna í leyndum skattaskjólum og eru á vappi um íslenskt efnhagslíf að leita sér að fjárfestingartækifærum, sem verða mörg og stór í sniðum á næstu árum, eru þessir sömu stjórnmálamenn ekki endilega sérstaklega vel til þess fallnir að fara með söluferli þessara eigna, jafnvel þótt þeir séu ríkir. Því er meira að segja stundum svo farið, þótt að það sé alls engin regla, að ríkt fólk hefur meiri áhuga á peningum en aðrir. Það er kannski einmitt þess vegna sem það ákveður — frekar en að til dæmis vinna í leikhúsi, dunda sér við ljóðasmíðar eða rannsaka Íslendingasögur — að vinna í banka eða sýsla með fé, og verður ríkt.

Verstu vandamálin verða til, þegar fólk fer að líta á það sem góða leið til að verða ríkt, að hella sér út í stjórnmál. Því miður er þessi raunin í fjölmörgum ríkjum heims. Pútín er nú talinn einn auðugasti maður í veröldinni en hann hefur einungis unnið hjá ríkinu. Að mati margra hagfræðinga er þetta stærsta efnahagslega vandamál margra þróunarríkja. Þeir sem hafa áhuga á að auðga sjálfan sig, eiga að stefna að því að búa til fyrirtæki, selja almenningi vörur sem fólk vill kaupa, og verða þannig ríkir. Og þá eru oftast allir ánægðir. Í því býr fegurð hins kapítalíska skipulags. Stjórnmál er ekki heppilegur vettvangur fyrir fólk sem er fyrst og fremst drifið áfram af persónulegri hagnaðarvon. Hvort stjórnmálamenn séu ríkir eða ekki áður en stjórnmálaþáttaka hefst er aukaatriði. Aðalatriðið er að það verður að ganga rækilega þannig frá málum, að stjórnmál séu ekki leið fyrir fólk til að auðga sjálft sig eða vini sína og ættingja, og að það séu engin dulin persónuleg hagsmunatengls sem áhrif geta haft á hvað stjórnmálamenn gera. Þetta verður að tryggja og er algert grundvallaratriði.

En aftur til Íslands. Þegar á öllu er á botninn hvolft, er kannski ekki bara ágætt að “fátækt fólk” sjái um það mikla söluferli ríkiseigna sem nú er framundan, fólk sem á engra peningalegra hagsmuna á að gæta í niðurstöðu sölunnar annan en þann að hámarka hagnað kjósenda? Til dæmis sá ég í sjónvarpinu um daginn að Katrín Jakobsdóttir býr í lyftulausri blokk — á þriðju eða fjórðu hæð að mig minnir. Ég þekki hina eldkláru eldri bræður hennar tvo frá fornu fari, þeir eru í fræðastússi uppí Háskóla Íslands og hafa því bersýnilega ákveðið að sókn í peninga er ekki forgangsmál í þeirra lífi, þótt ég sé viss um að þeir hefðu hæglega grætt meira með því að velja sér annan starfsferil. Ég er nokkuð viss um að þeir eiga ekki hundruðir milljóna í leyndum sjóðum á eyjum suður í höfum (nema bækur á þeirra vegum um fornsögur Íslendinga hafi óvænt orðið metsölurit án þess að ég hafi tekið eftir því þegar ég flutti af landinu fyrir 19 árum síðan).

En punkturinn snýr svo sem ekkert að Katrínu, og hún er auðvitað fjarri því að teljast „fátæk“ þótt seint teljist hún líklega „rík“ í peningalegum skilningi heldur er punturinn sá, að þótt Ísland sé lítið land er til aragrúi af eldkláru og hæfileikaríku fólki sem ekki hefur beina fjárhagslega hagsmuni af söluferlum þeirra ríkiseigna sem framundan eru. Það fólk er í öllum flokkum og sumt þeirra kann jafnvel að vera ríkt. Fólk sem hefur beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta í gegnum vini og fjölskyldu, á hinn bóginn, er vanhæft og á að segja sig frá þessum málum.

Það er mikið áhyggjuefni ef að nú er við völd fólk sem telur það ekki koma neinum við hver eru fjárhagsleg áhrif stjórnvaldsákvarðana á nákomna ættingja sína eða eiginkonur, vini og vandamenn, þegar stærsta sala ríkiseigna í Íslandssögunni er yfirvofandi. Það er líka áhyggjuefni ef fjölmiðlar skynja þetta ekki sem raunverulegt vandamál heldur eru jafnvel tilbúnir til að snúa þessu á haus: Að í raun og sann sé þetta kostur en ekki galli. Til að byggja upp traust í íslensku samfélagi á næstu árum, þarf að setja skýrar reglur um raunverleg hagsmunatengls allra stjórnmálamanna og þeirra er koma að sölu ríkiseigna. Um þetta hljóta allir stjórnmálamenn að geta verið sammála, ríkir sem fátækir, og hvort sem þeir eigi pening í Tortóla eða annars staðar. Vegna þess hvað framundan er hlýtur þetta að vera stærsta forgangsatriði í íslenskum stjórnmálum í dag. Og stærsta forgangsmál fjölmiðla að fylgja þessu eftir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur