Þriðjudagur 05.04.2016 - 15:15 - FB ummæli ()

Gærdagurinn og viðbrögð um- og nærheimsins

Ég setti í gær inná facebook (eða fjasbókina) litla færslu til vina og vandamanna um það hverning atburðir dagsins horfðu við mér í gærkvöldi héðan utan frá séð. Kannski einhverjir fleiri hafa áhuga á þeim vangaveltum, þær birtast að neðan. Afsaka innsláttar og stafsetningarvillur, ég hef tíma til að vera að laga slíkt.

————————–

Eins og margir fjasbókarvinir mínir vita, þá vinnur konan mín, Helima Croft, í fjárfestingarbanka en líka sem álitsgjafi á bandarísku sjónvarpstöðinni CNBC.

Ég hef satt best að segja reynt að tala sem minnst um vandræði okkar Íslendinga á heimilinu, mér finnst það satt best að segja ekki skemmtilegt umræðuefni, og var að vona að hún tæki eftir litlu. Nú bregður svo við að konan mín ákveður að mér forspurðum að deila með öllum vinum sínum og fjölskyldu frétt CNBC af Íslandi í dag (sjá hér) en henni var bent á fréttina af samstarfskonu eftir að hún hafði verið að tala um olíu og Saudi Arabíu á CNBC í dag (sjá hér). Sem betur fer minntist enginn á Ísland í hennar umræðuþætti, þótt Saudi-Arabar hafi einnig verið áberandi á aflandeyjarlistunum ásamt Íslendingum og öðrum skuggalegum félagsskap.

Fyrir rúmum tveimur vikum þegar málið var fyrst tekið að skýrast setti ég inn smá færslu hérna á fjasbókinni í tilefni þess að Fréttablaðið sagði í leiðara að umræða um hagsmunaárekstra forsætisráðherra væru “dylgjur” og “sjúkdómseinkenni á fárveikri pólitískri umræðu.” (sjá hér). Ég spáði því að sumir Íslendingar myndu líklega ekki átta sig á alvöru málsins fyrir en erlendir fjölmiðlar færu að fjalla um það. Og það var fyrirsjáanlegt að það myndi gerast, því hrunið var alþjóðlegt fyrirbæri og Ísland í auga stormsins á þeim tíma. Þessi mál tengjast og því heimsfrétt.

Satt best að segja grunaði mig hins vegar ekki að þessi frétt yrði jafn risavaxið alþjóðlegt hneyksli og nú hefur komið í ljós. Og ég held að þetta mál sé töluvert verra fyrir orðstír Íslands en sjálft hrunið. Þá gátu landsmenn kennt vondu vondu bankamönnum um ófarir sínar, en erlendir bankamenn höfðu líka valdið stórfelldum skaða í öðrum ríkjum. Í þessu tilfelli erum við að tala um lýðræðiskjörinn leiðtoga í vestrænu lýðræðisríki sem nú er nefndur í sömu andrá og helstu harðstjórar heimsins líkt og Pútin, Assad eða Ashmaminabad. Þetta blasir við á forsíðum stórblaða heimsins. Og við reynum að auglýsa okkur á tyllidögum sem vestrænt lýðræðisríki með “elsta” þjóðþing veraldar (þótt að það, eins og margt annað sem við segjum við auðtrúa útlendinga, sé byggt á dálítið kúnstugri röksemdafærslu).

Ísland lítur út eins og bananalýðveldi í augu umheimsins í dag. Þetta er óþolandi og satt best að segja ósanngjarnt, ekki bara gagnvart þjóðinni okkar heldur líka mínum gamla skólafélaga úr MR, Sigmundi Davíð, sem þrátt fyrir sína galla á sannarlega ekki heima í hópi þessara alheimsskúrka og fjöldamorðingja. En burtséð frá því, þá er skaðinn er skeður. Forsætisráðherra gerði alvarleg mistök sem hann nú hefur viðkennt. Og það eru fleiri í þeim hópi. Nú verða menn að einhenda sér í að lágmarka skaðann, og láta eigin hagsmuni víkja fyrir þjóðarhag burt séð frá innanlandspólitík. Það taka aðrir við keflinu.

Annars fannst mér athyglivert að hjá Bandaríkjamönnum virðist helsta fréttaefnið sami punkturinn og ég tók strax eftir og þegar ég las um málið fyrst – sem er kannski ekki skrítið því ég hef búið hérna í 19 ár og því fréttamatið kannski svipað nú hjá mér og hérna úti. CNBC segir um leynireikningana að „Icelandic Prime Minister Sigmundur Gunnlaugsson, for example, had one in which he and his wife allegedly held stakes in financial institutions as he was negotiating with them.” Forsætisráðherra átti hálfra milljarða kröfu í þrotabú bankana og hélt því leyndu þegar hann átti í samningum við þessi sömu þrotabú fyrir hönd þjóðar sinnar. Hann sat beggja vegna borðins.

Það sem hefur verið svo furðulegt fyrir mig við að horfa á þetta svona utan frá, er að þessi staðreynd lá fyrir í nokkrar vikur í opinberri umræðu á Íslandi — þetta var óumdeilt, forsætisráðherra sjálfur játaði að hafa haldið þessu vísvitandi leyndu fyrir þjóð og þingi — og stórir fjölmiðlar líkt og Morgunblaðið eða Stöð 2 fjölluðu vart um málið. Aðrir eins og Fréttablaðið kölluðu umræðuna um hagsmunatenglin “fársjúka“ og upp dúkkuðu viðmælendur sem báru fyrir sig furðulegum lagatæknilegum rökum að engin ástæða hafi verið fyrir að lýsa þessum alvarlegu hagsmunatenglum. Mér sýndist Stundin og Kjarninn vera einu fjölmiðlarnir sem tóku á málinu af alvöru í fyrstu, og nokkrir aðrir hrópendur í eyðimörkinni, þótt RÚV hafi átt lokahnykkinn.

En þrátt fyrir þetta, utan frá séð, var umræðan undalega hljóðlát og maður horfði uppá fylgismenn forsætisráðherra ráðast með offorsi á alla þá er spyrðu sjálfsagðra spurninga lágum rómi, spurninga sem myndu vakna í hverju einasta vestræna lýðræðisríki í dagi. Það er eins og Íslendingar hafi ekki vaknað almennilega upp fyrr en þeir tóku eftir því hvernig umheimurinn bregst við upplýsingum um hagsmunaárekstra og laumuspil af þessu tagi af lýðræðislega kjörnum leiðtoga. Það er rétt að allt þetta mál er merki um fársjúka pólitíska umræðu á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur