Þriðjudagur 26.04.2016 - 21:25 - FB ummæli ()

Að verða ríkur á stjórnmálum

Því miður virðast upplýsingar síðustu daga renna stoðum undir margt sem nú þegar hefur komið fram í umræðunni á Íslandi. Svo virðist sem að góð leið til þess að verða ríkur á Íslandi, sé að vera vel tengdur inn í stjórnmálaflokka.

Spilling er stærsta efnhagslega vandamál margra þróunarríkja. Grunnhugmynd vestrænna lýðræðisríkja sem byggjast á kapítalísku skipulagi og frjálsu framtaki er sú að búa til samfélagsgerð þannig að besta leiðin til þess að eignast pening sé að stofna fyrirtæki og selja vöru sem fólk vill kaupa. Þannig er hægt að leiða saman hvata fólks til að hámarka eigin hag og hag almennra neytenda. Auðvitað er ýmislegt sem ber að varast — svo sem einokun — en í grundvallaratriðum hefur þetta þjóðfélagsskipulag gengið mjög vel. Alvarleg vandamál verða til þegar fólk fer að beina hæfileikum sínum og orku — ekki til að búa til ný fyrirtæki og vörur sem annað fólk vill kaupa — heldur í staðinn í rentusókn. Að besta leiðin til þess að verða ríkur sé ekki að búa til hluti sem aðrir vilja kaupa, heldur að þekkja réttu mennina sem eru í aðstöðu til að úthluta takmörkuðum gæðum á óljósum forsendum. Þá er orku, vinnu og hugviti eytt í hluti sem skapa ekki neitt nýtt, heldur færa bara pening úr vasa Péturs til Páls.

Ísland er dásamlegt land, með mikinn mannauð og ótrúlegar náttúruauðlindir. Ég held að Íslandingar séu í grunninn ærlegir og ákaflega vinnusamir. En mig grunar að landið gæti verið í svo miklu betri efnahagslegri stöðu ef að minna væri um frændhygli. Ef það væri ekki svona óskaplega mikilvægt að vera besti vinur eða frændi aðal. Því þegar þær aðstæður eru uppi, beinir fólk kröftum sínum í vitlausar áttir, bæði í pólitíkinni og þjóðfélaginu öllu. Og öll umræða litast af þessu, ekki síst fjölmiðlanna, því að svo miklir hagsmunir eru undir því komnir að eiga vini á réttum stöðum. Eða eins og Styrmir Gunnarsson orðaði það svo eftirminnilega, en hann er sá maður sem segja má að fylgst best með stjórnmálum íslenskum úr innsta hring: „Ég er búinn að fylgjst með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“ Þessi lýsing rímar vel við þjóðfélag þar sem rentusókn í gegnum stjórnmálalíf er ein megin leiðin til þess að verða ríkur.

Framundan eru gífurleg sala ríkiseigna svo nemur hundruðum milljarða í kjölfar uppgjörs þrotabús bankanna. Þetta er fordæmalaust. Við vitum hvernig bankarnir voru seldir síðast. Með grófri einföldun gerðist það svona samkvæmt Rannsóknarskýrslu Alþingis: Einn ríkisbankinn var seldur með láni frá hinum ríkisbankanum og öfugt. Og kaupendurnir voru nátengdir stjórnmálaflokkunum sem voru við völd.

Framundan er gríðarlega stór sala eigna. Við höfum nú þegar séð, að í tilfelli sölu á Borgunar — sem Landsbankinn nú reynir að rifta að því er ég best get séð — var hún seld langt undir markaðsverði svo að hagnaður kaupenda hleypur á milljörðum. Það er ekki til þess að auka traust að þessi sala fór fram á bak við luktar dyr, og að í kaupendahópnum var föðurbróðir fjármálaráðherra og helsti viðskiptafélagi til margra ára. Ég þekki ekkert söguna á bak við þessa sölu og get ekki dæmt um hvernig staðið var að málum. Ekki ætla ég að þykjast geta sest í neitt dómarasæti í þessu einstaka máli. Ísland er lítið land, allir eru frændur hvers annars.

En stóra myndin er sú að við eigum eftir að sjá gífurlega mörg álitaefni af þessu tagi koma upp á næstu tveimur árum. Ríkið mun selja fullt af fyrirtækjum og þau kaup verða að stóru leiti fjármögnuð með lánum frá ríkisbönkum og kannski að einhverju leiti fjármögnuð með peningum sem urðu til vegna síðustu ríkisbankasölu og enduðu í aflandseyjum.

Það verður að reyna að ná sátt um einhvers konar gagnsætt ferli þar sem allir sitja við sama borð. Á meðan ekki er fyrir hendi skýrar reglur, þá gengur ekki að vinir, viðskiptafélagar eða venslamenn þeirra sem eru við völd séu að kaupa þessi fyrirtæki og græða milljarða, eða þetta gerist í gegnum torskilin ferli í gegnum skúffufyrirtæki frá aflandseyjum sem engin veit hver á. Þetta verður að  vera yfir allan vafa hafið. Stjórnmálamenn íslenskir geta ekki lengur notið vafans, eftir allt sem á undan er gengið.

Stærsta verkefnið framundan á Íslandi sýnist mér vera að búa til stofnanir og leiðir til að hægt sé að koma þeim fjölda fyrirtækja sem nú eru í ríkiseign til hæstbjóðenda í ferli sem er opið, og þar sem enginn vafi getur leikið á því ekki sé verið að úthluta til frænda, vina eða vandamanna í einhverjum helmingaskiptum líkt og í síðustu risavöxnu sölu ríkisseigna.

Í kjölfar hrunsins í Mars 2009, vöktum við Jón Steinsson, hagfræðingur við Columbia háskóla, máls á því hvernig hægt væri að standa að þessu í grein í Morgunblaðinu, sjá hér.

Því fer fjarri að ég þykist vita hvað sé besta lausnin, og er ekki að halda því fram að sú leið sem við lögðum til sé einhver töfralausn.

En staðan í dag er ekki góð. Það er engu líkara en allt þetta söluferli sé í rassvasanum á ríkisstjórnarflokkunum eða flokkshestum sem virðast í all nokkru óðagoti vera að reyna að selja þessar eignir. Reglur og ferli eru óskýr, ábyrgð hvers og eins óljós. Þessu þarf að breyta. Það er hlutverk fjölmiðla, stjórnarandstöðu og almennings að halda stjórnvöldum við efnið. Og hlutverk stjórnvalda að setja fram áætlun sem er trúverðug þannig að sala einstakra fyrirtækja eða banka sé ekki háð geðþótta einstakra flokka eða stjórnmálamanna. Kannski hef ég verið að missa af einhverju hérna í útlandinu. En trúverðuga áætlun af því tagi hef ég ekki séð enn.

PS. Eftir að ég skrifaði þessa færslu var ég var að sjá þessa frétt frá því í dag að einkahlutafélag um þessar miklu eignir hafi verið stofnað. Það litla sem ég sá lofaði ekki góðu. Fjármálaráðherra sjálfur á að vera formaður félagsins? En ég ætla að bíða lengur til að sjá hver útfærslan verður, áður en ég felli neina dóma. En það hlýtur að vera lágmarkskrafa að stjórnmálamennirnir sjálfir séu ekki að garfa í því að selja fyrirtæki í eigu ríkisins. Þeir eiga að setja almennar reglur og lög um hvernig þetta fer fram, ekki vera í því hlutverki þeirra sem velja hver má kaupa og hver má ekki kaupa, hvort heldur beint eða úr aftursætinu. Slíkt þarf að binda í lög, að viðurlögðum refsingum. Ég vona að Alþingi nái saman um skynsamlegt fyrirkomulag á þessu í breyðri sátt. Þetta er í raun ekki hægri-vinstri mál, heldur snýr að því að vernda hagsmuni almennings.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur