Sunnudagur 08.05.2016 - 14:41 - FB ummæli ()

Ómissandi menn

Þetta verða sannarlega skemmtilegar forsetakosningar, nú þegar Davíð Oddsson hefur líka ákveðið að taka slaginn.

Bæði Ólafur og Davíð eiga giska hálfrar aldar feril í stjórnmálum og ekki annað hægt en að dáðst að dugnaðnum og fórnfýsinni fyrir land og þjóð. Báðir hafa þeir átt stóra sigra, og önnur augnablik sem ekki hafa verið sérlega gæfuleg, eins og við er að búast eftir svona langt stjórnmálastarf.

Ég hef ekki haft tök á því að hlusta ennþá á yfirlýsingar Davíðs, en eftir að hafa rennt yfir netmiðlanna stendur þessi kostulega frétt af eyjunni upp úr hjá mér:

„Spurður hvort ekki væri komið nóg af þeim Ólafi Ragnari og Davíð Oddsyni að kljást fyrir framan íslenska þjóð sagði Davíð að sumum kynni að þykja það. Hins vegar væri ekki völ á neinum öðrum í augnablikinu sem hafi sömu kosti og þeir félagar. Við núverandi aðstæður séu upp miklar ógnir í heiminum og hér heima. Alþingi sé alveg ofboðslega veikt og þjóðin væri alveg galin ef hún veldi þá líka veikan forseta. „Ég held hún sé það ekki,“ sagði Davíð.“

Já hún er aldeilis galin, þjóðin, ef hún sleppir hendinni af þessum tveimur landvættum Íslands, sem auðvitað eru ómissandi.

Ég verð að játa, að ég held að það sé mjög gott að Davíð sé kominn í framboð, og held að maður eigi aldrei að gera lítið úr því að menn gefi kost á sér í opinber embætti. Þeim mun fleiri þeim mun betra. Kjósenda er valið.

Ég er sammála Davíð í því að ég held að þjóðin sé alls ekki galin.

Og ég held að það væri líka ágætis heilbrigðisvottorð fyrir íslenska kjósendur ef þeir færu að hyggja að framtíðinni, til dæmis að nýrri stjórnarskrá sem þeir kumpánar Davíð og Ólafur af ólmast gegn með kjafti og klóm, og þakki þeim félögum pent fyrir — þetta er komið fínt kæru vinir, við þökkum góð störf fyrir hönd lands og þjóðar — og rétti einhverjum öðrum keflið. Og mér sýnist fínir kostir í boði fyrir þá sem telja að landið verði ekki stjórnlaust þótt þeir kumpánar Davíð og Ólafur snúi sér að öðrum áhugaefnum eftir hálfrar aldar stjórnmálavafstur.

Því sýnist mér þetta framboð vera hvalreki, til dæmis fyrir Andra Snæ Magnason, sem stendur fyrir ákveðna og jákvæða framtíðarsýn og hefur sterka málefnastöðu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur