Sunnudagur 29.05.2016 - 20:08 - FB ummæli ()

Góðir menn: Andri Snær og Guðni Th.

Mér líst vel á forsetakosningarnar upp á Íslandi. Mér finnst bæði Andri Snær og Guðni Th. bjóða upp á skemmtilega sýn á embættið, án þess að vilja gera lítið úr öðrum frambjóðendum.

Það sem mér finnst einna skemmtilegast við þá báða, er að þeir eru grúskarar, vel skrifandi og mælskir. Fyrst og fremst koma þeir mér fyrir sjónir sem afskaplega venjulegir og hógværir menn sem tala um mál af skynsemi og yfirvegun. Og framar öllu eru þeir heiðarlegir og virðast engum háðir. Þeir eiga engra harma að hefna, heldur horfa fram á við.

Ég þekki raunar Guðna Th. lítið en hef séð til hans í riti og ræðu, og litist vel á. Ég hef þekkt Andra Snæ frá barnæsku úr Árbænum. Því verð ég að viðurkenna að ég er meira spenntur fyrir Andra Snæ því ég þekki hann svo vel. Ég er sannfærður um að hann yrði frábær forseti.

Sem krakki kom Andri Snær mér fyrir sjónir sem skemmtilegur gaur, alltaf í boltanum, og fyndinn með afbrigðum. En hann var ekki þetta dæmigerða félagsmálatröll, að minnsta kosti ekki eftir því sem ég man, hvað þá heldur skáldaspíra (not that there is anything wrong with that!).

Það kom mér satt best að segja ákaflega á óvart þegar Andri Snær varð allt í einu orðinn rithöfundur. Ég verð að játa að þetta var það síðasta sem mér datt í hug að Andri Snær myndi gera þegar við ólumst upp þótt hann væri óvenju orðheppinn. Einhvern veginn hafði ég gert ráð fyrir því að hann yrði læknir eða ynni í heilbrigðisgeiranum eins og mig minnir að stór hluti familíunnar hans geri. En í staðinn er hann ekki bara rithöfundur, heldur margverðlaunaður rithöfundur á heimsmælikvarða sem hefur verið þýddur á fjölmörg tungumál og verk hans gefin út eða uppfærð í meira en 30 löndum. Hérna í New York, þá lesa margir krakkarnir í skóla sona minna Bláa Hnöttinn. Sjaldan hef ég verið jafn stoltur að því að vera Íslendingur og þegar ég komst að þessu, enda einstaklega falleg, frumleg og skemmtileg bók.

En það sem hefur komið mér dálítið á óvart, svona utan frá séð, er það sem ég hef lesið frá sumum andstæðingum framboðsins. Sýn margra á Andra Snæ út frá sumu því sem ég hef lesið að heiman er allt önnur en mín, enda fluttist ég til Bandaríkjanna fyrir 19 árum. Sjónarhorn mitt á Andra byggir á minningum úr æsku og þess sem ég hef lesið eftir hann á síðari árum sem er margt og óvenjulega frumlegt, á heimsmælikvarða satt best að segja.

Mér sýnist honum oft stillt upp sem annars vegar einhvers konar lappelepjandi listaspíru úr 101, hangandi á kaffihúsum “á kostnað skattgreiðenda” sem aldrei hafi pissað í saltan sjó. Á hinn bóginn er reynt að spyrða hann við VG vegna áhuga á umhverfirsmálum. Ég hef jafnvel heyrt tala um hann sem “umhverfisöfgamann” af góðum vinum mínum og ættingjum. Allt kemur þetta mér afskaplega spánskt fyrir sjónir.

Andri Snær kom mér aldrei mjög fyrir sjónir sem 101 listaspíru týpan og þess vegna kom sérstaklega skemmtilega á óvart að hann er afburðarrithöfundur. Kannski bara af þeirri yfirborðslegu ástæðu að hann úthverfagaur, fótboltamaður úr Árbænum sem spilaði í Fylki (ágætur boltamaður – en enginn snillingur frekar en ég að því er ég best man — en slarkfær), fór svo í Menntaskólann við Sund og hefur að því ég best man búið í Hlíðunum síðan þá.

Þar byrjaði hann hratt að hrúga niður börnum, sem voru fjögur þegar ég taldi síðast. Þegar ég bjó uppá Íslandi man ég varla eftir að hafa séð Andra mikið að vafra á kaffihúsum eða börum eða að lepja latte í 101 með lopatrefil. Ég held að hann hafi verið allt of upptekinn við að skipta um bleyjur og skrifa bækur og leikrit.

Hitt sem hefur komið mér á óvart er hversu mjög margir spyrða Andra Snæ við VG. Nú hef ég sosum ekkert á móti VG, á þar marga vini eins og í öllum flokkum, en þetta bendir til þess að fólk hafi ekki lesið það sem Andri Snær hefur skrifað og tengist pólitík, og þekki illa þá sýn sem hann setur fram. Hún er nefnilega miklu frumlegri og áhugaverðari en svo að hægt sé að troða henni í flokksbása, hvort heldur inní VG eða annars staðar.

Bók hans um Draumalandið – sem er ótrúlega merkileg bók um það brjálæði sem virkjanaframkvæmdir voru komnar á Íslandi með Kárahnjúkum og fleiri áformum – er nefnilega eins langt frá því að vera skrifuð út frá sjónarmiði hefðbundins vinstrisósíalisma og hægt er að hugsa sér (en með réttu eða röngu tengir fólk einmitt VG oft við vinstrisósíalisma, án þess að ég vilji eitthvað fara í einhverjar stjórnmálaskýringar hérna um VG).

Rök Andra Snæ í Draumalandinu gegn stóriðjustefnunni er að í henni felist stjórnlyndur ríkissósíalismi, enda ríkið að standa í öllum þessu framkvæmdum á kostnað almennings, og í leiðinni að fórna ómetanlegum nátturuperlum fyrir afar óljósan og áhættusaman ávinning. Til að bætu gráu ofan á svart er svo raforka seld á tombóluprís til alþjóðlegra fyrirtæki sem komast hjá því að borga skatta af arði með alls kyns æfingum.

Rauður þráður í Draumalandinu er harkaleg árás á þá nauðhyggju að það sé hlutverk ríkissins að “skapa” störf. Slíkt gerist með frjálsu framtaki einstaklinga í vel skipulögðu markaðshagkerfi þar sem hugmyndaríki fólksins í landinu er í lykilhlutverki líkt og Andri leggur áherslu á. Hann hefur gagnrýnt landbúnaðarkerfið á sama grunni, að það leiði ekki fram sköpunarkraft bændanna heldur sé öllu handstýrt af ríkinu sem taki alla dýnamíkina og sköpunarkraftinn úr greininnni. Það var því ekki tilviljum að Andri Snær fékk frelsisverðlun Kjartans Gunnarssonar, veitt af Sambandi Unga Sjálfstæðismanna fyrir útgáfu Draumalandsins. Staðreyndin er nefnilega sú að nálgun Andra er að mörgu leiti nálgun nútímalegrar hagfræði – sem oft er líka beitt af frjálshyggjumönnum – en þó eru röksemdafærslur Andra um kosti frelsisins og markaðsins settar fram á frumlegri og óvæntari hátt en maður sér annars staðar. Í því liggur snilld bókarinnar.

Það er óneitanlega kaldhæðnislegt  að einhvern veginn hafi tekist að troða Andra í eitthvað vinstriflokka box, sem er nú einmitt það sem gert er á Íslandi í nánast allri umræðu. Mikið óskaplega er þetta hvimleitt. Fólki er troðið í box. Það eina sem ég get séð að Andri eigi sameiginlegt með mörgum yst á vinstri vængnum er brennandi áhugi á umhverfismálum. En það er ekkert vinstri-hægra mál. Ef skrif Andra eru lesin eru þau miklu dýpri og hugmyndaríkari en að hægt sé að troða þeim á flokksbása eða hægri-vinstri. Og mér finnst miklu meiri frjálslyndisblær af því sem ég hef lesið frá honum um þjóðfélagsmál – djúpt vantraust á hlutverk ríkissins í að “búa til störf” — en til dæmis í málflutningin núverandi forseta.

Hvernig sem kosningarnar fara, grunar mig að það eigi eftir að þykja ákaflega einkennilegt að málflutningur Andra Snæs sé á nokkurn hátt “öfgakenndur” – ekki síst í umhverfismálum — eftir nokkra áratugi þegar litið er til baka. Ég held að hann sé fyrst og fremst nútímalegur og horfi fram á við, en sé ekki fastur í gömlum flokksbásunum og klisjum. Í sögunni heldur ég að sú sýn sem hann hefur á umhverfismálin, hljómi jafn “öfgakennd” í eyrum þeirra sem byggja landið í framtíðinni og atkvæðisréttur kvenna í dag – eða rétturinn til að drekka bjór.

Mér líst líka vel á þá sýn sem Andri hefur sett fram um að efla áherslu á leskunnáttu barna og ýmislegar frumlega hugmyndir sem hann hefur sett fram um aðkoma forsetans að menntamálum. Og ekki síst að hann er jákvæður fyrir því ferli sem hafið var með stjórnlagaþinginu með endurritun stjórnarskrár. Ég hef tekið eftir því að hann hefur ekki verið að reyna að setja neina töfralausn fram í því efni – sem ég held að sé ekki við hæfi því að Alþingi mun endalega taka ákvörðunina og svo þjóðin – heldur fyrst og fremst lagt áherslu á hversu jákvætt þetta ferli var, fallegt eins og hann orðar það,  og að við eigum að nýta það og leiða til lykta. Hann hefur verið talsmaður bjartsýnni sem er frískandi eftir endalaus rifrildi síðustu ára.

Loks finnst mér það ákaflega skemmtileg tilhugsun að söguþjóðin hafi í embætti rithöfund sem selt hefur bækur á ótal tungumálum, og leikrit hans sett upp um allan heim, og mann sem hefur áhuga á umhverfismálum. Það rímar fullkomlega við sjálfsmynd mína sem Íslendings. Ég held að með Andra Snæ sem forseta, svo skemmtilegur og orðkynginn sem hann er, verði það líklega í fyrsta skipti sem ég man eftir að maður á eftir að hlakka til að hlusta á ávörp forseta. Með því er ég ekki að gera lítið úr fyrrum forsetum, bara að segja að ávörp forseta eru tiltölulega fyrirsjáanleg, bæði á Íslandi og annars staðar í veröldinni. Mig grunar að Andri eigi eftir að vekja okkur til umhugsunar um hin ýmsu mál, sem okkur dytti ekki í hug að hugsa um að öðrum kosti.

Mig langaði bara að ljúka þessu með smá hvatningu til vina og vandamanna heima – og sérstaklega til minna mörgu vina sem telja sig hægra megin við miðju, ekki síst hagfræðinganna — nú þegar kosningabaráttan er að hefjast: Ekki setja fólk í bása. Hlustið vandlega á það sem fólkið segir í umræðunum. Ég held að sú mynd sem margir hafi búið sér til af Andra Snæ, til dæmis, sé ákaflega ófullkomin, og beinlínis villandi. Ég sé að yngra fólkið sem er ekki jafn upptekið af því að troða fólk í kassa eða flokka er að fatta plottið. En er ekki viss um þá sem eldri eru.

PS

Ég verð að játa að ég eiginlega hef mig varla í það að tala um framboð Davíðs Oddssonar. En hjá því er ekki komist, hann er fíllinn í herberginu. Ég held að hann yrði ekki góður forseti fyrir okkar tíma. Það versta við framboð hans er, að minni hyggju, að mér sýnist það vísa nánast algerlega til fortíðar, og mig grunar að hans embættistíð muni markast af sama galla. Þetta sést best á þeim fjölmörgu stuðningsgreinum sem um hann fjalla á síðustu dögum. Engin þeirra snýst um framtíðina. Þær snúast um borgarstjóratíð Davíðs, að Davíð hafi sannarlega ekki gert neitt rangt í einkavæðingu bankana, atvinnuleysi hafi verið lágt þegar Davíð var forsætisráðherra, verðbólga lág, osfrv. Erfitt er að sjá hvað þetta kemur framtíð forsetaembættisins við eða Íslands.

Og sumar greinarnar eru svör við gagnrýni sem Davíð fékk á sig í Seðlabankanum þegar bankinn tapaði hundruðum milljarða í veðlánaviðskiptum, kom upp fastgengisstefnu í einn dag og hætti svo við, lýsti yfir stórláni frá Pútín sem aldrei var til, lánaða gjaldeyrisforða þjóðarinnar án haldbærra veða, að ekki sé minnst á hið fræga Kastljós viðtal í upphafi hruns. Þar var Davíð eins og maður sem stendur upp í miðju leikhúsi og kallar eldur eldur!! Þetta er auðvitað ekki sérlega góð strategía þegar kviknar í leikhúsi, því þá panikara allir og troðast undir á leið að útganginum.

Næstu daga, eftir viðtalið fræga, voru fluttar fréttir af viðtalinu í öllum heimsfjölmiðlum, eins og til dæmis New York Times og Wall Street Journal (sem þýddi líka allt viðtalið við Davíð og birti á vefsíðu sinni). Það er óhætt að segja að viðtalið hafi verið heimshneyksli í fjármálaheiminum, og í kjölfarið var Davíð útnefndur af Time Magazine sem einn þeirra 25 í heiminum sem mesta ábyrgð báru á heimskreppunni, og einnig fékk Davíð Ig Nóbelsverðlaun Harvard háskóla fyrir efnahagslega óstjórn og að hafa ollið gjaldþroti Íslands.

Kastljós viðtalið á sínum tíma var túlkað, hvort sem það var sanngjörn túlkun eða ekki, sem yfirlýsing um að íslenska ríkið myndi ekki standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Sú túlkun kom til fyrst og fremst vegna kauðalegs orðalags Davíðs, sem hélt að hann væri bara í huggulegu spjalli við landsmenn. En nú var heimurinn að horfa. Þetta var túlkað sem nokkurs konar alþjóðleg yfirlýsing um þjóðhagslegt gjaldþrot. Strax næsta dag settu bresk stjórnvöld hryðjuverkalög á Ísland, bankaáhlaup varð á Kaupþing, og mörg erlend fyrirtæki og fjármálastofnanir hættu öllum viðskiptum við Íslendinga. Þetta markaði auðvitað líka upphafið af Icesave deilunni.

Það er óneitanlega kyndugt – eftir frammistöðu Davíðs í hruninu – að hans helstu rök fyrir framboði séu að það sé mikilvægt að vera með reyndan mann í embættinu til að gegna hlutverki “slökkviliðsstjóra”!

Sumt af þeirri gagnrýni sem Davíð hefur fengið á sig í gegnum árin, bæði heima og erlendis, er auðvitað mjög ósanngjörn. Seint verður alþjóðlegt bankahrun skrifað á reiking Davíðs Oddssonar einan manna. Hægt er svo að rökræða um einstaka þætti endalaust, fram og til baka, til dæmis væri hægt að setja upp langar rökræður um umrætt Kastjósviðtal og gildi þess í hinu stóra samhengi, og að erlend stórblöð hafi rangtúlkað málfutning hans á þeim tíma osfrv. osfrv, og að Time og Harvard séu ósanngjarnir í sínum dómum, kannski janfnvel á vegum spunadeildar Samfylkinnar. En mikið óskaplega finnst manni það leiðileg tilhugsun ef að forsetakosningunum er eytt í eitthverjar deilur um túlkun á stjórnmálasögu síðustu 30 ára, byggingu Perlunnar, einkavæðingu bankanna, hrunið, Icesave, ECB, et etc – og hvort örugglega allt sem Davíð Oddsson hafi gert einhver tíma sé ekki örugglega alveg meiriháttar.

Í staðinn vona ég að umræðan horfi fram á við en ekki afturábak og hvað sé hægt að gera næst til að bæta samfélagið. Við ættum að láta sagfræðingum framtíðarinnar og Morgunblaðinu í dag um að deila um söguna og reyna endurskrifa hana í sífellu. Endurskrifun hennar á ekki að vera inntak kosningabaráttu forsetakosninga á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur