Þriðjudagur 31.05.2016 - 11:25 - FB ummæli ()

Davíð, hefur þú enga sómakennd?

Var að horfa á kappræður Davíðs og Guðna Th. á netinu í gærkvöldi. Pólitísk eftirmæli Davíðs Oddssonar verða líklega spurning Guðna Th. til hans: „Davíð, hefur þú enga sómakennd?“ Davíð var auðvitað fyrir löngu búinn að svara spurningunni sjálfur með örvæntingafullum tilraunum til að flækja Guðna Th. — grandvarann, heiðalegan, hófstilltan fræðimann ofan úr Háskóla Ísland– einhvern veginn inn í Icesave á grundvelli setninga sem voru slitnar úr samhengi í viðtali við Grapewine 2009(!) (þar sem Guðni kallaði icesave samningana meðal annars Versalasamninga en þeir sem einhverja sagnfræðiþekkingu hafa, vita að þeir samningar voru taldir afar ósanngjarnir og leiddu að öllum líkindum til seinni heimstyrjaldarinnar!), bullaði eitthvað um að Guðni Th. hefði sagt eitthvað sem væri hægt að túlka sem neikvætt um Ólaf Jóhannesson fyrrum formann Framsóknarflokksins í einhverju sagnfræðierindi á Neskaupstað fyrir mörgum árum um þorskastríðið (!), og svo reynt að slíta úr samhengi einhver ummæli sem Guðni lét falla um stjórnarskrá Íslands. Óskaplega var eftirtekja rannsóknarvinnu Davíðs og vina hans gegn Guðna Th. eitthvað rýr. Ég beið bara eftir því að Davíð tefldi fram óhrekjanlegri sönnun þess að Guðni væri vondur við köttinn sinn. Hægt væri að sjá það á youtube. Þvílík örvænting. Þvílík tragikómedía.

Í morgun blasir svo við einhver furðufrétt í Morgunblaðinu — sem enn er skrifað á ábyrgð Davíð Oddssonar samkvæmt blaðhausnum — þar sem snúið er út úr orðum Guðna í einhverjum sagfræðifyrirlestri fyrir námsmenn í háskólanum á Bifröst fyrir þremur árum! Mikið óskaplega þykir manni lágt seilst í sjálfum forsetakosningunum Íslendinga. Ég get vart ímyndað mér hvað kæmi uppúr handraðanum ef fólk færi að fínkemba þá hundruðir fyrirlestra sem ég hef haldið fyrir nemendur sem ég hef kennt í Brown, Princeton, Yale og Columbia síðustu 17 árin. En svo sannarlega yrðir það eitthvað töluvert safaríkara en að tala í gamansömum tón við nemendur um að almenningur væru „fávís“ um einhver tiltekin atriði (raunar hef ég eytt allnokkrum tíma á undanförnum árum í að tala um að Seðlabankastjóri Íslands hafi verið ákaflega fávís um grundvallaratriði í rekstri seðlabanka í aðdraganda hrunsins er olli hundruð milljarða króna gjaldþroti bankans sem lenti á almenningi).

Ef þessi atlaga að Guðna Th. er það safaríkasta sem þetta ógæfufólk í kringum Davíð Oddsson finnur (og ég skil raunar ekki afhverju fólki sem er annt um orðspor Davíðs hefur att honum útí þetta framboð) eftir mikla lúsarleit í ritum og ræðum Guðna Th, lofar það nú ekki góðu fyrir framboð Davíðs Oddssonar.

En verst er að þessu fólki tekst að draga forsetakosningar sem eiga að snúa um framtíðina og sýn fólks á land og þjóð í hinu stóra samhengi niður í eitthvert furðulegt karp og orðhengilshátt um þorskastríð, icesave, Evrópusambandið, og guð má vita hvað kemur næst. Gunnar Smári stingur upp á því í athugasemdum á fésbókarsíðu minni sem birtir hluta þessara hugleiðinga að ofan að eflaust verði næsta spurningin hvort Íslendingar hefðu yfir höfuð yfirgefið Noreg ef Guðni Th. hefði verið forseti 874.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur