Sunnudagur 05.06.2016 - 17:24 - FB ummæli ()

30 viðtöl Davíðs Oddssonar við sjálfan sig

Þegar ég var táningur að skríða upp í tvítugt vann ég á dagblaði, sumarið 1994, sem hét Eintak. Líklega muna fáir eftir því, en þar vann margt eðal fólk eins og til dæmis Andrés Magnússon, Gunnar Smári Egilsson, Jón Kaldal, Björn Malquist, Gerður Kristný , Egill Helgason, Glúmur Baldvinsson, Björn Ingi Hrafnsson, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, Jón Óskar, svo fáeinir séu nefndir og ótal margir aðrir snillingar og lífskúnsnerar.

Eitt sem ég man frá þeim tíma – því að ég var aðallega að reportera um pólitík – var að það var bara einn stjórnmálamaður á Íslandi sem ekki var hægt að ná í viðtal. Það var Davíð Oddsson. Á sama tíma gat maður beinlínis flett upp í símaskránni og hringt heim til allra hinna. Ekki man ég afhverju var svona erfitt var að ná í Davíð. Líklega hafði einhver skrifað eitthvað í Eintak sem ekki var í samræmi við hreintrú hirðarinnar sem safnaðist hafði í kringum Davíð og blaðið því komist í hina frægu svörtu bók sem svo var kölluð – sem hélt saman lista yfir fólkið í vonda liðinu á Íslandi (hvort sú bók hafi verið til eða ekki ætla ég ekki að segja til um, en það kannski lýsti dálítið skrítinni stemmingu að fólk hélt að hún væri til!).

En þetta kom upp í hugann þegar ég sá á netinu að nú hefði loksins einhverjum tekist að ná viðtali við Davíð þar sem hann loksins svarar spurningum sem ekki hefur tekist að fá svör við í langan tíma.

Um er að ræða 30 spurningar. Og spyrjandinn, að sjálfsögðu, er Davíð sjálfur. Sjá hér. Davíð að tala við sjálfan sig. Af einhverjum ástæðum sýnist mér þessi stórmerkilegu viðtöl hafa farið framhjá flestum.

Að mörgu leiti held ég að þetta sé stórfróðleg sagnfræðiheimild um Ísland eins og það var. Davíð var auðvitað fyrirferðamestur íslenskra stjórnmálamanna á seinni hluta 20. aldarinnar og svör hans lýsa því vel hvernig mönnum fannst þeir geta svarað spurningum fyrir tíma netsins. Mér sýnist nefninlega Davíð hér, svo pent sé til orða tekið, nánast bulla út í eitt.

Ekki gafst mér tími til að hlusta á öll viðtöl Davíðs, þetta nær bara til sex þeirra þar sem mér þóttu fyrirsagnirnar sérlega hnýsilegar. Og mér sýnist raunar að það séu heldur fáir í þeim hópi sem skoðað hafa allt heila klabbið. Vegna þess að youtube er með teljara er hægt að draga þá ályktun að í mesta lagi hafi um 100 kjósendur á Íslandi hafi skoðað allan afraksturinn, þegar þetta er skrifað, og sýnist mér þó að þetta efni hafi verið aðgengilegt í næstum viku. Vonandi verður þessi færsla til að auka vinsældirnar og á þá áreyðanlega margt fleira athyglivert eftir að koma í ljós.

Hér að neðan eru þau sex viðtöl sem ég stóðst ekki mátið og skoðaði, kannski gefst mér tími til að skoða afganginn seinna og segi kannski frá því, þó ég lofi engu í því efni. Ég fyrst tek saman hvað Davíð spyr og svo reyni ég að taka saman í stuttu máli hverju hann svarar – ég geri það með eigin orðum. Ekki þarf mín orð til, ég hvet lesendur til að smella á linkinn sem ég birti með þar sem Davíð sjálfur talar, þannig að fólk geti dæmt um það sjálft hvort þetta sé raunsönn samantekt hjá mér eða ekki. Þetta er slegið inn á handahlaupum, þannig að kannski hef ég misst af einhverjum fínni blæbrigðum svaranna. Sannleikurinn er auðvitað miklu skemmtilegri og furðulegri en skáldskapur þegar saga Íslands í kringum hrunið er skoðuð og því er engin ástæða til að slíta hlutina úr samhengi.

Eftir samantektina á spurningu og svari Davíðs veiti ég smá viðbótarskýringar og hlekki við fréttagreinar þar sem greint er frá tilteknum staðreyndum. Svo gruflaði ég líka dálítið í tölvunni minni til að skoða það sem ég hafði sjálfur skrifað um þessi mál og tengi við glefsur úr því.

Heimildir fréttamiðla, og það sem ég sjálfur punktaði niður á sínum tíma, rímar svo ekki sé meira sagt óskaplega illa við það sem Davíð er að segja í þessum viðtölum. Ekki þarf annað til en google leitarvél, og nokkra mínútna grúsk til að ganga úr skugga um það. Skemmtilegt væri að fá fleiri ábendingar í athugasemdum, ekki síst um þær spurningar sem ég hef ekki haft tíma til að skoða.

Davíð spyr: Settir þú Seðlabankann hausinn?

Davíð svarar: Nei Seðlabankinn fór aldrei á hausinn. Það eru bara einhverjir strákar sem eru að halda því fram gegn betri vitund aftur og aftur – strákar eru bara strákar — í þeirri von að einhver trúi þessari vitleysu.

Staðreynd: Það er óumdeilt að Seðlabanki Íslands tapaði hundruðum milljarða á svokölluðum ástarbréfarviðskiptum – oft er talað um 300 milljarða í því samhengi og tæknilegt gjaldþrot bankans (ég hef sjálfur ekki lagt sjálfstætt mat á upphæðir). Í ástarbréfaviðskiptunum fólst að íslensku bankarnir gáfu út bankabréf, seldu hvors til annars, og notuðu sem veð í Seðlabankanum. Og gerðu þetta aftur og aftur og aftur svo nam um 30 prósentum af þjóðarframleiðslu. Þannig gátu þeir í raun prentað pening fyrir sjálfan sig án nokkurra takmarka. Í flokki strákavitleysinga sem hafa staðfest þetta, gagnrýnt harðlega, og lagt mat á kosnaðinn við gjaldþrotið eru: (i) Rannsóknarnefnd Alþingis (sjá hér), (ii) Efnahags- of Framfarstofnunin — OECD (sjá t.d. hér), Ríkisendurskoðandi (sjá hér) og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn — IMF (sjá hér). Eru þá ótaldir ýmsir minni spámenn og strákvitleysingar sem um þetta hafa fjallað í ræðu og riti, líkt og ég sjálfur eða Jón Steinsson, hagfræðiprófessor við Columbia háskóla. Ég gróf til dæmis upp úr tölvunni minni litla bloggfærslu um þegar íslensku bankarnir reyndu sama leikinn erlendis gagnvart Evrópska Seðlabankanum (ECB), en þá var tekið hart í taumana af ECB (sjá ECB og hrunið úr gamalli bloggfærslu) og hótað að loka íslensku bönkunum ef raunveruleg veð kæmu ekki í stað ástarbréfanna. Allt er þetta hluti af íslenskri stjórnmálasögu sem hver sem er getur flett upp á netinu.

Davíð spyr: Felldi Rannóknarnefnd Alþingis áfellisdóm yfir þér?

Davið svarar: Nei. Hún benti bara á einhverja smámuni.

Staðreynd: Rannsóknarskýrsla Alþingis var stór áfellisdómur yfir Seðlabanka Íslands undir stjórn Davíðs Oddssonar. Hún er öllum aðgengileg á netinu, og einfalt að slá inn Davíð Oddsson og staðfesta það, sjá hér, ekki síst umrædd veðlánaviðskipti, svo ekki sé talað um þar sem komið er inn á einkavæðingu bankanna. Það er ágætis samantekt úr Fréttablaðinu í apríl 2010, sjá hér. Í þessum tengli (Glefsur úr Rannsóknarskýrlu Alþingis er varða veðlánaviðskipti) eru nokkrir punktar Rannsóknarskýrslunni sem ég punktaði hjá mér þegar ég skoðaði skýrsluna á sínum tíma. Almennileg lesning myndu auðvitað velta upp fleiri steinum — meðal annars eru færð rök fyrir því í meginniðurstöðunum nefndarinnar að veðlánaviðskiptin hafi farið á svig við lög. „Enda þótt Seðlabankinn gerði sér grein fyrir veikleikum bankanna veitti hann engu að síður umfangsmikil veðlán gegn tryggingum í verðbréfum bankanna. Sú vitneskja fær illa samrýmst áskilnaði fyrrnefnds lagaákvæðis um gildar tryggingar.“

Davíð spyr: Tapaðir þú gjaldeyrisvaraforðanum sem seðlabankastjóri?

Davíð svarar: Nei, ég lánaði að vísu Kaupþingi pening en ég fékk sem veð fyrir þennan pening danskan banka FIH sem var metinn var á margföldu virði lánsins. Það er núverandi stjórn seðlabankans að kenna að ekki fékkst rétt verð fyrir bankann FIH og “allt er þetta afskaplega sérstakt”.

Staðreynd: Davíð lánaði allan nettó gjaldeyrisforða þjóðarinnar til Kaupþings daginn sem að Geir Haarde flutti “Guð blessi Ísland” ræðuna. Fyrir því virðist ekki hafa verið heimild í lögum á þeim tíma að því er ég best get séð. Upp úr þessu spruttu dómsmál við slitastjórn Kaupþings. Fyrir rest töpuðu íslenskir skattgreiðendur 35 milljörðum vegna þess að lánsveðin voru ekki nægjanlega sterk. Sjá ágæta umfjöllun Kjarnans um atburðarrásina hér.

Davíð spyr: Af hverju varstu á lista TIME yfir hrunvalda?

Davíð svarar: Þessi listi er ákaflega sérstakur, einhver listi sem skrifaður var í bríaríi. Þeir eru dálítið sérstakir þessi listar þarna á Time. Til dæmis var því haldið fram að Jóhanna Sigurðardóttir væri ein 25 valdamesta kona heims, þegar hún gat varla stjórnað Samfylkingunni. Svo settu þessir listamenn á Time líklega met þegar þeir gerðu Hitler að manni ársins 1936.

Staðreynd: Nánast allt sem kemur fram í svarinu er rangt. Illugi Jökulsson fer ágætlega yfir nokkrar staðreyndarvillur hérna, enginn ástæða til að endurtaka hér.

Davíð spyr: Lánaðir þú sem seðlabankastjóri 75 milljarða til Kaupþings sem töpuðust að hluta?

Davíð svarar: Já en ríkisstjórnin sagði okkur að gera það. Og svo tókum mjög gott veð. Svo töluðum við líka við danska seðlabankann og danska fjármálaeftirlitið sem sagði að þetta veð væri mjög gott. Og í danskri ríkisábyrgð. Að auki var þetta veð svona tvisvar eða þrisvar sinnum verðmætara en lánið. Illa var hins vegar staðið að koma því í verð, því að þá var ég ekki lengur seðlabankastjóri.

Staðreynd: Milljarðar töpuðust. Ég er ekki viss um að maður þurfi að bæta neinu við umfjöllun Kjarnans um atburðarrásina hér. Var tap uppá tugi milljaðar öllum öðrum að kenna en Davíð sem veitt lánið og átti að tryggja gott veð?

Davíð spyr: Hrósaðir þú bönkunum fyrir hrun?

Davið svarar: Ég varaði við hættu á vaxandi skuldasöfnun bankanna. En enginn vildi hlusta.

Staðreynd: Um þetta mætti auðvitað tala í löngu máli. Davíð var náttúrulega sá sem einkavæddi bankana, og var svo í því hlutverki að tryggja fjármálastöðugleika sem Seðlabankastjóri en fórst það ekki sérlega vel úr hendi. En hérna er sosum eitt áhugavert viðtal þar sem Davíð gafst tækifæri til að vara við bönkunum rétt fyrir hrun.

Það er ákaflega athyglivert fyrir íslenska samtímasögu að skoða hverju Davíð spyr sjálfan sig sem kemur inná eina mestu umbrotatíma Íslandssögunnar. Þetta eru 30 viðtöl, og þetta er bara nokkur dæmi, ekki hef ég skoðað allt, ég sé að líka er eitthvað talað um einkavæðingu bankanna, en allt það ferli var með nokkrum fádæmum, og stendur víst til að rannsaka eftir að nýjar upplýsingar hafa komið fram um að þýskur banki hafi verið notaður sem leppur tiltekinna kaupenda.

Eftir dálitla skoðun sem svo sannarlega gæti verið ítarlegri veltir maður eiginlega fyrir sér: Er enginn í kringum framboð Davíðs sem segir honum hvort það sem hann segir sé að minnsta kosti í einhverju lágmarks samhengi við raunveruleikann?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur