Þriðjudagur 07.06.2016 - 13:45 - FB ummæli ()

Svar til Birgis Þórs og nokkrir minnispunktar um fund

Mér sýnist að mörgu leiti það vera að gerast sem ég spáði þegar Davíð fór í framboð. Að framboð Davíðs myndi að mestu snúast um fortíðina en ekki framtíðina. Það er óneitanlega óheppilegt að umræður um forsetakosningar — sem eiga að snúa að því hvernig land við viljum byggja — snúist þess í stað um þorskastríðið, Rannsóknarskýrslu Alþingis, Icesave, einkavæðingu bankanna osfrv. Ég benti í síðustu færslu á 30 viðtöl Davíðs við sjálfan sig. Þau eru einmitt flest öll um fortíðina og tilraunir Davíðs til að endurskrifa söguna.

Í kjölfar þessarar litlu færslu minnar dúkkar upp Birgir Þór Runólfsson, dósent upp í háskóla Íslands í hagfræði og minn fyrrum lærifaðir — prýðismaður  og stórskemmtilegur kennari —  og virðist vera að reyna að endurskrifa söguna þannig að Rannsóknarskýrsla Alþingis sé ekki alvarlegur áfellisdómur yfir feril Davíðs Oddssonar sem seðlabankastjóri, heldur þvert á móti! Sú endurskrift sögunnar er þungur róður, svo ekki sé meira sagt, skýrslan er opin almenningi og hver sem er getur rennt í gegnum hana hér, sjá til dæmis ágæta samantekt Fréttablaðsins á sínum tíma hér fyrir þá sem orka ekki að fara í gegnum þetta enn og aftur.

——

Varúð, lesandi góður, óþarfi að lesa lengra, hagfræðileiðindi taka nú við. Hér er ég bara að halda til haga fyrir sjálfan mig nokkrum punktum er varða hrunið og þá 15 sekúntna frægð sem mér sýnist mér hafa tekist að næla mér í þegar ég millilendi á Íslandi á leiðinni til Bandaríkjanna frá ráðstefnu í Finnlandi í ágúst 2008. Þá var ég nefnilega fenginn á fund.

Það er eitt áhugavert við færslu Birgis Þórs frá mínum sjónarhóli sem ég gerði mér ekki glögglega grein fyrir. Hann bendir á fund sem ég átti 2008 með stjórnvöldum. Hann nefnir að sá fundur hafi meira að segja ratað inn í réttarhöldin yfir Geir Haarde (sjá bls 92 hér). Ég þakka Birgi Þór fyrir að benda mér á þetta. Þessi fundur var afar fróðlegur en hann sótti auk fjölda ráðherra, Már Guðmundsson, Friðrik Már Baldusson og svo ég sjálfur. Ég var aldrei boður til skýrslutöku um þennan fund en tókst þó að grúska í eigin gögnum og fann nokkra minnispunkta. Kannski þeir varpa einhverju ljósi á hvers vegna ég hef gengið tiltölulega hart from í gagnrýni á veðlánaviðskipti Seðlabanka Íslands í hruninu.

Samkvæmt mínum minnispunktum var eitt af þeim efnum sem ég fjallaði um nefnilega hvernig við höguðum lánveitingum til fjármálakerfisins hjá Seðlabanka Bandaríkjanna með svokölluðum „special liquidity facilities“ meðal annars í gegnum svokallað „Term Securities Lending Facility“. Ég velti því upp með hvaða hætti slíkt væri hægt að gera á Íslandi, þótt ég hefði tekið það skýrt fram að ég gæti ekki mælt með slíku á þessu stigi málsins á Íslandi. Fyrir því hefði ég engar forsendur því að ég þekkti ekki eignasafn íslensku bankana.

Á þessum tíma starfaði ég sem ráðgjafi hjá Seðlabanka Bandaríkjanna og þekkti ágætlega til mála. Ef hjálpa ætti bönkunum með einhverjum hætti á Íslandi væri ekki sama hvernig það væri gert og benti ég fólki á að skoða þær leiðir sem við höfðum farið hérna í Bandaríkjunum á þeim tíma. Ég bauð svo fram aðstoð til að kynna þær leiðir frekar. Í kjölfar fundarins reyndi ég svo að koma á fundi milli Geirs Haarde og varaforseta Seðlabankans í NY. Sá fundur fór fram síðar það haust líkt og fram kemur í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Íslensk stjórvöld höfðu hins vegar ekki mikinn áhuga á að kynna sér þessar leiðir en meiri áhuga á að liðka fyrir um lán í erlendum gjaldeyri, þar sem þeir komu að lokuðum dyrum líkt og fram hefur komið.

En hvernig var þessari aðstoð við bankana háttað hér í Bandaríkjunum sem ég fjallaði um á þessum fundi? Lykilskilyrði þess að veita fé inn í fjármálageirann hér í Bandaríkjunum var alltaf að trygg veð væru gegn þeim lánum sem veitt voru, þannig að seðlabankinn sæti uppi með verðmætar eignir ef allt færi á versta veg. Þannig reyndi bankinn yfirleitt að sjá það fyrir hvert virði eigna hans yrði, ef allt hryndi, og tók ég þátt í nokkrum slíkum útreikningum. Auðvitað var og er ekki hægt að útiloka eitthvert tap á einhverjum tímapunkti, en aðalatriðið var að reyna að lágmarka hugsanlegt tjón. Þannig var það til dæmis að þótt verulegu fé hafi verið veitt í bankakerfið hér í Bandaríkjunum, hefur þegar allt hefur komið til alls verið verulegur hagnaður af þeirra aðstoð, þótt fjölmargir bankar hafi farið á hausinn (þótt hagnaður hafi raunar aldrei verið markmið í sjálfu sér). Enda voru veðin sem tekin voru gegn lántökum góð.

Því miður var ekkert slíkt gert í Seðlabanka Íslandis. Lánað var með litlum eða engum veðum (svokölluð ástarbréfarviðskipi), og niðurstaðan var tap Seðlabankans uppá hundruðir milljarða króna, eins og staðfest hefur verið meðal annars í Rannsóknarskýrslu Alþingis (sjá hér), OECD (sjá hér), Ríkisendurskoðanda (sjá hér), osfrv. Þetta höfum ég og margir aðrir hagfræðingar gagnrýnt  því þetta stríddi gegn öllum góðum vinnureglum sem eiga að vera til staðar í seðlabönkum, og var auðvitað í engu samræmi við þær leiðir sem farnar voru hér í Bandaríkjunum og ég fjallaði um á þessum fundi.

Lykilatriðið er því þetta: Aðalgagnrýnin á Seðlabanka Íslands í hruninu hefur yfirleitt ekki verið að hann lánaði bönkum. Það er hlutverk seðlabanka. Gagnrýnin snýr að því hvernig hann gerði það.

Það er því alveg rétt að ég, líkt og ég hygg nánast allir peningahagfræðingar í veröldinni, er þeirra skoðunar að það sé mikilvægt að seðlabankar “standi við bakið á bönkunum”. Það er lögbundið hlutverk seðlabanka. En það er fáránlegt að halda því fram að það viðhorf feli í sér að seðlabankinn eigi að fara á hausinn í þeim leiðangri, til þess er nú einmitt allar vinnureglur seðlabanka settar saman, meðal annars fyrirbæri á borð við ´Term Security Lending Facility´ sem ég fjallaði um á þessum fundi.

Seinna skrifaði ég raunar grein um aðgerðir bandaríska seðlabankans og þær aðgerðir sem hann fór í, sjá hér.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur