Fimmtudagur 30.06.2016 - 00:38 - FB ummæli ()

Ættarmót í Nice og hugmynd að nýjum íslenskum samkvæmisleik

Ég setti inn færsluna hérna að neðan inná fésbókina rétt áðan eftir að koma frá Frakklandi að horfa á hinn sögufræga leik við England, og fékk nokkur skemmtileg viðbrögð, þar á meðal góða hugmynd um nýjan samkvæmisleik íslenskan, sjá neðst á síðunni hérna:

Smá saga úr USA og Frakklandi sem tengist íslenskum fótbolta eins og allt annað þessa dagana: Ég kippti strákunum mínum úr skólanum fyrir lok skóladags vegna leiksins við Austurríki um daginn. Þetta þótti náttúrulega dálítið óvenjulegt hérna í New York þannig að ég sagði barnsfóstruninni sem fór með þeim í skólann að segja bara kennurunum, að aðstæður væru afar sérstakar um þessar mundir á heimili drengjanna, vegna þess að nú væri stórmót í Evrópu og frændi þeirra spilaði í íslenska landsliðinu. Þegar ég náði ég í strákana snemma úr skólanum var ég náttúrulega spurður strax af kennurunum, sem voru fullir efastemda: Í alvörunni? Er frændi Gunnars og Óskars að spila á EM? This is HUUUUUGEEEEE? Allir krakkarnir voru líka gífurlega spenntir, greinilegt að þetta hafði verið aðal umræða dagsins í skólanum. Hvað heitir hann? Hver er frændinn????

Það hvarflaði að mér í sekúntubrot að segja sem satt var: Allt liðið eru frændur Gunnar og Óskars. Ég hafði satt að segja ekki hugmynd um hvort eða hvernig ég væri skyldur neinum leikmönnum, nema auðvitað vissi ég að ég væri skyldur þeim öllum, bara spurning hversu langt ég þyrfti að fara. Fannst þetta bara hljóma eins og góð afsökun að taka börnin úr skólanum of snemma, sem ekki tíðkast hérna í New York af svona tilefnum. En vegna þess að ef ég hefði sagt að þeir væru allir frændur mínir, hefði það hljómað eins og fáránleg lygi, sagði ég bara það nafn sem fyrst kom upp í hugann: Eiður Smári Guðjónsen!!

Þegar heim var komið voru drengirnir mjög spenntir yfir þessum risa-stóru tíðindum. Er Eiður Smári frændi okkar??!!!! Snillingurinn sjálfur?!!!! Í alvöru!! Þeir byrjuðu samt fljótlega að fyllast efasemda þegar ég gat ekki útskýrt fyrir þeim hvernig Eiður Smári er frændi þeirra, enda hafði ég ekki hugmynd um hvort eða hvernig við værum skyldir, nema ég vissi að það væri örugglega ekki erfitt að finna skyldleika. Að lokum var ég orðinn þreyttur á þessu masi drengjanna, enda trúverðugleiki minn gagnvart strákunum í húfi og farið að votta fyrir sárum vonbrigðum á andliti þeirra (þeir sáu frammá að þurfa að útskýra málið í skólanum daginn eftir fyrir vinum sínum), þannig að ég kveikti á tölvunni og fór inn á Íslendingabók.

Nú kemur í ljós — sem ég hafði ekki hugmynd um — að ég og Arnór pabbi Eiðs erum að sjálfsögðu fimmmenningar. Sumsé Amma mín — Ragnheiður — og amma Arnórs — sem líka hét Ragnheiður — áttu sömu langömmu. Sem líka hét Ragnheiður. Hefur þetta nafn verið afar vinsælt í minni fjölskyldu æ síðan, svo það hljóta að hafa verið töggur í Ragnheiði Pálsdóttur sem fædd var 1820 og dó 1905. Meðal annars heitir elsta barn Dags bróður míns Ragnheiður.

Mér til skemmtunar, fletti ég svo uppá öðrum leikmönnum í íslenska liðinu. Það eru engir náfrændur mínir í liðinu sem við svo myndum kalla upp á Íslandi, en mér sýnist að skyldleikinn hlaupi frá 5. til 9. ættliðs eða svo, þannig að yngstu sameiginlegu forfeðurnir okkar eru fæddir ekki löngu eftir 1800 líkt og Ragnheiður og deyja uppúr aldarmótunum 1900, og þegar kemur að þeim elstu (í tilfelli Birkis Bjarnarsonar sem er frændi í 9. ættlið) þarf maður að fara aftur til 1654/1672 til að finna sameiginlegan ættföður/móður.

En yfirleitt eru leikmennirnir frændur í kringum 6. til 7. ættlið eða svo að mér sýnist, t.d. er ég frændi móður Aron Gunnarssonar fyrirliða í 6. ættlið. Sameiginlegur forfaðir okkar er Árni Árnason 1786-1873 og sameiginleg ættmóðir okkar kona hans Sesselja Jónsdóttir 1786-1840.

Þetta kom uppí hugann vegna þess að ég var að lenda í New York eftir að hafa horft á England-Ísland í Frakklandi. Stemmingin í borginni, á stuðningsmannasvæðinu fyrir leikinn, og ég tala ekki um á leiknum sjálfum var ógleymanleg. Þvílíkt rafmagn í andrúmsloftinu á leikvanginum! Allir æpandi og öskrandi af öllum lífsins sálarkrafti. Og það sem var dálítið óvenjulegt miðað við þessi dæmigerðu stuðningsmannalið sem maður sér — sem eru oft fullir ungir háværir karlar — var að þetta voru ekki bara ungir karlar, heldur konur og börn, ungt fólk og gamalt, flest allt í íslenskum landsliðsbúningum og með stríðsmálningu í formi íslenska fánans á andlitinu. Og þessi fjölbreytti stuðningsmannaher — sem hlýtur að hafa verið margfalt minni en ensku bullurnar — gjörsamlega yfirgnæfði Englendinganna út allan leikinn. Ég er til dæmis algerlega búinn að missa röddina núna og held að það sé þannig með alla þá Íslendinga sem þarna voru. Stemmingin var dálítið eins og blanda af þjóðhátíð og ættarmóti. Sem var kannski ekki tilviljun, enda allir frændur og frænkur — liðið allt frændur hvers annars, að minni ágiskun frá um það bil frá 3. eða 4. ættliðs til 9. eða 10. eða svo — og stuðningsmennirnir allir frændur og frænkur allt frá börnum leikmanna, bræðrum og systrum, mæðrum og feðrum, ömmum og öfum og svo auðvitað góðri stöppu af frænkum og frændum ekki mikið fjær í tilfelli hvers leikmanns en 9.-10. ættliðs liðs eða svo….

 

PS. Ein af fyrstu viðbrögðin þegar ég setti þessa færslu á fésbókina voru frá konu Dags bróður míns: “Er Eiður Smári ekki örugglega skyldur þér í föðurætt Arnórs Guðjónsen? Annars erum við í vondum málum!” Jú, það er rétt, svaraði ég, við eru skyldir í gegnum föður Arnórs — Eið Guðjónsen. Kemur í ljós að Arna Einarsdóttir — kona Dags og móðir fjögurra barna þeirra — og Arnór eru þremenningar — en í gegnum móður Arnórs!

PS.PS. Skólafélagi minn úr MR, Finnur Breki, stingur uppá skemmtilegum samkvæmisleik sem gengur út á að finna út hverjum þú ert skyldastur í landsliðinu, sem er auðvelt í gegnum Íslendingabók og wikipedia. Mig langar að stinga uppá smá varíasjón á þessum samkvæmisleik. Í vísindaheiminum er til svokallað Erdos number, sem er hversu marga meðhöfunda þú þarf að fara í gegnum til þess að finna Paul Erdos, sem var Ungverskur stræðfræðingur sem átti aragrúa meðhöfunda. Ef maður er meðhöfundur Erdos, fær maður töluna 1, ef maður er meðhöfundur meðhöfundar 2, osfrv. Erdos sjálfur er 0 (einhvertíma reyndi ég að finna úr því hvað mitt Erdos númer var, mig minnir 5 eða 6 annað hvort í gegnum Paul Krugman eða Lawrence Summers). Svipaður leikur er “Degrees of Kevin Bacon” sem snýst um að finnan stystu tengingu við leikarann Kevin Bacon. Ég hlýt að vera í súper góðum málum í því efni því ég tók þátt í árshátíðaratriði með Hollywood stórstjörninni Ólafi Darra þegar ég var í MR! Ég er viss um að Bacon númerið mitt er því ótrúlega lágt og miklu lægra en Erdos númerið…

En hér er sumsé ein hugmynd: Hvert er landsliðsnúmerið þitt? Ef þú ert í landsliðinu færðu númer 0, ef bróðir þinn er í landsliðinu 1, ef einhver í landsliðinu er systkynabarn 3, osfrv. Og til að einfalda málið, legg ég til að þegar maður kíkir í Íslendingabók og reki sig saman við hvern leikmann, sé lægri talan valin af þeim sem upp koma í bókinni, það er, minni talan af þeim sem birtist fyrir framan þitt nafn eða nafn leikmannsins (því stundum ert þú eða leikmenn af mismunandi kynslóðum. Þannig er Gylfi Þór Sigðursson og pabbi minn frændur í sjöunda lið, svo tala sjö er fyrir framan nafn Gylfa – hann er af eldri kynslóð en ég miðað við sameiginlegan forföður/móður — en hins vegar er ég og Arnór Guðjónsen – pabbi Eiðs Smára — fimmmenningar, þannig að talan 5 er fyrir framan mitt nafn þegar ég rek mig saman við Eið). Við lauslega skoðun er landsliðsnúmer mitt 5. Ein tengingin er í gegnum Eið Smára en hin er í gegnum Elmar Bjarnason en ég og afi hans erum fimmenningar (það eru samkvæmt lauslegri athugun sumsé 2 af landsliðsmönnunum númer 5 í mínu tilfelli, mér sýnist 3 númer sex, sjö með númer 7, osfrv, fjarskyldastur er Birkir Bjarnason númer 9, sem voru konu minni stórfengleg vonbrigði sem finnst hann vera undurfríður). Mig grunar að flestir sem eru í Íslendingabók séu með landliðsnúmer 5 eða 6 en auðvitað margir með lægri tölu, en það kæmi mér á óvart ef einhver er með hærri tölu en 9. Kannski er sú lægsta 7? Við verðum að spyrja Kára Stefánsson um svarið við þeirri spurningu. En lesendur geta sjálfir tekið þátt í leiknum á Íslendingabók og gefir upp landsliðsnúmerið sitt í athugasemdum!

PS.PS.PS. Mér fannst tengingin við Eið Smára dálítið langsótt, en af öðrum skemmilegum athugasemdum á fésbókinni bendir föðursystir mín mér á að afi hennar og pabba míns, sumsé, afi Þorkell sem hún og pabbi þekktu vel og ég hef oft heyrt talað um, hafi einmitt alist upp hjá þessari sameiginlegu ættmóður okkar Eiðs Smára, Ragnheiði Pálsdóttur. Þannig að tengin er sosum ekkert voða voða langsótt. Amma mín sáluga Ragnheiður Hulda spurði alla vini mína “hverra manna ert þú” og tók svo til við að rekja ættir mínar saman við þá sem hún spurði, en hún var ættfróðasta manneskja sem ég hef hitt. Ólíkt Íslendingabók rakti hún mann saman við fólk oft á fleirri en einn hátt, enda tengingar víða. Hún hefði á augabragði rakið mig saman við Eið ef ég hefði spurt hana á sínum tíma, líkt og hún gerði þegar ég spurði um annað fólk, og líklega bætt við í þessu tilfelli: “Svona er heimurinn lítill!”. Líklega myndi ég svara í dag ef hún væri enn á lífi og eftir að hafa skoðað Íslendingabók: “Nei amma Heiða, svona er Ísland lítið!”

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur