Mánudagur 24.10.2016 - 11:03 - FB ummæli ()

Ný ríkisstjórn?

Ég hef verið svo upptekinn við að horfa á forsetakosningarnar hérna í Bandaríkjunum, að það hefur nánast farið framhjá mér að það séu Alþingiskosningar upp á Íslandi.

Að því sem ég best get séð er nú í kortunum að skipt verði um ríkisstjórn. Eflaust hafa margir skoðanir á því hver eigi að vera hennar helstu verkefni. Það sem kemur helst upp í hugann hjá mér er þetta, sem mér finnst auðvitað fyrst og fremst rök fyrir því að koma núverandi ríkisstjórn frá.

  1. Sala ríkiseigna. Ríkið á ennþá gífurlegt magn eigna, þó svo að núverandi ríkisstjórn sé að reyna að koma eins miklu og hægt er í verð rétt fyrir kosningar, af einhverjum ástæðum. Það er brýnt að búa svo um hnútana að sala ríkiseigna sem fram fer á næstu árum sé gerð með meira gagnsæum hætti en nú er. Að það sé tryggt, að einum sé ekki hyglt framyfir annan. Það er hægt að setja upp margskonar fyrirkomulag um þetta efni. Núverandi fyrirkomulag er ekki heppilegt, þar sem að stórum hluta eru það opinberir embætismenn — beinir undirmenn fjármálaráðherra — sem sjá um þetta. Ég myndi vilja sjá sjálfstæða stofnun sem stendur að þessu, með umræðum um hvernig best megi hámarka hag almennings af sölunni. Mikið óskaplega væri það þægileg tilhugsun ef að þeir sem að sölunni stæðu, væru ekki að selja venslafólki sínu þessar miklu eignir með ógagnsæum hætti, eins snúið og það nú er í þessu litla þjóðfélagi.
  2. Færeyska leiðin í sjávarútvegi. Frændur okkar Færeyingar hafa sýnt okkur að það er sáraeinfalt að bjóða út kvóta. En ekki hvað? Með því móti fer arðurinn af auðlindinni til þjóðarinnar, en endar ekki í Tortóla.
  3. Mér líst illa á þennan búvörusamning. Ráð væri að skera hann upp og standa betur að málum.

Yfir það heila sýndist mér síðasta ríkisstjórn reyna að koma stjórnsýslunni í fastari skorður, eða gera ferlana ´formlegri´, en þetta var jú einn helsti vandi íslenskrar stjórnsýslu fyrir hrun. Mér sýnist á flestu að núverandi ríkisstjórn hafi verið ansi dugleg við að koma hlutunum aftur í sama far og það var fyrir hrun, með því að staðfesta ekki siðareglur, osfrv. Því væri gott ef að ný ríkisstjórn tæki up þráðinn á ný.

Ég geri ráð fyrir að mikið sé talað um menntamál, heilbrigðismál, húsnæðismál, osfrv. Þetta eru auðvitað mikilvæg mál, en mig grunar að ekki sé stórkostlegur munur milli flokka, nema kannski einna helst að Sjálfstæðis og Framsóknarflokkur virðast sérstaklega áhugasamir um að lækka skatta á þá er mest hafa (samanber fyrsta verk þeirra í ríkisstjórn var að aflétta auðlegðarskatti og stórlækka veiðigjöld).

Þau mál sem að ofan eru týnd til, eru hins vegar aðeins á færi umbótastjórnar, án þeirra flokka sem nú mynda ríkisstjórn. Ég hef líka áhyggjur af því að Viðreisn, sem mér líst ágætlega á, sé of tengd ríkjandi hagsmunum (Sjálfstæðisflokki) til að geta fylgt málum á borð við Færeysku leiðinni eftir.

Af þeim flokkum sem nú sitja í stjórnarandstöðu sýnist mér Samfylkingin og Píratar hafa talað skýrast um þau forgansefni sem ég nefni að ofan, sérstaklega er varðar Færeysku leiðina í sjávarútvegi. Ég hef heyrt minna talað um yfirvofandi sölu ríkiseigna, t.d. bankanna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur