Þriðjudagur 19.09.2017 - 00:24 - FB ummæli ()

Hvenær er komið nóg?

Ég hef búið í Bandaríkjunum í 20 ár. Eftir því sem árin líða, finnst mér furðulegra og furðulegra að fylgjast með fréttum af Íslandi.

Um daginn, til dæmis, semsé fyrir um það bil ári, var blásið til kosninga. Þetta gerðist eftir að ég var búinn að sjá á forsíðum blaða hérna í útlandinu að forsætisráðherra Íslands væri í Panamaskjölunum vegna viðamikilla eigna sem skráðar voru í skattaskjólum. Þarna var hann við hlið einræðisherra og annars jafnvel minna félegs félagsskaps. Við tóku fjöldamótmæli á Íslandi og stjórnin hrökklaðist frá.

Svo komu kosningar. Mér sýndust þær að mestu snúast um “uppbyggingu í skólamálum, heilbrigðiskerfinu og þegar kemur að því að leiðrétta stöðu öryrkja og aldraðra og verst settu hópanna”. Nú er ekki svo á mér að skilja að þetta séu ekki mikilvæg mál. Það eru þau sannarlega. En mér fannst eins og íslensku stjórnmálafólki hafi fundist einfaldlega óþægilegt að tala um raunverulegar ástæður kosninganna, sem voru leynimakk, lygar og pukur, og töluðu því bara um það sem væri þægilegra. Til dæmis var formaður Sjálfstæðisflokksins í Panamaskjölunum, þó svo að hann hafi neitað því margoft að eiga pening í skattaskjóli, fyrr en upp um það var ljóstrað (félagið hét auðvitað Falson). Um þetta var ekkert rætt í kosningunum!?

Kosningarnar komu sumsé til vegna þess að fólk var búið að fá nóg að tvískinnungi og pukri í kringum fjármálalega gjörninga, þar sem útvalinn hluti þjóðarinnar flutti peninga til útlanda í gervifélög meðal annars til að komast hjá því að greiða skatta, en einnig til að hylja eignarhald af mismunandi ástæðum. Og svo var ekkert um þetta talað í kosningunum?

Að einhverju leiti er erfitt annað en að kenna stjórnarandstöðunni um þetta. Af hverju ætti Bjarni Ben að vera að tala um Panamaskjölin þegar hann var sjálfur í þeim? Eða vafasama fjármálagjörninga, vafninga, eða ríkiseigur seldar til útvalinna ættingja? Maður hefur á tilfinningunni að Katrínu Jakobsdóttur líði betur að vera að tala um verndum tungunnar, trjárækt og mikilvægi menntunar en raunveruleg djúpstæð vandamál í íslensku samfélagi. Hver er á móti trjám eða íslensku? Þarf að boða til kosninga á eins árs fresti til að útkljá vandamál er tengjast trjárækt?

Mér sýnist sama vera að gerast núna í aðdraganda kosninga (sjá hér um hvað VG setur á oddinn í næstu kosningum. You can´t make this up!). Af hverju eru þessar kosningar? Mér sýnist ástæðurnar vera svipaðar og síðast. Pukur og leynimakk, en ekki síst handónýt stjórnsýsla þar sem reglur um “sakaruppgjöf” virðast fáránlegar, enginn ber ábyrgð, menn skrifa “meðmæli” án þess að stjórnvöld gæti þess að menn hafi raunverulega skrifað undir neitt. Og svo er látið eins og enginn beri ábyrgð? Ekki sá sem skrifar undir, forseti, ekki dómsmálaráðherra, ekki yfir höfuð neinn? Bara eitthvert sjálf-malandi kerfi? Svona svipað og fyrir bankahrun. Enginn bar ábyrgð, ekki Seðlabankinn, ekki Fjármálaeftirlitið, jafnvel bankarnir sjálfir voru bara fórnarlömb erlends „umsáturs“.

Til að bæta gráu ofan á svart kemur svo í ljós að þær upplýsingar sem nú eru komnar í ljós voru á vitorði dómsmálaráðherra í júlí sem sagði samdægurs forsætisráðherra frá — en engum öðrum. Fyrr en henni var til þess þröngvað þegar fjölmiðlar kærðu hana. Skýringarnar á þessu háttarlagi breytast dag frá degi. Fyrst er manni sagt að dómsmálaráðherra hafi verið “óheimilt” að segja neinum öðrum frá (nema væntanlega formanni Flokksins? Af hverju honum?). Svo er sagt að allir ráðherrar hafi geta að þessu komist með því að spyrja. Það er hrakist úr einni útskýringu í aðra. Sirkus fáránleikans.

Punkturinn er sá, að íslensku stjórnsýsla er ótrúlega léleg, ekkert gagnsæi um hvernig ákvarðanir eru teknar, og menn segja ekki frá neinu nema þeim sé beinlínis skipað fyrir um það af dómstólum eða sérlegum nefndum um upplýsingamál (sem líklega voru skipaðar af vondu Vinstristjórninni). Um bætta stjórnsýslu – að gera hlutina almennilega og af einhverri fagmennsku en ekki með þessum endalausa aulagangi – ættu kosningarnar að snúast. En fólki finnst miklu þægilegra að tala um eitthvað sem er óumdeilt, eins og að það þurfi að hjálpa öldruðum og hlú að trjám, tungu og öryrkjum. Mér finnst eins og ég sé að horfa á dönsku kvikmyndina Festen.

Sem íslenskum kjósanda, sem ég þó er eftir öll þessi ár, hef ég lítinn áhuga á að vita um menntamál, öryrkja, trjárækt eða verndun íslenskrar tungu. Þetta er ekki vegna þess að ég telji þessi mál ekki mikilvæg. Þau eru mjög mjög mikilvæg og standa hjarta mínu nærri. Ástæðan er að þetta er ekki skurðás íslenskra stjórnmála. Það skipti litlu máli hvort þar véli um Bjarni Benediktsson, Logi Einarsson, Birgitta Jónsdóttir, Óttar Proppe, eða Katrín Jakobsdóttir.

Vandamál síðustu árutuga er skortur á gegnsæi, að ekki sé almennilega haldið utan um hlutina, og að allt sé ekki gert með einhvers konar rassvasabókhaldi. Og bestu vinir aðal fái svo ekki allt uppi hendurnar af einskærri tilviljun.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur