Mánudagur 02.10.2017 - 14:55 - FB ummæli ()

Furðufréttir Fréttablaðsins af SDG

Forsíða Fréttablaðins í dag lýsir líklega einhverju furðulegasta fréttamati sem ég hef séð.

Fyrir nokkru kom í ljós að þáverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð, og fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, áttu pening í skattaskjólum.

Þetta kom í ljós vegna leka í gegnum hin svokölluðu Panamaskjöl.

Það sem gerði mál Sigmundar Davíðs sérstaklega alvarlegt var það, að í ljós kom að hann átti í gegnum konu sínu kröfur á föllnu bankana er námu hálfum milljarði króna. Og hafði engum frá þessu sagt, ekki samstarfsmönnum í ríkisstjórn, ekki yfir höfuð neinum. Af einhverjum ástæðum, kom Sigmundur Davíð sér einnig undan því að skrifa undir reglur sem gerðar voru til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og innherjaviðskipti. Allir sem komu að viðræðunum við kröfuhafa bankana þurftu að skrifa undir þessar reglur, þar á meðal Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra (sjá hér). En ekki Sigmundur Davíð.

En um hvað er forsíða Fréttablaðiðsins í dag? Það er ómögulegt að lesa það úr fréttinni, en söguþráðurinn er eftirfarandi:

  1. Aflandsfélagið Wintris greiddi ekki skatta í samræði við lög og reglur um árabil.
  2. Mánuð eftir að Panamahneykslið reið yfir, skrifuðu Sigmundur og frú skattayfirvöldum bréf og óskuðu eftir því að skattaframtöl þeirra frá 2011 til 2015 yrðu „leiðrétt“ og sögðu í bréfi sínu að skattstofninn hafi verið „vantalinn“.
  3. Ríkisskattstjóri félst á beiðni hjónanna um að greiða skatt sem þau höfðu ekki greitt áður en ljóstrað var upp um málið.
  4. Að auki var endurákvarðaður auðlegðarskattur á konu forsætisráðherra og stofn til tekjuskatts var hækkaður frá 2011-2015.
  5. Úrskurður skattstjóra var hjónunum ekki að skapi, enda um háar fjárhæðir að ræða. Þau vildu gjaldfæra gengistap til að lækka hið nýja skattamat og kærðu því úrskurðinn til yfirskattanefndar. Yfirskattanefnd félst á að það megi færa „gengistap“ sem gjöld en þetta olli því að skattaskuld hjónanna var lægri en skattstjóri hafði ætlað fyrst eftir að Sigmundur og frú báðu um „leiðréttingu“ í kjölfar Panamaskjalanna.

Þetta er sumsé sagan:

Upphaflegt mat ríkisskattstjóra á vantöldum sköttum vegna Wintris, sem lagt var á eftir að Sigmundur Davíð og kona hans vildu „leiðrétta skattframtöl sín“ eftir að upp komst um skattaskjólsfélagið opinberlega, reyndist vera ofmetið. Mér sýnist Kjarninn súmmera þetta ágætlega upp hér. Þetta er byggt á opinberum gögnum.

Og hvað gerir Fréttablaðið? Það birtir stríðsfyrirsögn á forsíðu blaðsins „Greiddu of mikla skatta vegna Wintris“!! Svo er vísað í umfjöllun á blaðsíðu 9 þar sem við blasir grein …… eftir …. you guessed it ….. Sigmund Davíð Gunnlaugsson kölluð „Málalok“.

Hvernig væri fyrirsögnin:

„Skattaskuld forsætisráðherrahjónanna vegna Wintris ekki jafn há og skattstjóri taldi fyrst eftir að Panamaskjölin birtust“

Fréttamat Fréttablaðsins er með slíkum ólíkindum að ég velti fyrir mér hvað í ósköpunum er á ferðinni. En þá rifjaðist upp fyrir mér leiðari Fréttablaðsins 19. mars 2016, stuttu eftir að Wintris málið fyrst kom upp, og áður en um það var fjallað í erlendum fjölmiðlum. Þar segir að allt þetta mál væri „sjúkdómseinkenni á fárveikri pólitískri umræðu“ sjá hér.  En semsé, fárveika umræðan að mati ritstjórans snerist ekki um að Wintris málið væri svo slæmt og vísbending um vonda stjórnmálamenningu og skort á gagnsæi í fjármálakerfinu. Nei. Það var talið merki um fársjúka umræðu að verið væri að fjalla yfir höfuð um að forsætisráðherrahjónin ættu pening í skattaskjóli, þar á meðal hálfra milljarða króna kröfu á bankana. Á sama tíma og forsætisráðherra var að semja við kröfuhafa og sat því beggja vegna borðsins!

Mér svelgdist svo á morgunkaffinu yfir Fréttablaðinu 19. mars 2016 að ég skrifaði um það dálítið blogg, sjá hér fyrir neðan frá mars 2016. Þar spáði ég því að fólk myndi ekki átta sig á alvöru málsins fyrr en það kæmi til kasta erlendra fjölmiðla, en þetta var skrifað eftir að upp komst um Wintris, en áður en Kastljós þátturinn frægi birtist.  Ekki átti ég þó von á þeirri sprengju sem þetta mál varð í erlendum fjölmiðum. Mér hefur ekki svelgst jafn hressilega á morgunkaffinu síðan þarna í mars 2016 fyrr en í morgun….

Pólitísk umræða á Íslandi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur