Miðvikudagur 18.10.2017 - 00:21 - FB ummæli ()

Lögbann á fjölmiðla

Það er með algerum ólíkindum að í lýðræðisríki geti það gerst, að einhver sýslumaður útí bæ geti bannað heilum fjölmiðli, nokkrum dögum fyrir kosningar, að fjalla um fjárhagsleg málefni stjórnmálamanns á grundvelli upplýsinga sem sá fjölmiðill býr yfir (sýslumaðurinn sem um ræðir virðist raunar vera með athygliverðann bakgrunn, svo ekki sé meira sagt, og ekki sérlega góð reynsla af afskiptum hans af fyrri kosningum, sjá hér). Mér er óskiljanlegt afhverju þetta er ekki tekið fyrir samstundis af þar til bærum yfirvöldum, og þessu hnekkt strax — enda flestir lögfræðingar sammála að þetta lögbann standist enga skoðun (sjá t.d. hér og hér) — og almannahagsmunir í húfi. Það er fáránlegt ef ekki fæst niðurstaða fyrr en eftir kosningar. Á það að lýðast að einhverjir sýslumenn uppá sitt einstæmi ráðist inná fréttastofur og loki fyrir fréttafluttning einstakra fjölmiðla nokkrum dögum fyrir kosningar? Ef þetta er löglegt, þarf alvarlega endurskoðun á lagaramma íslenskrar fjölmiðlunar.

Upphaflega krafan gekk meira að segja út á — eins fáránalegt og það nú hljómar — að umræddur fjölmiðill ætti að eyða öllum skrifum sínum á netinu um þessi efni (það kom raunar á óvart að ekki skyldi krafist brennu á prentuðu efni líka!).

Ekki hef ég kynnt mér í neinum smáatriðum um hvað þessi fréttaflutningur allur snýst sem nú er búið að banna. Hvað sem þessu líður, er ekki búið að banna öðrum fjölmiðlum að fjalla um þetta. Og nú er þetta stórfrétt. Það er sjálfsögð krafa kjósenda til fjölmiðla að fá upplýsingar og svör um hvað þetta allt snýst og menn séu krafnir svara. Að því er ég best get séð er m.a. um að ræða fjölmargar greinar þar sem uppi eru ásakanir um innherjaviðskipti, afléttingu ábyrgðar á kúlulánum til sérvalinna viðskiptavina Glitnis með stjórnmálatengs, veitingu gífurlegra hárra lána til kaupa á olíufélagi í formi kúluláns þegar þeir aðilar sem lánið fengu voru ráðandi í Glitni á þeim tíma sem lánið var veitt, vafningsviðskipti þar sem áhætta erlendra banka var velt yfir á Glitni sjálfan sem leiddi til þess að eignfjárstaða bankans var stórfelldlega löskuð — og að í kjölfarið hafi þeir sem að þessum viðskiptum stóðu selt bréf sín í bankanum ef til vill á grunni þessara upplýsinga — jafnvel ásakanir  um að forsætisráðherra þjóðarinnar hafi sagt ósatt fyrir dómi! osfrv osrfv. Sjá t.d. hér, hér, hér, hér, hér, hér, hér, hér, hér, hér osfrv.

Það er prófsteinn á íslenska fjölmiðla hvort þeir fari í þessi mál af einhverri alvöru og spyrji þeirra spurninga sem þessar fréttir kveikja og krefjist svara. Þessar upplýsingar eiga að koma almennilega fram og það þarf að gefa þeim sem sitja undir þessum alvarlegu ásökunum gott rými til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Þannig á opið umræða í lýðræðisríki að virka. Það er svo kjósenda að kveða upp dóm. Inn í þann feril á ekki einhver sýslumaður útí bæ að vera þvælast.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur