Þriðjudagur 24.10.2017 - 14:25 - FB ummæli ()

Kosningaspá: Panamastjórn 2.0

Var að skoða síðustu kannanir, sjá MMR hér.

Samkvæmt þessu sé ég ekki betur en að Panamastjórn 2.0 sé í kortunum. Sigmundur Davíð og Bjarni Ben munu sameinast um völd á ný. Sjálfstæðisflokkur og klofningframboð hans (Viðreisn) fá samtals 28.4. Framsókn og klofningsframboð hennar (Miðflokkurinn) fá samtals 20.9. Ég sé ekki betur en úrslitin séu komið langleiðina í trausta meirihlutastjórn þessara hefðbundnu afla í íslensku stjórnmálalífi.

Það er óneitanlega dálítið kyndugt, að nú svo skömmu eftir hið alþjóðlega Panamaskjalahneyksli sem sprengdi upp ríkisstjórn Íslands, þá sé nú rétt rúmlega ári síðar nákvæmlega sömu aðilar að setjast í valdastóla.

Það er óneitanlega líka dálítið grátbroslegt hvernig þetta allt saman kemur til. Þetta gerist með því að hluti Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins skipta um kennitölur í gegnum útibúin, Viðreisn og Miðflokkinn, leidd af fyrrum formanni og varaformanni gömlu flokkanna. Einhverjir kunna að segja sem svo að ólíklegt sé að þessi flokkar vinni saman vegna „persónulegrar óvildar“. Þetta held ég að sé alger misskilingur. Samstarf Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins hefur aldrei byggt á persónulegri velvild forystumanna flokkanna. Samvinnan byggir á sameiginlegum hagsmunum. Þeir eru mjög sterkir. Það eru nákvæmlega sömu valdaklíkur, og fjölskyldur, á bak við þessi öfl í dag og hafa verið frá lýðveldisstofnun eða svo.

Enn önnur írónían er sú, að kosningarnar fara fram þegar búið er að setja lögbann á tiltekinn fréttaflutning er varða forystumenn þessara afla af alkunnum flokkshesti Sjálstæðisflokksins sem var skipaður sýslumaður Reykjavíkur af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Af fréttum að dæma hefði hann gert slíkt hið sama í tilfelli Panamaskjalanna, hefði hann haft til þess tækifæri. Og nú eru þær umræður sem spruttu út af þessum fréttum, sem nú er búið að banna, algerlega þagnaðar.

Kannski er það svo hámark íróníunnar með hvers konar kosningarloforðum þessir stökkbreyttu Sjálfstæðis og Framsóknarflokkar ætla að vinna. Það gera þeir — skilst mér — með því lofa því að „sækja milljarða“ úr bönkunum. Ég ætla að játa að ég treysti þeim vel til að sækja milljarða í bankana. Þessir flokkar hafa yfirgripsmikla reynslu af því að taka milljarða úr bönkunum. Kannski er meiri ástæða til að hafa áhyggjur af því í vasa hverra allir þessir milljarðar munu lenda.

Ekki ætla ég sosum að enda þennan pistil með fullyrðingum um að Íslendingar séu enn og aftur að verða að alþjóðlegu athlægi, þótt eflaust kunni einhverjir að taka slíkan pól í hæðina. Ég er miðaldra kall sem hefur búið í Bandaríkjunum í 20 ár. Eftir kjör Donald Trump hér í Bandaríkjunum horfa stjórnmálin svo skringilega við mér, að það er nánast ekkert sem getur lengur komið mér á óvart. Ekki einu sinni Panamastjórn 2.0 sem nú er að taka við. Eins og Churchill orðaði það svo ágætlega „Democracy is the worst form of government, except for all the others.“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur