Fimmtudagur 26.10.2017 - 19:41 - FB ummæli ()

Trumpun íslenskra stjórnmála

Skiptir sannleikurinn máli?

Síðastliðið ár hefur verið mörgum okkar sem búum í Bandaríkjunum afar þungbært með kosningu Donalds Trump (eða Dóna Prump eins og Steinar Gauti frændi minn kallar hann), þar sem ég hef hafist við í 20 ár.

Nú hefur það nefnilega gerst, að forseti Bandaríkjanna beinlínis lýgur þindarlaust. Eitt frægasta dæmið er þegar hann sagði að fleiri hefðu mætt á embættistöku sína en Obama, þegar myndir af staðnum bentu til hins þveröfuga. Um þetta var ekkert hægt að deila, frekar en hvort fimm sé stærri tala en þrír.

Trump er dálítið eins og kall sem stendur yfir manni, bendandi á hvítan vegg: “Sérðu ekki að þessi veggur er gulur”. Fyrst finnst manni náttúrulega bara að kallinn hljóti að vera brjálaður, en eftir því sem þetta ágerist, og bullið hrannast upp er maður farinn að halda að maður sé sjálfur að ganga af göflunum.

Ekki bætir úr skák að þegar sagðar eru fréttir af manninum, hreinar staðreyndir eins og til dæmis  “Trump segir að hvítur veggur sé gulur” ærist kallinn og twittar út um heima og geima um “fake media” – þetta sé allt saman einhver samsæri fjölmiðla og vinstrisinnaðrar “elítu” gegn sér. Hann hefur líka talað að um að breyta þurfi lögum til þess að hægt sé að fara í meiðyrðamál gegn fjölmiðlafólki (líkt og virðist afar auðvelt að gera á Íslandi og Sigmundur Davíð hefur lofað að gera eftir kosningar) og hótar að taka “útsendingarleyfi” frá tilteknum fjölmiðlum, sem að vísu er sem betur fer ekki hægt í Bandaríkjunum, þar sem ekki eru tilkippilegir „sýslumenn“ til að setja á „lögbann“ á tiltekinn fréttaflutning fjölmiðla — enda bryti slíkt líklega gegn stjórnarskrá.

Þá rekur Trump Hvíta Húsið nánast eins og sjoppu eða fjölskyldufyrirtæki, og svarar öllum spurningum um hugsanlega hagsmunáreksta vegna eigna sinna og venslamanna, og ásökunum um nepótisma,  með eintómum skætingi, hroka og dónaskap.

En það sem mér finnst kannski furðulegast að öllu er þetta: Donald Trump nýtur ennþá stuðnings um 37.5 prósent bandarísku þjóðarinnar (sjá til dæmis hér)!

Að einhverju leiti sýnist mér að svipuð þróun sé að eiga sér stað uppá Íslandi. Trumpun íslenskra stjórnmála. Það er til dæmis staðreynd að Sigmundur Davíð átti í gegnum konu sína kröfu uppá hálfan milljarð króna á föllnu íslensku bankana, sem hann hélt leyndu fyrir þingi og þjóð, í trássi við siðareglur. Á sama tíma og ríkisstjórn hans átti í viðræðum við þessa sömu kröfuhafa. Hann sat beggja vegna borðsins og hélt því leyndu. Vandræðanleg undanbrögð Sigmundar við að segja satt, náðust á myndband og urðu að aðhlátursefni um allan heim (sjá t.d. einn vinsælasta gamanþátt Bandaríkjanna hér). Þegar hann var spurður um þetta í Kastljósi fyrir þessar kosningar fyrir um mánuði síðan sagði hann einfaldlega “Hvorki ég eða konan mín höfum nokkurn tíma átt pening á aflandseyjum. En það er önnur saga og það virðist taka tíma að koma því öllu til skila. En haltu áfram með prógrammið!“ Þessi veggur er gulur. Fjölmiðlamaðurinn svarar: “Já, ehhh, skulum bara fara í þessar pólitísku vendingar að undanförnu”. Fátt hef ég heyrt um þetta síðan, þó að vísu hafi ég ekki fylgst sérlega vel með. Það var engin eftirfylgni, að því er virðist, en hinn prjónandi hestur Sigmundar virðist á fljúgandi ferð meðal íslenskra kjósenda.

En þeir eru fleiri gulu veggirnir.  Ég hef orðið þess var að SDG lofar nú því að ríkið kaupi Arionbanka og gefi hann svo fólkinu í landinu. Hér er öllu grautað saman. Í fyrsta lagi, ef markmikið er að gefa fólki banka, af hverju þá ekki að gefa þá sem nú þegar eru í eigu ríkisins, það er Landsbanka eða Íslandsbanka? Í öðru lagi, þá getur það vel verið að það sé skynsamlegt að nýta forkaupsrétt ríkisins á Arion banka, ef sá forkaupsréttur er fyrir hendi. Það má gera ef slíkt kemur skattgreiðendum til góða og ef til þess standa sannfærandi rök. Ég hef ekki skoðað viðskiptalegar forsendur þessa, en er viss um að hvaða ríkistjórn sem við tekur mun fá sérfræðinga til þess að meta kosti þess og galla. En það hefur ekkert með það að gera að dreifa svo þessum bréfum, eða einhverjum öðrum, til almennings. Ef einhverjir peningar græðast með forkaupsrétti ríkisins á Arionbanka má nota þá í hvað sem er, til dæmis heilbrigðiskerfið eða skattalækkanir fyrir hvaða tekjuhóp sem er. Þetta er óskaplega svipaður málatilbúnaður og SDG hafði um “leiðréttinguna miklu” fyrir síðustu kosningar. Það voru allir sammála um að það þyrfti að afskrifa kröfur erlendra kröfuhafa eins og svo loks var raunin, eins og kom fram í máli Seðlabanka Íslands löngu áður en Sigmundur fór að gera þetta að kosningamáli. En það, að afskrifa þessar erlendu kröfur, hafði hins vegar ekkert með það að gera að “leiðrétta” innlend húsnæðislán sem SDG tóks einhvern veginn að grauta saman.  “Leiðréttinging,” eins og við margir vöruðum við, og kom svo seinna í ljós að var rétt mat, gagnaðist aðallega íslensku stóreignafólki sem þurfti ekki á slíkum fjáraustri að halda. Á saman tíma eru spítalar landsins og menntakerfi í tómu tjóni (ég fjallaði um þetta fáránlega lýðskrum fyrir þar-síðustu kosningar hérna, og mér sýnist ekkert hafa breyst. Þessi grein gæti hafa verið skrifuð fyrir þessar kosningar með minniháttar breytingum).

Mér sýnist svipað uppá teningnum þegar kemur að Bjarna Benediktssyni og það, hvort það skipti yfir höfuð einhverju máli að svara spurningum um hluti er orka tvímælis í embættisverkum hans eða viðskiptum. Hér birtist annað dæmi um Trumpun íslenskra stjórnmála. Upp hafa komið fjölmörg álitamál, sem Bjarni hefur í litlu svarað, enda fáir til að spyrja að fyrra bragði, og því erfitt að leggja mat á. Á hinn bóginn er einfaldlega sett lögbann á þann fjölmiðil sem harðast gekk fram í að spyrja snúinna spurninga, sem hann neitaði að svara. Og aðrir fjölmiðlar virðast lyppast niður eftir að sögur birtast af forsætisráðherra öskrandi á fjölmiðlamenn (sjá hér) vegna sjálfsagðrar umfjöllunar. Svör Bjarna eru einfaldlega: “Þetta hefur allt verið skoðað”. Þessi veggur er gulur.

Ólíkt fjölmiðlamönnum, reyndi raunar 18 ára menntaskólanema að spyrja forsætisráðherra um hið svokallaða Borgunarmál sá ég í fjölmiðlum um daginn (sjá t.d. hér). Í staðinn fyrir skýr svör, fengum við þetta um Borgunarmálið frá Bjarna. “Að taka Borgunarmálið sem dæmi um það að það sé eitthvað að í baklandi Sjálfstæðisflokksins er alveg ótrúlega ómerkilegt, fyrirgefðu, alveg ótrúlega ómerkilegt. Það hefur hvergi nokkur staðar, nokkur staðar, komið fram ein einasta vísbending um að Sjálfstæðisflokkurinn, ég sem fjármálaráðherra, eða einhver í stjórnarkerfinu hafi reynt að hafa áhrif á niðurstöðu í því máli og þess vegna er þetta ótrúlega ómerkilegur áróður sem þú ert að flytja hér í salinn um það mál. Þetta er ekkert nema áróður þetta Borgunarmál, það er engin innistæða fyrir öllum stóru orðunum. Ég verð bara að fá að verja mig fyrst menn ætla að taka það upp hér og nota gegn mér. Þetta er ómerkilegt.“

Þetta er forsætisráðherra Íslands á kosningafundi að svara spurning 18 ára unglings, varðandi málefni eftir hrun, þar sem í ljós kom að föðurbróðir ráðherra og einn helsti viðskiptafélagi fyrir hrun hagnaðist amk um hundruðir milljóna á kaupum á fyrirtæki af Landsbankanum í lokuðu söluverli sjá hér og hér, þegar Landsbankinn var að mestu eign ríkisins og því ábyrgð fjármálaráðherra á þeim tíma sem hét ….. Bjarni Benediktsson.

Forsætisráðherra landsins finnst ekki nokkur einasta ástæða til að rökstyðja mál sitt, skíra það út, hægt og rólega fyrir kjósendum sínum, að þetta svokallaða Borgunarmál hafi farið eftir fullkomlega eðlilegri stjórnsýslu. Er flókið að útskýra það ef þetta var eðlileg stjórnsýsla? Í staðinn ræðst hann á 18 ára krakka með fúkyrðaflaumi. Ekki hef ég heldur séð nein skýr svör um ýmiss önnur álitaefni sem risu um viðskipti ættingja hans eftir hrun gagnvart ríkinu, sjá t.d. þetta eða þetta, osfrv osfrv. Og um þetta er ekkert er um fjallað? Hvernig er hann á litinn þessi veggur?

Ég held að þessi þróun eigi eingöngu eftir að ágerast ef kosninga spá mín (sjá hér) um Panamastjórn 2.0 gengur eftir….

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur