Miðvikudagur 01.11.2017 - 15:44 - FB ummæli ()

amanaP stjórn?

Sjálfur spáði ég Panamastjórn 2.0 fyrir og eftir kosningar en nú sé ég einhverjar raddir um andhverfu þess, það er allir flokkar utan D og M, nokkur konar amanaP stjórn, sumsé andhverfa Panama.

Ekki veit ég hversu alvarlega maður getur tekið slíkum fréttum, og af sögunni að dæmi er þetta kannski ekki mjög líklegt, og yrði í raun einsdæmi í Íslandsögunni.

En ef svo ólíkleg vill til að hún kemst á koppinn, held ég að það væri hið besta mál og alger nýlunda sem fróðlegt verður að fylgjast með. Að mörgu leiti snerust síðustu tvær kosningar um einhver konar hneykslismál sem spruttu upp útaf aulalegri stjórnsýslu og siðferðismálum, að ríkið væri nánast rekið eins og einhver sjoppustarfsemi, fjölskylduapparat.

Ef til vill væri sniðugt að setja á laggirnar stjórn sem hefði sér tiltölulega þröng markmið, enda ekki umboð frá þingi fyrir meiriháttar breytingar, sem fyrst og fremst sneru að því að gera stjórnsýsluna opnari og fagmannlegri, meiri kröfur er varðar hagsmunaskráningar og viðskiptatengls stjórnmálamanna, stífari kröfur um fjármögnun stjórnmálanna osfrv. En fyrst og fremst gera stjórnmál íslensk „leiðileg“ að því leitinu til að ekki séu uppi endalaus hneykslismál, og fólk geti einbeitt sér að áhugaverðari hlutum, eins og frammistöðu karla- og kvennalandsliða okkar í fótbólta.

Og leggja þá til hliðar stærri átakamál eins og ESB, stórfelldar breytingar á skattkerfi, endurstokkun landbúnaðar- og sjávarútvegsmála, einstrenginslegar kröfur í stjórnarskrármálinu, osfrv. Einfaldlega einbeita sér að því sem þessir sex flokkar eru þó sammála um en ekki einblína á það sem þeir eru óssámmála um að gera. Ef menn eru ósáttir, er ágætt að hafa í huga þegar erfið málamiðlun er gerð: Hvað hefði Panamastjórnin 2.0 gert? Hefði það verið skárra?

Mig grunar raunar að það sé merkilega margt, eins og til dæmis aukinn stuðningur við heilbrigðis- og menntakerfið, siðbót og aukin fagmennska í stjórnmálalífi, húsnæðismál, að sala ríkiseigna verði gert í opnum útboðum osfrv. Ekki væru heldur úr vegi að reyna að láta stjórnarandstöðu koma miklu meira að málum en tíðkast hefur í íslenskum stjórnmálum og skapa þannig meiri sátt um breytingar.

Í raun er litróf íslenskra stjórnmála ansi þröngt, miðað við það sem gengur gerist annars staðar, þar sem rifist er um hvort hið opinbera eigi yfirleitt að bera einhverja ábyrgð í heilbrigðismálum, um byssueign, fóstureyðingar, réttindi samkynhneygðra osfrv osfrv. Í samanburði við bandarísk stjórnmál eru allir íslenskir stjórnmálaflokkar í bandaríska Demókrataflokknum. Enda minnir mig að á sínum tíma hafi Obama notið stuðnings 97 prósent íslenskra kjósenda samkvæmt könnunum (ekki man ég hvernig það skiptist milli Trump og Hillary). Hvaða flokkar sem er ættu að geta setið saman í stjórn, en á þessum tímapunkti er spurningin hvort ekki sé fínt að gefa SDG og Bjarna smá frí, eftir allt sem undan er gengið?

Svo má setja öll hin málin, eins og stjórnarskrá, landbúnað, sjávarútveg osfrv. í sáttarfarveg og sjá hvort til sé sameiginlegur flötur á kjörtímabilinu. Mig grunar að hann sé til, án þess að ég myndi þora að spá neinu fyrir um það.

Ég gerir ráð fyrir að stjórn, sem hefði ekki á dagskránni jafn róttækar breytingar og fyrsta stjórnin sem mynduð var eftir hrun, myndu valda mörgum vonbrigðum sem kusu þá flokka, enda myndi slík stjórn sameinast um lægsta samnefnara. En þá verða þeir aftur að velta fyrir sér hver hinn kosturinn er, sem mér sýnist vera Panamastjórn 2.0, og átta sig á því að umboð fyrir stórfelldum breytingum er ekki fyrir hendi á Alþingi. Panamastjórn myndi ekki takast að koma á friði og líklega ekki lifa af kjörtímabilið, en kannski andhverfa hennar ætti betri möguleika. Hvort er skárri kostur, og hvort er líklegri til þess að mynda einhvers konar sátt í samfélaginu um næstu skref?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur