Laugardagur 04.11.2017 - 19:18 - FB ummæli ()

Er stjórnmálalegur stöðuleiki til vinstri á Íslandi?

Það kemur mér skemmtilega á óvart að sjá að nú er verið að reyna að myndi stjórn frá miðju til hægri á Alþingi. Ég satt best að segja bjóst ekki við þessu og er ennþá bara hóflega bjartsýnn. En svo virðist sem Sigurður Ingi og Lilja Dögg séu að taka Framsóknarflokkinn aftur til þess að vera víðsýnn miðjuflokkur, sem getur unnið hvort heldur til hægri eða vinstri, en það þarf að leita ansi langt aftur í söguna til að finna flokkinn á þeim stað (Steingrímur Hermannsson og Alfreð Þorsteinsson koma upp í hugann). Og ef þetta verður lending er kannski ástæða til að hrósa Framsóknarflokknum fyrir þá lúsahreinsun sem átti sér stað fyrir kosningar. Ef svo fer fram sem horfir kemur flokkurinn fyrir sem tandurhreinn og með hreinar hendur eftir árálangar árásir andstæðingu um spillingu innan raða flokksins (það er kannski dálítið kaldhæðnislegt að sá flokkur sem réðist alltaf harðast á Framsóknarflokkinn fyrir að vera spilltur, var Sjálftæðisflokkurinn!).

Mér finnst hlægilegt að lesa pistla, eins og til dæmis hér, um að spori eigi að hræða og að samstarf þessara flokka sé einhver uppskrift að glundroða. Maður sér hvern mann éta þetta upp eftir öðrum.

Ef að maður lítur yfir stjórnmálasviðið síðustu 25 ára eða svo, eru þeir sem að þessu samstarfi koma, einmitt uppskrift að stöðugu stjórnarfari. R-listinn sem tók yfir borgina fyrir meira en 20 árum var að grunni til byggður á sömu stjórnmálaöflum. Eftir áratuga óstjórn Sjálfstæðiflokkinn komst á stöðugt stjórnarfar, þar sem flokkshestar fengu ekki lengur sérlega fyrirgreiðslu um byggingarlóðir heldur hæstbjóðendur,  byggðir voru upp leikskólar, mokaður (bókstaflega) skíturinn úr borginni með að setja upp holræsakerfi ofrv ofrv. Óstöðugleikinn í borginni hefur eingöngu sprottið upp á síðustu 25 árum eða svo þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefðu komið að meirihluta. Allir hafa þeir hafa einatt sprungið með látum og hver höndin á móti hverri annarri eftir ýmiss hneykslismál (man enginn kannski lengur eftir hinu svokallaða REI máli?!). Í núverandi borgarstjórn, til dæmis, eru Píratar, og ekki hefur orðið vart við mikinn ´óstöðugleika´ af þeim sökum. Raunar þvert á móti. Hvað sem mönnum þykir um störf meirihlutans í Reykjavík, virðist þar ríkja stjórnmálalegur stöðugleiki.

Ef skoðaðar eru síðustu ríkisstjórnir er Jóhanna Sigurðardóttir eini forsætisráðherra sem setið hefur heilt kjörtímabil síðan 2004, í vondu vondu Vinstristjórninni. Fjölmargar stjórnin Sjálfstæðisflokksins hafa splundrast í frumparta á sama tíma þá, og einatt vegna pólitísks óstöðugleika og hneykslismála.

Þannig að ég vona að þeir sem nú véli um mál takist að komast á langþráðum pólitískum stöðugleika í íslenskum stjórnmálum. Stjórnmálalegur stöðugleiki þessi dægurinn virðist vera á vinstri helmingi hins stjórnmálalega landslags.

Það sem ég vonast helst af þessari stjórn, er að hún ætli sér ekki um of, heldur einbeiti sér að þeim málum sem sameina. Og leitist líka við að hafa stjórnarandstöðu með í ráðum eftir bestu getu, þó það geti verið snúið í tilfelli Sigmundar Davíðs, þar sem hann virðist ekki mjög gjarn á að mæta í vinnuna. En það er óskaplega margt hæfileikaríkt fólk hægra megin við miðju, með mikla og verðmæta reynslu, hvers krafta þarf að virkja.

Þessi stjórn gæti því orðið sannkölluð sáttarstjórn, sem sameinaðist um það sem allir eru sammála, uppbyggingu í heilbrigðis og menntakerfi, en ekki síst aukna fagmennsku og umbætur í  stjórnsýslunni.

Nokkur dæmi:

Hvernig má það vera að einhver sýslumaður útí bæ geti sett lögbann á fjölmiðil rétta fyrir kosningar án þess að slíkt komi til kasta dómstóla (ég get ekki ímyndað mér að nokkuð slíkt gæti til dæmis gerst hérna í Bandaríkjunum). Allir flokkar eru sammála um að þetta var fáránleg stjórnsýsla, þar á meðal Sjálfstæðisflokkurinn. Þetta er lýðræðisríki til háborinnar skammar. Mér sýnist líka víðtæk samstaða um að bæta verklag um skipan dómara og annað slíkt. Almennt þá þarf bersýnilega að endurskoða lög um umgjörð fjölmiðla og stjórnmála almennt, til dæmis er ekki heilbrigt eins og í ljós kom fyrir síðustu kosningar að hægt sé að fara framhjá lögum um fjármögnun kosningabaráttu með því að stofna félög sem enginn veit hver stendur á bak við og dæla út neikvæðum auglýsingum í gegnum facebook og youtube. Löggjafinn í Bandaríkjunum er að fara að taka á þessu, en það á hinn íslenski að gera líka. Þetta er þverpólitískt mál.

Annar er tengist fjölmiðlum. Eftir hrun var víst gerð tilraun til að gera eignarhald að fjölmiðlum gagnsærra. Það er augljóst að sú tilraun hefur mistekist. Hver á, til dæmis, eiginlega DV? Mér sýnist einhver lögmaður úti í bæ vera búinn að kaupa og selja sjálfum sér DV margoft síðustu ár, án þess að nokkuð komi fram hver standi þarna raunverulega að baki.

Meðferð flóttamanna er svo annað. Þótt menn kunni að greina á hversu marga á að taka við, held ég að það augljóst að ferillinn sem málin eru í dag er engum að skapi. Best væri ef hægt væri að ná víðtækri sátt á þingi um hvernig að þessum málum er staðið, og þar verða allir að gefa eitthvað eftir sínum ítrustu kröfum. Þetta ætti ekki að vera pólitískt mál, og það að gera það að pólitísku bitbeini gefur öfgaöflum tækifæri, en Íslendingar hafa verið blessunarlega lausir við slíkt fram til þessa (og tek ég þá ekki inní myndin einstaka daður tiltekinna pólitíkusa í aðdraganda kosninga).

Stjórnmál síðustu ára hafa að miklu leiti verið „uppgjör við hrunið“. Gott og vel. En nú væri gott ef menn einhentu sér í það, með þverpólitískum hætti, að setja betri lagaumgjörð fyrir viðskiptalífið og bankana. Það þarf að gera miklu betur til að koma í veg fyrir innherjaviðskipti og umboðsvip af því tagi sem voru ótrúlega algeng fyrir hrun, og virðast því miður ennþá viðgangast. Einn lærdómurinn eftir hrunið er að það virðist óskaplega erfitt að rifta samningum þar sem augljóslega er um gjafagjörninga að ræða, eða auðljós innherjaviðskipi. Það er Alþingi að setja lögin sem eiga að koma í veg fyrir þetta. Og nú er þá bara að bretta upp ermarnar. Þetta snýst um að læra af fortíðinnni.

Eitt sem því tengist er að það ætti að setja lög sem gera eignarhald á fyrirtækjum mun gegnsærra, því að hið flókna net eignarhaldsfyrirtækja og aflandsfélaga var gróflega misnotað fyrir hrun. Þetta var gert af margvíslegum ástæðum, til dæmist il að komast undan skatti, eða komast hjá reglum um lánveitingar til tengdra aðila, eða til að búa til fléttur sem fólu í sér gjafagjörning osfrv. Það eru fjölmargar leiðir sem hafa verið farnar í nágrannaríkjunum, til dæmis með skattlagningu, sem að geta komið í veg fyrir fyrirtækjaflækjur af því tagi sem sáust fyrir hrun. Þær virðast því miður ennþá algengar að því er virðist. Það á að vera forgangsverkefni að setja betri umgjörð um þessi mál á Íslandi.

Svo verður að ríkja miklu betra gagnsæi um hvernig eignir eru seldar úr höndum bankanna og ríkisins (hvernig væri til dæmis að koma í veg fyrir að þeir sem kaup bankanna næst, gerir það ekki með því að gefa hvorum öðrum lán eins og síðast!). Þetta er ekki pólitískt mál, heldur snýst um að hámarka arð skattgreiðenda og tryggja stöðugleika. Framundan er sala mikilla eigna, og það verður að koma í veg fyrir mál líkt og Borgunarmálið alræma. Raunar ætti Alþingi líka að skoða hvernig á því stendur að lagaumgjörðin er ekki betri en svo, að ekki hafi verið hægt að rifta þeirri sölu, þegar í ljós kom hvernig í pottinn var búið (sjá t.d. hér). Það eru hagmunir Alþingis í heild að þetta sé gert almennilega til að byggja upp traust í íslensku samfélagi. Í eðli sínu er þetta ekki pólitískt mál, heldur snýst bara um að gera hlutina almennilega en ekki með þessu endalausa sleifarlagi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur