Þriðjudagur 27.02.2018 - 13:34 - FB ummæli ()

Stóra umskurðsmálið

Jæja, mér sýnist þjóðin loksins vera komin yfir hrunið og alla þá reiði sem því fylgdi. Umræðan er nú aftur farin að snúast um mál, sem virðist hérna utan frá séð dálítið furðuleg, eftir 21 árs utanveru í Bandaríkjunum.

Ég verð að játa að mér finnst dulitíð skondið hversu heitar umræður eru um lög sem kveða á um bann við umskurð drengbarna að viðurlagðri 6 ára refsingu, hvorki meira né minna, ekki síst í ljósi þess að ég veit ekki til þess að mikið sé um þessar aðgerðir uppá Íslandi yfirhöfuð.

Spurningin um að umskera eða ekki skera hefur raunar komið upp í minni fjölskyldu. Allir mínir þrír strákar eru fæddir á spítala í New York og þar er það ´default´að því er ég best skil að umskera drengi. Þetta er vegna þess, held ég, að bandaríska barnalæknafélagið (American Academy of Pediatrics (AAP)) mælir með umskurði á drengbörnum, vegna þess að þeir halda því fram að „the benefits of circumcision outweigh the risks“. Því er það, án þess að ég hafi gert á því viðamikla rannsókn, að flestir bandaríkjamenn eru umskornir við fæðingu. Mér skilst að þetta eigi víst að auka hreinlæti, minnka líkur á þvagfærasýkingum, minnka líkur á smitun kynsjúkdóma og jafnvel minnka líkur á krabbameini samkvæmt til dæmis Mayo Clinic, sem almennt er talinn einn virtasti spítali Bandaríkjanna

https://www.mayoclinic.org/tests-procedures/circumcision/about/pac-20393550

Mér skilst að World Health Organiztion (WHO) sé að reyna að gera umskurð sveinbarna í Afríku að forgangsverkefni til að stemma stigu við útbreyðslu alnæmis, sjá hér:

http://www.who.int/hiv/topics/malecircumcision/en/

Eðlilega sköpuðust því umræður um þetta milli mín og konu minnar hvort fara ætti að þessum læknisráðum bandaríkjamanna og WHO eða halda íslenskum sið. Konan mín virtist vilja fara eftir því sem hún taldi vera bestu ráð læknavísindanna. Ég verð hins vegar að játa að þessu var ég algerlega mótfallinn, og fannst þetta algerlega villimannslegur siður. Því var það að þegar allir þrír drengirnir fæddust var ég alltaf ákaflega stressaður á spítalanum til að koma í veg fyrir að drengirnir yrðu fyrir þessum limlestingum, enda um rútínu að ræða hér í USA, og ég hafði heyrt að slíkt væri stundum gert án þess að spurt væri, vegna þess að þetta væri svo almenn venja og almennt með þessu mælt. Niðurstaðan var sú að mér tókst að sannfæra konunu um að halda hinn íslenska sið, þvert á þessi bandarísku læknaráð sem ég tók raunar rétt mátulega hátíðlega eftir dálítið nánari skoðun. Og mér tókst með nokkuri harðfylgi að bægja frá hverjum þeim sem gerði sig líklegan til að framkvæma þennan sið á litlu drengina mína á spítalanum.

Sumsé, umræðan á mínu heimili hefur verið heilmikil um þetta mál, og er mér sent afskaplega illt auga af frúnni í þau örfáu skipti sem spurningar hafa vaknað um þvagfærasýkingu hjá einhverjum drengjanna eins og gengur og gerist hjá litlum börnum.

En ég hafði mitt fram. Ég var að reyna að láta mér detta í hug hvernig ég hefði brugðist við ef að bandarísk yfirvöld hefðu það í lög leitt, að tilstilli ráða bandaríska barnalæknafélagsins, að öll drengbörn skyldu umskorin að viðurlagðri 6 ára refsingu, í ljósi rannsókna um „the benefits of circumcision outweigh the risks.“ Mikið óskaplega hefði það farið í taugarnar á mér, ég veit varla hvernig ég hefði brugðist við. Mér af vitandi hefur engum heilvita manni dottið í hug að setja slík lög, þótt að læknar séu með ákveðnar ábendingar í þessa veru. Þetta er í höndum foreldrana.

Mig grunar að viðbrögð fólks af erlendu bergi brotnu yrðu svipuð ef þau væru upplýst um að við því lægi 6 ára refsing á Íslandi að fara að ráðum Mayo Clinic, eins virtasta spítala bandaríkjanna og WHO. Líklega yrði uppnámið þeim mun meira hjá þeim sem eru af menningarheimum þar sem þessi aðgerð er hluti af einhverri menningarhefð, fremur en að vera rökstudd á læknisfræðinlegum rökum. Ég er með tiltölulega afdráttalausa neikvæða skoðun á þessum sið sjálfur, en dettur ekki í hug að þröngva þeirri skoðun uppá aðra, að viðurlagðri 6 ára refsingu, nema fyrir því séu lögð miklu betri rök en ég hef séð í íslenskri umræðu. Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að sú umræða eigi líka betur heima í ríkjum þar sem þessi siður er í raun í heiðri hafður að læknaráðum, líkt og í Bandaríkjunum, og menn vita um hvað þeir eru að tala, frekar en að vera að rífast um þetta uppá Íslandi þar sem þessi siður tíðkast hvort sem er ekki yfir höfuð! Það er sosum sjálfsagt ef að íslenskir læknar telji sig á grunni einhverra rannsókna ekki vilja framkvæma þetta, enda hafa þeir líka enga reynslu í þessum efnum, en að fara að fangelsa fólk í sex ár sem er annarrar skoðunar, þegar lækanar í ýmsum ríkjum mæla með slíkum aðgerðum? Foreldrar þurfa auðvitað að taka fjölmargar ákvarðanir fyrir hönd barna sinna er tengjast heilsu og líkama þeirra og margar þessar aðerðir eru óafturkræfar, líkt og bólusetningar, gat á eyru, uppskurðir af alls kyns tagi. Stundum eru deilur um hvaða leiðir sé best að fara, og læknar deila um hvað sé best, en almennt finnst mér að það eigi að vera í höndum foreldra að taka slíkar ákvarðanir nema veigamikil læknisfræðileg rök séu gegn því. Ég á bágt með að sjá að svo eigi við í þessu efni miðað við það sem fram hefur komið. Það ætti nú að vera eitthvað merkilegra sem hægt er að rífast um?

PS. Einhver staðar sá ég að einhver vildi banna þetta á Íslandi vegna þess að börnum íslenskum myndi líða illa að líta öðruvísu út en aðrir þegar þeir færu í sund! Með þessum sömu rökum hefði ég þá væntanlega þurft að láta þessa aðgerð fara fram á mínum börnum í USA, því hérna eru þeir öðruvísi en allir aðrir sem flestir eru umskornir, sem kveikir þá væntanlega upp mikla sálarangist fyrir þá þegar þeir fara í sund. Ekki þykja mér þetta sérlega sannfærandi rök. Raunar hefur sú spurning komið upp hjá mínum strákum, afhverju þeir séu öðruvísi en flestir aðrir drengir í skólanum. Þá hef ég farið yfir það afhverju ég teldi þessa aðgerð óþarfa og bent á að hún væri ekki að íslenskum sið. En það var ekki til þess að þeim liði betur í sundi á Íslandi!

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur