Þriðjudagur 13.04.2010 - 22:11 - FB ummæli ()

Grátónar eða svarthvítt!

Þegar ég var táningur heillaðist ég af ljósmyndun og gerði lítið annað í nokkur ár en að sinna henni – í svarthvítu; ætlaði ég reyndar alla tíð að vera óháður öllum flokkum og öflum í því skyni að geta farið um heiminn og sýnt hið sanna og breytt heiminum til hins betra. Hápunkturinn var verðlaun fyrir svarthvítt listaplakat 1986 í menntaskóla.

Er ég flutti til Danmerkur síðar það ár hafði ég hins vegar fengið nóg af þessu áhugamáli þar sem það var orðið að atvinnu minni öðrum þræði; ég var t.a.m. orðinn fréttaljósmyndari á 17. ári og var farinn að taka myndir gegn greiðslu í stað þess að sinna listagyðjunni. Áður en ég hætti hafði ég hins vegar fengið smekk fyrir myndanálgun Ansel Adams – sem meistara grátónanna.

Grátónaðir dómar

Enn aðhyllist ég grátóna. Ég hef á ýmsan hátt valið mér þá hillu í lífinu að sjá, vinna og lifa lífið ekki í svarthvítu heldur í grátónum hið minnsta – og jafnvel í litum þegar við á.

Ég hef oft látið í ljós þá von að dómendur götunnar og bloggheima og þeir sem kveða upp dóma í heitu pottunum og fermingarveislum taki ekki hina algengu íslensku afstöðu um að annað hvort sé þetta þessum eða hinum að kenna. Þó að ég fallist ekki á þá afstöðu að við séum öll (sam)sek og þetta sé meira og minna okkur öllum að kenna (einkum þeim sem keyptu flatskjái) og gildismati þjóðarinnar – tel ég varhugavert að bara einn aðili eða geiri sé sekur. Eins og rannsóknarskýrslan sýnir eru bæði opinberir aðilar og einkaaðilar sekir um ýmislegt – athafnaleysi og athafnir.

Hið opinbera hefur athafnarskyldu – einkaaðilar hafa athafnafrelsi

M.ö.o. tel ég augljóst að umfjöllun um ábyrgð embættismanna eða stjórnmálamanna – sem hafa athafnarskyldu (lögbundnar eftirlitsskyldur og sjálfsagðar frumkvæðisskyldur) – geri ekki lítið úr ábyrgð lykilaðila í viðskiptalífinu – sem hafa frelsi til athafna innan marka laganna. Hvort tveggja brást; athafnarskylda hins opinbera var vanrækt og athafnarfrelsi viðskiptalífsins var misnotað. Við þurfum ekki að velja á milli.

Nú í kvöld átti ég langt og ítarlegt samtal við vin minn í fjármálageiranum sem taldi sig – réttilega – svikinn og sagði sökina ca. 90% hjá útrásarvíkingum og öðrum helstu gerendum í banka- og fyrirtækjageiranum; hann vildi gera lítið úr ábyrgð stjórnmála- og embættismanna – miðað við ábyrgð hinna. Sjálfur hafði ég sennilega ekki eins miklar væntingar til stjórnenda og eigenda í einkageiranum og þessi vinur minn. Ég horfi f.o.f. á þann geira sem ég þekki betur og treysti betur – opinbera geirann; ég tel hann hafa brugðist. Vinur minn horfði hins vegar á þann geira sem hann starfaði í og þekkti vel; sá brást gróflega – svo að örugglega varðar refsingu og vonandi skaðabótum. Kjarninn í mínu máli er að við þurfum ekki að velja; báðir/fleiri bera ábyrgð.

Pinochet eða Stalin?

Eins og mörgum er ofarlega í huga á hið sama við í stjórnmálalífinu; fólki mislíkar ef forystufólk eða fylgismenn tala eins og einn flokkur sé alsaklaus og annar einn ábyrgur.

Flestir flokkar – en e.t.v. ekki allir – og margir forystumenn – bera ábyrgð, mismikla. Ég vona sem sagt að við náum okkur fljótt upp úr þeim skotgröfum sem voru allsráðandi þegar ég var að alast upp og hafði engan áhuga á pólitík. Þegar ég var að réttlæta mitt staðarval í stjórnmálum orðaði ég það stundum þannig að hægrimenn verðu Thatcher, Reagan og jafnvel Pinochet án tillits til röksemda og sæju allt illt til vinstri og í austri en sá sem hallaðist til vinstri gagnrýndi þau öll og bæri blak af Sovét og öllum grimmdarverkum kommúnista; við miðjumenn sæjum hins vegar kost og galla á hvoru tveggja og veldum það besta úr hvoru fyrir sig.

Hvort sem það er rétt eður ei er ljóst að við verðum að meta málin af jafnvægi og sanngirni og um leið að leyfa gagnrýni og „fókus“ á einn aðila, sérstakt tilvik eða ákveðinn geira án þess að svara alltaf:

Já, en hvað með hinn og þennan?

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð:

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur