Þriðjudagur 04.05.2010 - 07:00 - FB ummæli ()

Kjarakerfi embættismanna

Ekki ræði ég að sinni launalækkun/launalækkun og ósamræmi í lagatexta sem RÚV hefur bent á – en í stjórnarskránni segir:

Í lögum skal kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu.

Ég þekki vel gildandi lög – einkum úr fyrra starfi hjá BHM – og tel mig vita hvernig kerfið – og ætti að vera; ætla ég að einblína á hið síðarnefnda en skorast ekki undan umræðu um hið fyrra. Rök mín eru m.a. – en ekki eingöngu – tilvitnuð stjórnskipunarregla frá 1995 sem alltof fáir þekkja úr stjórnarskránni – sem gildir um alla sem vinna fyrir aðra, þ.m.t. ríkið (ekki bara innan ASÍ).

Tvískipt – ekki margskipt – kerfi er framtíðin

Svona á kerfið að mínu mati að vera:

  1. Allir sem eru í stéttarfélögum (sem flestir) eiga að fá laun samkvæmt kjarasamningum; sú leið uppfyllir berum orðum skyldu áðurtilvitnaðs stjórnarskrárákvæðis.
  2. Í undantekningartilvikum (sem eru mun færri en þið haldið) eiga embættismenn að fá laun samkvæmt einhliða en fyrirfram ákvörðun sjálfstæðs kjararáðs – sem þeir geta gengið að (fyrirfram) eða hafnað. Það á við þegar samningsréttur og verkfallsréttur er ekki raunhæfur. Ekki gengur að mínu mati að sérstjórnir (t.d. bankaráð) bæti einhverju við hina almennu og matskenndu ákvörðun.

Í því sambandi ber að líta á að kjör (laun, hlunnindi og annað) fyrir opinber störf eru gjarnan samkvæmt hefð ákveðin einhliða – að vísu af sjálfstæðum aðila á borð við kjaranefnd og Kjaradóm áður og kjararáð nú; þá á það að vera samkvæmt almennum stjórnsýslureglum – sem reyndar skortir oft á. Ef ríkið segir að embættismaður eigi „aðeins“ að fá 1 millj. kr. í laun á mánuði felst í því tilboð sem hann getur samþykkt (=samningur) eða hafnað. Flóknara er ef launin eru lækkuð eftirá – en ég geri ráð fyrir að embættismenn á borð við væntanlegan hugsanlegan seðlabankastjóra hafi vitað eins og ég og þú af fréttum af stjórnarstefnu núverandi ríkisstjórnar um launaskipulag æðstu embættismanna.

Kerfið var fráleitt

Svona var kerfið, margskipt, ógagnsætt og ósanngjarnt að mínu mati:

  1. Flestir fengu laun samkvæmt kjarasamningum (taxtalaun) – gjarnan innan BSRB.
  2. Mjög margir fengu laun samkvæmt töxtum kjarasamninga að viðbættum persónulegum, stöðluðum eða hópbundnum „yfirborgunum“ – gjarnan innan BHM, einkum viðskipta- og lögfræðingar. (Í því fólst ekki aðeins möguleiki á heldur einnig raunveruleg staðreynd um kjaralega mismunun, sem að mínu mati hafði mikla kynbundnar forsendur innifaldar.)
  3. Einstaka aðilar fengu „ráðherraröðun“ og veit ég vart hvað í því fólst, efnislega né formlega! Ljóst var þó að það virkaði sem spilling og gagnsætt var það ekki.
  4. Flestir forstöðumenn (embættismenn) fengu laun samkvæmt ákvörðun kjaranefndar og Kjaradóms, þ.m.t. þóknun fyrir fasta yfirvinnu (enda fæstir sem vinna bara frá 9-17).
  5. Einstaka forstöðumenn fengu sérsamninga – langt yfir milljón kr. á mánuði – við stjórn sinnar stofnunar; meðal þeirra voru forstjóri Fjármálaeftirlits, Íbúðarlánasjóðs, Samkeppniseftirlits og Seðlabankastjóri.

***

Að gefnu tilefni tek ég fram að mín kjör falla undir kjararáð.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur