Fimmtudagur 06.05.2010 - 07:00 - FB ummæli ()

Ráðum aðeins þá sem við þekkjum

Til hvers er verið að auglýsa störf? Af hverju eru ekki strax ráðnir þeir hæfustu, t.d. það fólk sem ráðafólk þekkir, hefur unnið með og treystir?

Undanfarið hefur að gefnu tilefni verið rætt um ráðningar – bæði í tíð fyrri ríkisstjórnar og núverandi. Koma þar bæði til áfellisdómar löglegra dómstóla og gagnrýni fjölmiðla – og almennings. Ýmist er deilt á efnislegt mat – sem ég hef heilmikið að segja um – eða það grundvallaratriði að auglýst sé þegar starf er laust. Ég hef skrifað langa fræðiritgerð um hið fyrrnefnda – en ætla hér aðeins að árétta grundvallaratriði um hið síðarnefnda.

Er ekki aðalatriðið að auglýsingaskylda er ekki forsjárhyggja? Nei; meginatriðið er að auglýsingaskylda byggir á því að þjónar almennings þjóni almenningi og lögunum fremur en ráðafólki og hagsmunum. Auglýsingaskylda snýst um jafnræði og hæfni. Satt að segja hélt ég að það væri yfirlýst stjórnarstefna.

Enginn á vaktinni?

M.ö.o. sakna ég þess að enginn beiti sér – nema fjölmiðlar tilviljunarkennt – eins og þörf er á og hefð fyrir (a.m.k. í þau 7 ár sem ég var framkvæmarstjóri Bandalags háskólamanna) – gegn endalausum ráðningum í opinber störf án auglýsingar sem að mínu mati var gott dæmi um þá spillingu sem tíðkaðist; sú spilling var ekki viðurkennd.

Enn tíðkast slík spilling. Auglýsingalausar og pólitískar ráðningar var eitt af því sem ég ræddi við nefnd á vegum GRECO, líklega í kringum 2003, sem dæmi um íslenska spillingu. Áréttaði ég þetta við lykilblaðamann á þessu sviði í gær á förnum vegi.

Lausnir til framtíðar

Eins og ég var óþreytandi að benda á – bæði innan BHM, í fjölmiðlum og fræðilegri umfjöllun – er auglýsingaskylda mikilvæg af tveimur ástæðum a.m.k.:

1. Auglýsingaskylda stuðlar að jafnræði – og tískuorðinu gagnsæi einnig. Allir sem kost eiga, eru hæfir og áhuga hafa, geta sótt um starf eða embætti á vegum hins opinbera. Þeir eiga að geta treyst á málefnalegt mat við ákvörðun um val. Gilda svo skýrar og ótrúlega auðskiljanlegar reglur um samanburð milli aðila við mat á því hver er hæfastur meðal hæfra. Gidlir þar hver er hæfastur í opinbera þjónustu en ekki flokkslega.

2.Auglýsingaskylda leiðir til þess að „pottur“ umsækjenda stækkar og vinnuveitandi (í þessu tilviki oftast við, skattgreiðendur) fær frekar hæfasta, tiltæka umsækjandann.

Stöndum vörð um jafnræði og hæfni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur