Sunnudagur 17.04.2011 - 23:59 - Lokað fyrir ummæli

Þú hefur áhrif

Fyrsta verk mitt eftir að stjórnlagaráð setti sér starfsreglur í vikunni var að svara ítölskum blaðamanni sem spurði stjórnlagaráðsfulltrúa m.a. eitthvað á þessa leið:

Hvernig getur íslenskur almenningur tekið þátt í starfi stjórnlagaráðs?

Margþættar leiðir fyrir áhrif almennings

Mér til ánægju sá ég við yfirferð yfir umgjörð ráðsins samkvæmt þingsályktun og umræddum starfsreglum að almenningur getur fylgst með störfum stjórnlagaráðs, tekið þátt í stjórnlagaumbótum og haft áhrif á sex vegu, þ.e. með því að:

  1. senda stjórnlagaráði skrifleg erindi og umsagnir;
  2. hlusta á upptökur af fundum stjórnlagaráðs og eftir atvikum verkefnanefnda – hvort sem er með því að mæta á opna fundi, hlusta á þá á netinu í beinni eða upptökur síðar;
  3. tjá sig undir nafni á opinberum vef stjórnlagaráðs um drög og tillögur að nýjum stjórnarskrárákvæðum;
  4. óskað eftir fundi með stjórnlagaráði, nefndum eða starfshópum;
  5. með því að taka þátt í þjóðaratkvæði sem gert var ráð fyrir við meðferð þingsályktunar um skipun stjórnlagaráðs að gæti átt sér stað áður en Alþingi tekur tillögu stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár til afgreiðslu.

Væntanlega getur rödd almennings í sjötta lagi einnig heyrst áður en stjórnlagaráð lýkur störfum með því að gerð verði skoðanakönnun á viðhorfum kjósenda til meginatriða í væntanlegum tillögum ráðsins til þjóðar og þings.

Einvirk og gagnvirk áhrif

Fyrstu tveir liðirnir eru einvirkir þar sem almenningur sendir stjórnlagaráði erindi annars vegar og hlustar á ráðsfundi hins vegar. Næstu tveir liðir eru hins vegar gagnvirkir þar sem þeir bjóða upp á samtal og svör. Síðustu tveir liðirnir – þegar líður að lokum stjórnlagaumbóta – eru formlegri og geta haft töluverð áhrif á valkosti stjórnlagaráðs annars vegar og mat Alþingis hins vegar – sem fer enn með hið formlega vald til þess að breyta stjórnarskránni. Þess vegna vil ég hvetja alla áhugasama til þess að fylgjast með og beita sér gagnvart stjórnlagaráði enda er ekki víst að slíkt tækifæri til þess að móta grundvöll íslenskrar stjórnskipunar bjóðist aftur í bráð.

Mun ég fljótlega gera frekari grein fyrir hvernig ég vil leitast frekar við að ná til almennings og hlusta á ólík viðhorf við þetta mikilvæga starf.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

«
»

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur