Fimmtudagur 28.04.2011 - 22:59 - Lokað fyrir ummæli

Jómfrúarræðan – róttækar umbótahugmyndir til valddreifingar

Í dag hélt ég eiginlega jómfrúarræðu mína í stjórnlagaráði.

Róttækar umbótahugmyndir

Ég hef að vísu áður tekið til máls úr sæti mínu um formsatriði og skipulag starfsins en í dag fékk ég ásamt tveimur öðrum Akureyringum tækifæri til þess að halda stefnuræðu í stjórnlagaráði. Fyrir þá sem fylgst hafa með skrifum mínum var þar fátt um nýmæli – en gagnvart öðrum birtust væntanlega nokkuð róttækar umbótahugmyndir.

Í anda ráðsfundarins og stjórnlagaumbóta ætla ég að reyna að hafa þennan útdrátt á mannamáli; þó að mér sé tamt að tala og skrifa lagamál hef ég um 20 ára reynslu af að skrifa um lögfræðileg málefni fyrir almenning. Þeir sem vilja hlýða á ræðuna sjálfa – og spennandi umræður um efnisatriði í stjórnlagaráði í dag – geta hlustað hér.

Stjórnlagadómstóll – tengdur Hæstarétti

Fyrst vék ég að því að nauðsyn væri á stjórnlagadómstóli – og rökstuddi að hann ætti að vera tengdur Hæstarétti; í raun er um að ræða útvíkkaðan Hæstarétt – svipað og Landsdómur í því skyni að úrlausn um stjórnarskrána sé ekki einungis á valdi löglærða embættisdómara.

Rökstuddi ég þessa skipan miðað við fimm markmið um aðhald gagnvart valdhöfum, tímanlega og skjóta úrlausn álitaefna, samræmi í stjórnarskrártúlkun og takmarkaðan kostnaðarauka. Um rökin fyrir þessu og skipan Hæstaréttar sem stjórnlagadómstóls má lesa hér.

Í kjölfarið nefndi ég sex dæmi af handahófi um þörf á stjórnlagadómstóli.

Jafnræði milli atvinnurekenda og annarra

Í öðru lagi vék ég stuttlega að röksemdum fyrir því að þörf væri á að kveða í stjórnarskrá á um að ekki skyldi fyrst og fremst haft samráð við atvinnurekendur – heldur jafnt við launafólk og neytendur – þegar handhafar opinbers valds undirbúa, setja og framkvæma reglur; byggi ég þessa tillögu – sem ég á eftir að útfæra nánar – á um 13 ára reynslu minni af hagsmunagæslu í þágu þessara hópa. Nánar má lesa um þessa hugmynd hér.

Jafnræði milli héraða og miðstjórnarvalds í Reykjavík

Síðast en ekki síst rökstuddi ég að nú væri komið nóg af tyllidagatali um mikilvægi nærþjónustu og að stjórnarskrárákvæði um sjálfstjórn sveitarfélaga væri innantómt að óbreyttu. Sterkari staða stórra sveitarfélaga væri að mínu mati réttlætis- og jafnræðismál – og forsenda þess að sátt yrði um jafnan kosningarétt sem lengi hefði verið eina tækið til að sækja til baka til héraða hluta af því (auð)valdi sem færi til Reykjavíkur.

Lagði ég til að hluti af valdi Alþingis til að leggja á skatt og ákveða fjárveitingar – saman nefnt fjárstjórnarvald – yrði flutt til sveitarfélaga, svo fremi að þau yrðu stór eða sterk þannig að þau hefðu burði til þess að bera þann rétt og þær skyldur sem því fylgdu. Vitnaði ég til Hagtíðinda og sagði að nú væri skiptingin um 30/70 en væri víða í Skandinavíu hin sama – en með öfugum formerkjum, þ.e.a.s. að ríkið sér þar um að ráðstafa 30% af samneyslunni og sveitarfélögin 70%.

Að lokum sagði ég eftirspurn eftir raunverulegri valddreifingu og að hér væri ein leið til þess.

***

Hér má hlýða á um 10 mínútna ræðu mína (á 160. mínútu í lok 6. ráðsfundar) um þessi atriði.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , , , ,

«
»

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur