Sunnudagur 07.08.2011 - 21:32 - FB ummæli ()

Réttur til lífs (7. gr.)

Í 7. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Allir hafa meðfæddan rétt til lífs.

Takmörkuð lagaleg merking

Þetta ákvæði felur í sér nýmæli í stjórnarskrá og í lögum en hefur e.t.v. ekki mikla sjálfstæða lagalega merkingu; ekki er þar með sagt að ákvæðið sé merkingarlaust.

Fyrirvarinn um meðfæddan rétt tekur nefnilega væntanlega fyrir þann möguleika að fóstureyðingarlöggjöf verði skýrð með hliðsjón af slíku stjórnarskrárákvæði, þ.e.a.s. þannig að heimildir til fóstureyðinga yrðu takmarkaðar með vísan til þessa ákvæðis auk þess sem íslenskir dómstólar ganga tæplega inn á svið sem löggjafinn er talinn færari til þess að meta út frá sínu lýðræðislega umboði. Ekki er því hægt að búast við að dómstólar beiti slíku ákvæði til þess að hnekkja lögum eins og t.a.m. hefur gerst í bandarísku réttarkerfi.

Fóstur hafa raunar verið talin njóta skilyrtra lagaréttinda enda þótt fullt rétthæfi (eins og það er kallað í lögfræði) manna sé ekki talið fyrir hendi fyrr en við fæðingu.

Félagsleg áhrif

Pólitísk merking þessa ákvæðis – t.d. gagnvart fötluðum – getur hins vegar verið nokkur enda er lögum og ekki síst stjórnarskrárákvæðum stundum ætluð þýðing þó að þau hafi ekki augljós bein réttaráhrif. Þannig getur verið að ákvæðið hafi félagslega og siðferðilega þýðingu fyrir löggjöf og jafnvel áhrif á lögskýringu og úrlausnir dómstóla og annarra. Þá er líklegt að slíkt stjórnarskrárákvæði muni hafa mótandi áhrif á löggjafann við stefnumörkun í málefnum er varða líf og dauða – en þegar ákvæðið kom til umræðu (bæði við lokaumræðu um frumvarpið og breytingartillögur og við gerð áfangaskjals fyrr í sumar) ræddu sumir stjórnlagaráðsliðar um réttinn til þess að fá að deyja með sæmd í tengslum við slíkt ákvæði.

Álitamál

Lítið verður þó fullyrt um hugsanleg áhrif ákvæðisins auk þess sem greinargerð með ákvæðinu hefur enn ekki litið dagsins ljós.

Ég viðurkenni að ákvæðið er álitamál enda var það líklega það atriði í 114 greina stjórnarskrárfrumvarpi okkar í stjórnlagaráði sem ég var mest í vafa um hvort ég ætti að styðja eður ei – en ég hafði einsett mér að taka afstöðu í öllum efnislegum álitaefnum. Í fyrsta lagi kom ákvæðið mjög seint fram sem breytingartillaga og fékk því ekki sömu meðferð í nefnd og flest önnur ákvæði. Í öðru lagi var breytingartillagan og greinargerðin ekki einhlít hvað varðar lagalega merkingu. Í þriðja lagi er ég efins um hvort stjórnarskrá á að taka á svo persónulegum málum sem málefni lífs og dauða eru – sem e.t.v. hentar betur að fjalla um í almennri löggjöf og eftir atvikum eftir gildum og siðrænum viðhorfum hvers og eins. Loks hef ég í fjórða lagi lengi verið efins um þær ríku heimildir sem íslensk lög og lagaframkvæmd fela í sér hvað varðar fóstureyðingar, einkum af svonefndum félagslegum ástæðum – en það er afstaða sem erfitt er að hafa ef maður er yfirlýstur feministi.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur