Fimmtudagur 11.08.2011 - 07:00 - FB ummæli ()

Friðhelgi einkalífs (11. gr.)

Ákvæði nýja stjórnarskrárfrumvarpsins um friðhelgi einkalífs markar ekki nýmæli – eins og sumir gagnrýnendur, sem virðast ekki hafa kynnt sér ákvæði gildandi stjórnarskrár, gætu haldið – en auðvitað er hægt að hafa þá skoðun að gildandi ákvæðum eigi að breyta – sem við í stjórnlagaráði gerum sem sagt ekki tillögu um.

Óbreytt er, efnislega, að friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu skuli tryggð – en þó að orðalagi sé breytt í 1. mgr. er efni friðhelgisákvæðisins óbreytt að þessu leyti.

Aukin vernd gegn kynferðis- og heimilisofbeldi eina efnisbreytingin

Hins vegar kann af 10. gr., sem ég skrifaði um í gær, að leiða minni formlega vernd gagnvart friðhelgi heimilis – í þeim tilgangi að veita mannhelgi meiri efnislega vernd, svo sem gegn kynferðisofbeldi innan heimilis. Efast ég um að margir andmæli þeirri tillögu stjórnlagaráðs.

Virðum lagahefð – sem gefist hefur vel

Orðalag 2. og 3. mgr. er nákvæmlega hið sama í 11. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins og í 71. gr. stjórnarskrárinnar; umræðan ætti því e.t.v. að þessu leyti að snúast um það hvort friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu sé ofvernduð eða ekki nægilega vernduð – frekar en að gefið sé til kynna að stjórnlagaráð sé að leggja til stórkostlegar takmarkanir á þeirri friðhelgi enda virtum við í stjórnlagaráði gjarnan norræna, evrópska og íslenska lagahefð, svo fremi að hún hefði gefist vel að okkar mati.

Ákvæðin orðrétt

Ákvæði 11. gr. er svohljóðandi:

Friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu skal tryggð.

Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.

Þrátt fyrir ákvæði fyrstu málsgreinar má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.

Til samanburðar hljóðar 71. gr. gildandi stjórnarskrár svo nú:

Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.

Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimijld. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur