Föstudagur 12.08.2011 - 07:00 - FB ummæli ()

Réttur barna (12. gr.)

Í 12. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Öllum börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir í málum sem það varðar.

Barni skal tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í öllum málum sem það varðar og skal tekið réttmætt tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska.

Fyrri hlutinn óbreyttur

Fyrsta málsgrein er  samhljóða gildandi stjórnarskrá um vernd og umönnun barna í samræmi við velferð þeirra. Önnur málsgrein er óumdeilanlega gildandi regla í barnarétti síðustu ár og jafnvel áratugi – en auðvitað háð mati og tíðaranda hverju sinni hvað sé barni fyrir bestu; í þessum tveimur ákvæðum felst því annars vegar engin efnisbreyting og hins vegar lítil efnisleg breyting – önnur en sú að færa meginreglu laga inn í stjórnarskrá.

Hvað felur andmælaréttur barns í sér?

Þriðja málsgrein felur í sér umdeilanlegri breytingu – þó að ég hafi verið henni hlynntur; hún felur í sér margar breytur:

  • Barni ((0-18 ára)
  • skal tryggður réttur (ótvíræð skylda)
  • til að tjá skoðanir sínar (nokkuð skýrt inntak)
  • í öllum málum sem það varðar (mjög viðtækt svið) og
  • skal (aftur ótvíræð skylda)
  • tekið réttmætt tillit (en hér er skýr fyrirvari um að ekki skuli endilega taka fullt mark á afstöðu barns heldur aðeins „réttmætt tillit“)
  • til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska (árétting á fyrirvaranum um að „réttmæt tillit“ skoðist ekki aðeins í samhengi við aðstæður aðrar heldur einnig aldur barns og þroska).

Breytingin er minni en sumir halda enda er þegar í barnalögum regla um að taka beri tillit til skoðana barna eftir aldri og þroska – og því meira eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Sú lagaskylda er ekki lengur bundin tilteknum aldri, heldur þroska og aðstæðum; sjálfum finnst mér sjálfsagt að víkka regluna út yfir önnur svið og jafnvel til yngri aldurshópa – með þeim fyrirvörum sem að ofan greinir.

Andmælaréttur barna á ekki aðeins við um foreldra – heldur allt þjóðfélagið

Stóra breytingin samkvæmt stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs felst í því að nú ber ekki aðeins foreldrum lagaskylda að taka tillit til barna og afstöðu þeirra heldur hvílir sú skylda framvegis, verði tillaga stjórnlagaráðs að stjórnarskrá, á fleiri aðilum, sem ákvarðanir taka um hagsmuni barna – þjóðfélaginu öllu!

Fer vel á því enda eru í mörgum af hinum 76 sveitarfélögum landsins starfandi ungmennaráð; fulltrúar þeirra lögðu gott til í stjórnlagaráðsvinnunni eins og lesa  má um hér.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur