Laugardagur 27.08.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Frelsissvipting (27. gr.)

Í 27. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er að finna eitt mikilvægasta ákvæði stjórnarskráa og mannréttindaskráa frá upphafi – þ.e. ákvæði sem verndar réttinn til frelsis, sem í erlendu lagamáli er stundum kenndur við habeas corpus.

Sá réttur hefur aðeins verið tekinn úr sambandi í borgarastyrjöldum og einræðisríkjum og við þvíumlíkar aðstæður – en því miður of oft við slíkar aðstæður.

Í ákvæðinu segir:

Engan má svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum.

Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi á rétt á að fá að vita tafarlaust um ástæður þess.

Hvern þann sem er handtekinn vegna gruns um refsiverða háttsemi skal án undandráttar leiða fyrir dómara. Sé hann ekki jafnskjótt látinn laus skal dómari, áður en sólarhringur er liðinn, ákveða með rökstuddum úrskurði hvort hann skuli sæta gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðhaldi má aðeins beita fyrir sök sem fangelsisvist liggur við. Með lögum skal tryggja rétt þess sem sætir gæsluvarðhaldi til að skjóta úrskurði um það til æðra dóms. Maður skal aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur.

Hver sá sem af öðrum ástæðum en í tengslum við sakamál er sviptur frelsi á rétt á að dómstóll kveði á um lögmæti þess svo fljótt sem verða má. Reynist frelsissvipting ólögmæt skal hann þegar látinn laus.

Hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skal hann eiga rétt til skaðabóta.

Í gildandi stjórnarskrá segir um þetta – nær orðrétt það sama; eini orðalagsmunurinn er að skáletruðu orðunum í 4. mgr. 27. gr. er bætt við til áréttingar auk þess sem hugtakið „fangelsisvist“ kemur í stað sambærilegs lágmarks þar sem rætt er um þyngri refsingu en fésekt eða varðhald – en það felur í sér fangelsisrefsingu miðað við gildandi refsirétt.

Enn fremur er ein minniháttar efnisbreyting – að lausn grunaðs manns gegn tryggingu (í stað gæsluvarðhalds) er felld brott, sem grundvallast á því að sú heimild mun aldrei hafa verið notuð – og teljist mismuna sakborningum eftir efnahag. Ég taldi þá breytingu að vísu óþarfa – en líklega skaðlausa þar sem halda má því fram að ekkert banni löggjafanum að kveða á um að dómari geti látið sakborning lausan gegn tryggingu eins og nú er í lögum, þ.e. að gæta þess meðalhófs að láta tryggingu (eða farbann, sem nokkuð er notað) duga – ef það nær sama markmiði; á móti koma áðurnefnd jafnræðisrök sem ég tel að vísu fremur haldlítil þar sem væntanlega má ákveða tryggingu eftir efnahag sakbornings auk annarra atriða, svo sem alvarleika meints brots, eins og gjarnan er gert í ríkjum sem nota þetta úrræði.

Hér má lesa ítarlegri skýringar skrifstofu stjórnlagaráðs með stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs (sjá um þetta ákvæði á bls. 74).

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur