Þriðjudagur 06.09.2011 - 23:26 - FB ummæli ()

Hlutverk (Alþingis) (37. gr.)

Með 37. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs hefst nýr kaflli (III) – um Alþingi – en um kaflann má lesa í ítarlegum skýringum með stjórnarskrárfrumvarpinu enda er þetta eitt veigamesta umfjöllunarefnið í frumvarpinu sem og í gildandi stjórnarskrá þar sem segir að Alþingi og forseti Íslands fari saman með löggjafarvaldið og svo er þar er fjallað um skipan Alþingis, hlutverk þess og starfsemi.

Í 37. gr. frumvarpsins segir:

Alþingi fer með löggjafarvald og fjárstjórnarvald ríkisins og hefur eftirlit með framkvæmdarvaldinu svo sem nánar er mælt fyrir um í stjórnarskrá þessari og öðrum lögum.

Efnisbreyting…

Í gildandi stjórnarskrá eru þessi mikilvægu hlutverk – fjárstjórnarvaldið og eftirlitsvaldið – ekki nefnd berum orðum með þessum hugtökum en hlutverkin sjálf felast vitaskuld í ýmsum ákvæðum hennar. Auk þess sem skýrara þótti að nefna hugtökin sjálf í þessu ákvæði eru þessi aðalhlutverk Alþingis aukin og styrkt verulega hvað varðar eftirfarandi þrjá megin valdþætti – en hinir tveir síðarnefndu gleymast oft þegar rætt er um Alþingi eða að þeir eru ranglega taldir felast í löggjafarvaldinu:

  • löggjafarvald,
  • fjárstjórnarvald og
  • eftirlitsvald.

Í þessu felst ein meginefnisbreytingin frumvarpsins – að færa Alþingi aukið vald, í flestum tilvikum á kostnað ríkisstjórnar og ráðherra; þannig er dregið úr því sem stundum er nefnt „ráðherraræði.“

… og nýmæli að formi til

Megin breytingin að forminu til er því sú að nefna sérstaklega tvö önnur mikilvæg hlutverk – auk þess að vera löggjafarþing – sem Alþingi fer með eins og þjóðþing í flestum þingræðisríkjum og jafnvel þar sem forsetaræði ríkir, þ.e.:

  • fjárstjórnarvald ríkisins (en auk þess fara sveitarfélög með hlut í fjárstjórnarvaldinu samkvæmt stjórnarskrárfrumvarpinu og gildandi stjórnarskrá) og
  • eftirlitsvald gagnvart handhöfum framkvæmdarvaldsins, ekki síst ráðherrum.

Fjárstjórnarvald

Í hinu vanmetna fjárstjórnarvaldi felst réttur til þess að leggja á skatta – að meginstefnu til með lögum raunar – og réttur og skylda til þess að ákveða fjárveitingar – með svonefndum „fjárlögum.“

Eftirlitsvald

Í eftirlitsvaldinu felst t.d. réttur til að spyrja ráðherra spurninga og krefja handhafa framkvæmdarvalds um upplýsingar og skýrslur; er sá réttur nátengdur þingræðisreglunni – þ.e. að ríkisstjórn þurfi að styðjast við meirihluta þjóðþingsins eða a.m.k. njóta hlutleysis þess.

Löggjafarvald

Um löggjafarvaldið segir einnig í 2. gr. að með það fari Alþingi í umboði þjóðarinnar eins og ég hef áður skrifað um.

Þá töldu margir í stjórnlagaráði mikla breytingu felast í því að ekki væri í frumvarpinu eins og í gildandi stjórnarskrá sagt að Alþingi og forseti Íslands færu saman með löggjafarvaldið; ég var ekki á sama máli og var í hópi þess meirihluta sem vildi fella það brott.

Ástæður afstöðu minnar voru – eins og eins og ég hef áður skrifað um:

  1. að „löggjafarvald“ forseta Íslands í frumvarpinu eins og í gildandi stjórnarskrá felst einkum í þeim „neikvæða“ rétti hans að synja lögum staðfestingar og skjóta framtíðargildi þeirra þannig undir þjóðaratkvæði; tel ég ofmælt að kalla þann – óbreytta – rétt forseta hlut í löggjafarvaldi (en löggjafarvald felst einkum í „jákvæðum“ frumkvæðisrétti til þess að setja reglur – sem auk þess er frekar í höndum þjóðarinnar samkvæmt frumvarpinu);
  2. að afnumin er sú regla stjórnarskrárinnar að forseti skrifi upp á tillögur ríkisstjórnar að frumvörpum sem leggja á fyrir Alþingi; og
  3. að loks er afnuminn sá „jákvæði“ réttur forseta – að ákvörðun ráðherra – að setja bráðabirgðalög; er það raunar ein veigamesta – og að mínu mati ein besta – breytingin sem stjórnlagaráð leggur til til úrbóta á stjórnskipan landsins. Var það furðu lítið umdeilt. Um það fjalla ég nánar síðar.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur