Laugardagur 24.09.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Opnir fundir (Alþingis) (55. gr.)

Í 55. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Fundir Alþingis eru haldnir í heyranda hljóði.

Þingnefnd getur ákveðið að fundur hennar sé opinn almenningi.

Í gildandi stjórnarskrá er sams konar ákvæði og í 1. mgr. 55. gr. frumvarpsins að frátöldu orðalagsfráviki þar sem nú er rætt um að þingfundir séu haldnir í heyranda hljóði í stað þess að þeir skuli vera það.

Lokunarákvæði fellt brott

Í stjórnarskránni er hins vegar eftirfarandi ákvæði sem stjórnlagaráð ákvað – eftir nokkra íhugun – að fella brott:

Þó getur forseti eða svo margir þingmenn, sem til er tekið í þingsköpum, krafist, að öllum utanþingsmönnum sé vísað burt, og sker þá þingfundur úr, hvort ræða skuli málið í heyranda hljóði eða fyrir luktum dyrum.

Þrátt fyrir efasemdir sumra, þ.m.t. af minni hálfu, hvort rétt væri að útiloka alveg neyðarráðstöfun sem þessa – að geta haldið þingfund fyrir luktum dyrum – var talið að lýðræðis- og gegnsæisrök væru þyngri á metunum en röksemdir um ófyrirsjánlegar neyðaraðstæður enda komu ekki fram dæmi um að þetta heimildarákvæði hefði verið nýtt, t.d. á stríðstímum.

Eins og fram kemur í skýringum með ákvæðinu með ákvæðinu er greint á milli fundar í heyranda hljóði – sem samkvæmt þessu er fortakslaus regla – og þess hvort slíkur opinn fundur sé aðeins sendur út rafrænt í undantekningartilvikum eða einnig opinn almenningi í bókstaflegum skilningi eins og meginreglan er.

Opnir þingnefndarfundir eru frávik

Þá er bætt við heimild til handa þingnefndum að opna fundi sína – en það er þá valkvætt frávik miðað við það sem tíðkast hefur; til þess er að líta að erfitt getur verið að ná góðum vinnufriði og vinnuanda á opnum nefndarfundum – eins og störf stjórnlagaráðs sjálfs sýndu en nefndarfundir þess voru ekki opnir þrátt fyrir heimild í starfsreglum til þess að opna þá. Einnig hafa komið fram þau rök að séu slíkir vinnufundir galopnir færist raunverulega vinna, rökræða og umræða óhjákvæmilega á annan óformlegri vettvang, t.d. í „reykfyllt bakherbergi“ þar sem engar fundargerðir eru haldnar eins og raunin er á bæði opnum og lokuðum formlegum fundum þings, ráðs og nefnda.

Það breytir því ekki að ég tel opna þingnefndarfundi mjög mikilvægt nýmæli og tæki til aðhalds og umræðu og eins og ég hef raunar reynslu af.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur