Sunnudagur 09.10.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Réttur fjárlaganefndar til upplýsinga (70. gr.)

Í 70. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er stórmerkilegt ákvæði þar sem það styrkir bæði fjárstjórnar- og eftirlitshlutverk Alþingis og dregur e.t.v. auk þess óbeint úr ráðherraræði; þetta stutta og skýra ákvæði endurspeglar þar með þrjú af mikilvægustu nýmælunum í öllu starfi stjórnlagaráðs:

Fjárlaganefnd Alþingis getur krafið stofnanir ríkisins, ríkisfyrirtæki og þá aðra, sem fá framlög úr ríkissjóði, um upplýsingar sem tengjast ráðstöfun þess fjár.

Ákvarðanir um fjárveitingar fyrirfram og aðhald eftirá

Í skýringum skrifstofu stjórnlagaráðs segir um þetta nýmæli:

Ákvæðinu er ætlað að vera þáttur í tvískiptu hlutverki Alþingis við meðferð fjárstjórnar, ann­ars vegar að taka ákvarðanir fyrir fram og hins vegar að vera eftirlitsaðili með ráðstöfunum sem þegar hafa verið gerðar hvað varðar fjárreiður ríkisins.

Í gildandi stjórnarskrá er ekkert sambærilegt ákvæði enda eru engar fastanefndir Alþingis umræddar þar – hvorki með nafni né óbeint eins og áður er vikið að. Eins og þar kom fram var þetta nokkuð umdeilt í stjórnlagaráði en niðurstaðan varð að nefna þrjár fastanefndir Alþingis með nafni – í tengslum við hlutverk þeirra; áður er vikið að þeirri nýju og síðar verður fjallað um þá þriðju. Þetta er þó ekki það merkilegasta við þetta ákvæði.

Stóraukið eftirlitsvald fjárlaganefndar

Nýmælið er bæði

  • lagalegt þar sem það fær stjórnarskrárgildi og
  • raunverulegt þar sem þetta er breyting og aukning á beinni stöðu fjárlaganefndar í stað þess að slík mál fari f.o.f. í gegnum Ríkisendurskoðun, sem er e.k. fjárhagslegur varðhundur þingsins.

Formlegt inntak

Formlega nær upplýsingarétturinn til eftirfarandi aðila:

  1. stofnana ríkisins,
  2. ríkisfyrirtækja og
  3. annarra þeirra,“ sem fá framlög úr ríkissjóði“.

Þetta var ekki mikið álitamál í valdþáttanefnd (B), þar sem ég sat, sem samdi tillögu að ákvæðinu fyrir stjórnlagaráð.

Efnislegt inntak

Meira álitamál var hver efnislegur upplýsingaréttur ætti að vera, þ.e. inntak hans; niðurstaðan varð að upplýsingakrafa fjárlaganefndar lyti að upplýsingum

sem tengjast ráðstöfun þess fjár.

Ekki var sem sagt fallist á mun víðtækari tillögu stjórnlaganefndar um að fjárlaganefnd ætti að geta krafið framangreinda aðila – og þá f.o.f. ekki „þá aðra, sem fá framlög úr ríkissjóði“ – um

hvers kyns upplýsingar um fjárreiður þeirra.

Svo víðtækur réttur hefði nefnilega getað verið skilinn þannig að smávægilegur styrkur úr ríkissjóði til einstaklings eða lögaðila leiddi til þess að allt bókhald hans ætti að vera fjárlaganefnd sem opin bók; sumir gætu sagt að þá gætu þeir, sem slíkt vildu ekki, bara hafnað styrkjum en okkur í valdþáttanefnd (B) þótti slík regla of harkaleg og ekki í samræmi við meðalhóf.

Efnislega nær rétturinn til upplýsinga – sem telja má rýmra en einungis rétt til gagna (sem er eitthvað hlutlægt).

Bærni

Í skýringum skrifstofu stjórnlagaráðs segir um það sem ég nefni bærnireglur í sambandi við þá ákvörðun að aðeins fjárlaganefnd hafi þessa heimild (áherslur GT):

Hins vegar geta aðrar nefndir beint erindum sínum til fjárlaganefndar og hún komið þeim áfram eftir atvikum. Þá má nefna að 93. gr. frum­ varpsins veitir nú þinginu, þingnefndum og þingmönnum víðtækari upplýsingarétt gagnvart ráðherrum en núverandi skipan gerir ráð fyrir.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur