Laugardagur 29.10.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Stjórnarmyndun (90. gr.)

Ákvæði 90. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs var eitt mest rædda ákvæðið í valdþáttanefndi (B) stjórnlagaráðs. Sömuleiðis er það eitt ítarlegast skýrða ákvæðið en um það eru 5 bls. í skýringum. Í því eru þó ekki mjög róttækar breytingar – en ýmsar breytingar þó.

Ákvæðið hljóðar svo:

Alþingi kýs forsætisráðherra.

Eftir að hafa ráðfært sig við þingflokka og þingmenn gerir forseti Íslands tillögu til þingsins um forsætisráðherra. Er hann rétt kjörinn ef meirihluti þingmanna samþykkir tillöguna. Að öðrum kosti gerir forseti Íslands nýja tillögu með sama hætti. Verði sú tillaga ekki samþykkt fer fram kosning í þinginu milli þeirra sem fram eru boðnir af þingmönnum, þingflokkum eða forseta Íslands. Sá er flest atkvæði hlýtur er rétt kjörinn forsætisráðherra.

Hafi forsætisráðherra ekki verið kjörinn innan tíu vikna skal Alþingi rofið og boðað til nýrra kosninga.

Forsætisráðherra ákveður skipan ráðuneyta og tölu ráðherra og skiptir störfum með þeim, en ráðherrar skulu ekki vera fleiri en tíu.

Forseti Íslands skipar forsætisráðherra í embætti. Forseti veitir forsætisráðherra lausn frá embætti eftir alþingiskosningar, ef vantraust er samþykkt á hann á Alþingi, eða ef ráðherrann óskar þess. Forsætisráðherra skipar aðra ráðherra og veitir þeim lausn.

Ráðherrar undirrita eiðstaf að stjórnarskránni þegar þeir taka við embætti.

Í gildandi stjórnarskrá segir það eitt um stjórnarmyndun að forsetinn skipi ráðherra og veiti þeim lausn; hann ákveði tölu þeirra og skipti störfum með þeim.

Ekki róttækar breytingar…

Í 90. gr. er málsmeðferð við stjórnarmyndun breytt nokkuð í því skyni

  1. að auka ábyrgð Alþingis og
  2. gera skýrara fyrir kjósendum hvaða ríkisstjórn „kemur upp úr kjörkössunum.“ Í þessu felast þó ekki róttækar breytingar á hvaða ríkisstjórn verður mynduð enda er áfram
  • byggt á þingræði, þ.e. að ríkisstjórn (eða a.m.k. forsætisráðherra) þurfi að njóta stuðnings meirihluta Alþingis og
  • gert ráð fyrir atbeina forseta Íslands við stjórnarmyndun.

Í skýringum segir m.a.:

Í þriðja lagi er með þessu fyrirkomulagi fremur unnt að krefja stjórnmálaleiðtoga um afstöðu til stjórnarmyndunar fyrir kosningar en ef forseti kemur að stjórnarmyndun með þeim hætti sem verið hefur á Íslandi. Leiðtogar munu ekki geta skotið sér á bak við það að veiting umboðs til stjórnarmyndunar sé í höndum forseta, heldur munu flokkar þeirra þurfa að greiða at­ kvæði opinberlega með þeim tillögum sem gerðar verða og eiga aðild að þeim. Líkindi standa til þess að þróun hérlendis verði á sama veg og tíðkast hefur í skandinavísku ríkjunum þar sem kjósendur og fjölmiðlar fyrir þeirra hönd hafa leitað eftir svörum og fengið svör við því frá flokksforystufólki um hvern flokkar styðji sem forsætisráðherra þannig að kjósendur hafa getað kosið með hliðsjón af þeim svörum. Neiti forystufólk flokka að svara eða ef það gengur á bak orða sinna mun það hafa afleiðingar fyrir fylgi flokkanna, fyrr eða síðar. Niðurstöður um ríkisstjórnarmynstur liggja í þessum löndum gjarnan fyrir þegar á kosninganótt.

… en allmargar breytingar þó

Eins og nánar má ráða af skýringum með vísan til fyrirmynda, röksemda og dæma er eftirfarandi meginbreytingar að finna í 90. gr. frumvarpsins:

  1. Alþingi kýs forsætisráðherra formlega frekar en að forseti skipi hann (eins og aðra ráðherra nú) yfirleitt í kjölfar árangursríkra stjórnarmyndunarviðræðna eftir viðræður við leiðtoga stjórnmálaflokka á þingi.
  2. Forseti Íslands gerir formlegar tillögu – eina og svo aðra til vara eftir atvikum – til Alþingis um forsætisráðherraefni í stað þess að fela stjórnmálaleiðtogum stjórnarmyndunarumboð óformlega (eftir atvikum til skiptis).
  3. Þingflokkar og einstakir þingmenn geta auk forseta Íslands – eftir tvær árangurslausar tillögur frá forseta – gert sjálfstæðar tillögur um forsætisráðherraefni í stað þess að forseti þurfi nú fyrst að fela einhverjum stjórnarmyndunarumboð.
  4. Forsætisráðherra getur við þessar aðstæður (eftir tvær árangurslausar tillögur forseta) náð kjöri án þess að fá hreinan meirihluta atkvæða ef hann fær flest atkvæði þingmanna í þessari þriðju tilraun; væri slík stjórn því minnihlutastjórn. Kemur þessi leið öðrum þræði í stað þess varnagla sem forseti Íslands er talinn hafa eftir langvinnar árangurslausar tilraunir til þess að mynda meirihluta-þingræðisstjórn en það hefur hann – eða öllu heldur ríkisstjóri – aðeins einu sinni gert, 1942.
  5. Takist ekkert af þessu innan 10 vikna skal þing rofið og kosið að nýju í stað þess að þingrof sé ákvörðunaratriði eftir mati í höndum fráfarandi forsætisráðherra með atbeina forseta Íslands.
  6. Áréttuð er sú regla sem felst í stjórnarskránni að forsætisráðherra eigi ekki aðeins að ákveða fjölda ráðherra heldur einnig skipta störfum með þeim, svo og skipan ráðuneyta.
  7. Sett er hámark á fjölda ráðherra; 10 talsins mega þeir flestir vera.
  8. Forsætisráðherra – en ekki foresti Íslands – skipar aðra ráðherra og veitir þeim lausn.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur