Sunnudagur 30.10.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Vantraust (91. gr.)

Í gær var fjallað um stjórnarmyndun skv. 9o. gr. stjórnarskrárfrumvarpins og þar með hinn „jákvæða“ hluta hinnar óskráðu en stjórnarskrárbundnu þingræðisreglu. Í 91. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins er fjallað um spegilmyndina – vantraustið – sem er hin „neikvæða“ hlið þingræðisreglunnar og endapunktur hinnar pólitísku ábyrgðar ráðherra í þingræðisríki.

Um hvorugt er fjallað í gildandi stjórnarskrá og er 91. gr. því algert nýmæli formlega – en efnislega að mestu staðfesting á því sem gildir samkvæmt 100 ára stjórnskipunarvenju – með einu fráviki.

Í 91. gr.  stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Leggja má fram á Alþingi tillögu um vantraust á ráðherra. Í tillögu um vantraust á forsætisráðherra skal felast tillaga um eftirmann hans.

Ráðherra er veitt lausn úr embætti ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á hann. Ríkisstjórn er veitt lausn ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á forsætisráðherra.

Í gildandi stjórnarskrá er sem sagt ekkert um vantraust að finna. Reglan felur það nákvæmlega sama í sér og nú gildir samkvæmt óskráðum stjórnskipunarvenjum:

Öll ríkisstjórnin

  1. Leggja má fram á Alþingi tillögu um vantraust á forsætisráðherra og þar með ríkisstjórnina alla.
  2. Ríkisstjórn er veitt lausn ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á forsætisráðherra.

 Einstakir ráðherrar

  1. Einnig má leggja fram vantrauststillögu gagnvart einstökum ráðherra.
  2. Einstökum ráðherra er veitt lausn úr embætti ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á hann.

Raunar hefur ekki komið til þess að ríkisstjórn hafi vikið vegna vantrausts síðan fyrir fyrri heimsstyrjöld; engu að síður – eða kannski einmitt í ljósi þess – taldi stjórnlagaráð ástæðu til þess að takmarka  það sem kalla má óábyrgar vantrauststillögur sem fyrirfram er ólíklegt að nái fram að ganga. Í því skyni er lagt til að skilyrði vantrauststillögu á forsætisráðherra og þar með ríkisstjórnina alla sé að tillöguflytjendur hafi náð saman um annað forsætisráðherraefni; Alþingi getur því ekki losað sig – og þar með þjóðina – við forsætisráðherra og ríkisstjórn nema þingið hafi upp á eitthvað „betra“ að bjóða.

Sé það ómögulegt er alltaf hægt að leysa stjórnarkreppu með því að Alþingi álykti um þingrof, sbr. 73. gr. frumvarpsins sem áður er vikið að; árétta ber því að enginn réttur er tekinn af þinginu sem samkvæmt frumvarpinu mun hafa sjálfdæmi – í stað ákvörðunarvalds forsætisráðherra nú – um hvort og hvenær þingrof og þingkosningar eigi sér stað.

Þetta er kallað jákvætt eða uppbyggilegt vantraust eins og nánar má lesa um í skýringum þar sem m.a. má fræðast um fyrirmyndir að þessari leið og kostina við hana – svo sem þann að þá þarf ekki að treysta á svonefnda starfsstjórn á meðan ný ríkisstjórn er mynduð, eftir atvikum í kjölfar þingkosninga; um starfsstjórn verður fjallað á morgun, sbr. 92. gr. stjórnarskrárfrumvarpins.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur